Þróun leiðtoganámskeiða Menntafléttunnar um stærðfræðinám í leik- og grunnskólum

Kl. 12:00-13:30

Rannsóknarstofa í stærðfræðimenntun

Margrét S. Björnsdóttir

Áhrif þátttöku í leiðtoganámskeiði á námssamfélög stærðfræðikennara í skólum

Birna Hugrún Bjarnardóttir, verkefnisstjóri, MVS HÍ

Tilgangur rannsóknarinnar er að skoða hvaða áhrif þátttaka í leiðtoganámskeiði Menntafléttunnar hefur haft á námssamfélag stærðfræðikennara í skólum og hvað þarf að vera til staðar í skólasamfélaginu til að hægt sé að efla námssamfélag stærðfræðikennara innan skólanna.

Aðferðum starfendarannsókna var beitt við þessa rannsókn því sú aðferð hentar vel við rannsókn á skólastarfi. Þegar skólastarf er rannsakað er markmiðið yfirleitt að taka stöðuna og finna út hvernig hægt er að breyta eða bæta það sem fyrir er. Gögnin sem byggt er á eru niðurstöður úr könnun, fundargerðir, upptökur af fundum í skólum leiðtoga og námskeiðsgögn af námskeiði Menntafléttunnar; Hugtakaskilningur í stærðfræði. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna að þátttakendur á leiðtoganámskeiði bæta við reynslubanka sinn og telja flestir að þeir hafi haft gagn af námskeiðinu þannig að þeir hafi breytt sínum kennsluháttum að einhverju leyti. Þeir eru flestir jákvæðir gagnvart efni og fyrirkomulagi námskeiðsins og margir þeirra hafa náð að smita jákvæðni og áhuga til samkennara sinna. Margir þættir hafa áhrif á hversu öflugt námssamfélög eru í skólunum og þar koma skólastjórnendur til skjalanna. Þeir þurfa að sýna áhuga og stuðning og gefa tíma til samvinnunnar. Það sem skiptir höfuðmáli við að efla námssamfélög í skólum er öflugur félagastuðningur og samvinna kennara ásamt markvissum stuðningi stjórnenda.

 

Stærðfræðin í leik barna: Þróun námskeiðs fyrir stærðfræðileiðtoga í leikskólum

Margrét S. Björnsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ og Valdís Ingimarsdóttir, leikskólakennari, leikskólanum Furuskógi

Tilgangurinn með erindinu er að varpa ljósi á þróunarverkefni um menntun stærðfræðileiðtoga í leikskólum. Námskeiðið er á vegum Menntafléttunnar og byggir á efni frá Skolverket í Svíþjóð sem þróað er og aðlagað þörfum leikskóla á Íslandi í samstarfi við leikskólakennara. Byggt er á rannsóknum Alan Bishop um sameiginlegan grunn í stærðfræði í ólíkum menningarheimum; að leika, útskýra, hanna, staðsetja, mæla og telja. Markmið verkefnisins er að byggja upp námssamfélag í leikskólum og er lögð áhersla á að læra að greina þau stærðfræðilegu viðfangsefni sem börn fást við í leik og starfi og styðja þau við að þróa hugmyndir sínar. Hverju námskeiði er skipt í fjóra þróunarhringi sem á fyrsta námskeiðinu eru: Stærðfræðileg viðfangsefni, leikur, útskýringar og skráningar. Í upphafi hvers þróunarhrings hittast leiðtogarnir ásamt kennurum á MVS og ræða um viðfangsefni hringsins. Leiðtogarnir vinna svo með samstarfsfólki sínu að því að greina stærðfræðina í athöfnum barnanna, ræða við þau og skrá námssögur. Leiðtogarnir segja frá samstarfinu í leikskólanum á næsta námskeiðsdegi. Gögnum var safnað með upptökum á námskeiðsdögum, skráningu minnispunkta, námssögum úr leikskólum og svörum leiðtoganna við opnum spurningum. Unnið var úr gögnunum frá upphafi og niðurstöður nýttar til að þróa verkefnið. Verkefnið nýttist vel til að laga námskeiðið að leikskólanum og þeim aðstæðum sem þar eru. Niðurstöður sýna að leiðtogarnir gátu nýtt sér það til að byggja upp námssamfélag innan leikskólans og meðal annarra leiðtoga. Sóknarfærin varðandi stærðfræði í leikskólum eru mikil og starfsmenn áhugasamir. Þetta er nauðsynlegt að virkja og hefur námskeiðið verið opnað fyrir alla leikskóla í haust.