Um Menntakviku

Háskóli Íslands

Við erum 25 ára!

Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin á Menntakviku, stærstu menntaráðstefnu landsins – og eina stærstu ráðstefnu háskólans, þar sem kynntar eru nýjustu rannsóknir og þróun á sviði menntavísinda. Í ár er að finna á Menntakviku fjölbreytt úrval málstofa sem varpa ljósi á brýn viðfangsefni á sviði menntunar, náms, kennslu, heilsu, íþrótta og tómstunda.

Markmið Menntakviku er að miðla þekkingu, reynslu, hugmyndum og aðferðum sem geta nýst til að móta og styrkja það menntakerfi sem öll börn og raunar allir einstaklingar eiga skilið að hafa aðgengi að. Til að íslenskt samfélag sé í stakk búið til að takast á við krefjandi verkefni nútíðar og framtíðar þarf að skapa framúrskarandi skilyrði til náms og þroska. Þannig getur hvert og eitt barn og ungmenni – og hvert og eitt okkar lagt sitt af mörkum, mótað og haft áhrif á líf sitt og annarra.

Menntun hefst við fyrsta andardrátt og varir ævilangt. Þess vegna snertir svið menntavísinda í raun öll lífsskeiðin og öll svið samfélagsins. Rannsóknir staðfesta ótvírætt mikilvægi hinnar óformlegu menntunar sem á sér stað utan hins formlega skólakerfis. Lærdómur eða nám á sér stað í flóknu samspili ólíkra reynsluheima sem við sem einstaklingar lifum og hrærumst í og það sem gerist þegar merkingarbær reynsla snertir við strengjum í brjósti okkar og leysir úr læðingi krafta sköpunar, þroska og tilfinninga.

Menntavísindi bregða birtu á hvernig efla megi menntun, velferð, samvinnu, jafnrétti, heilbrigði, mannréttindi og sköpun í skólakerfinu, í frístundastarfi, á söfnum, á heimilum, í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Starfsfólk á sviði menntunar, sérfræðingar og öflugt hugsjónafólk leiða faglega umræðu og stefnumótun, innleiða breytingar og jafnvel byltingu, þegar hennar er þörf. Ég hvet ykkur öll til að taka virkan þátt í málstofum og taka þátt í að rökræða, greina og miðla því efni sem verður kynnt á Menntakviku. Dagskrá Menntakviku er fjölbreytt og endurspeglar þá grósku menntarannsókn og þá deiglu sem einkennir okkar samfélag. Um 280 erindi verða flutt í 76 málstofum – sem dæmi má nefna að á hverjum einasta tímapunkti verða í gangi samtímis allt að 19 málstofur sem gestir Menntakviku geta valið um.

Annað árið í röð er Menntakvika haldin rafrænt og er því aðgengileg óháð stað og jafnvel stund, því að upptökur verða aðgengilegar að ráðstefnunni lokinni. Lykilviðburður ráðstefnunnar fer fram í Bratta í Stakkahlíð kl. 15.30 og verður jafnframt streymt. Að þessu sinni verður sú dagskrá helguð 20 ára afmæli tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands.

Ég færi afmælisbarninu mínar bestu kveðjur, lýsi Menntakviku 2021 setta og óska þess að við megum læra, rökræða, miðla og vaxa í dag.

Góðar stundir!

Kolbrún Þ. Pálsdóttir

Forseti Menntavísindasviðs