Um Menntakviku

Menntastefna og farsæld: MENNTAKVIKA 2023

Menntakvika leiðir saman á hverju ári fjölda fagfólks og hagsmunaaðila sem láta sig menntun varða. Ráðstefnan fer fram að hausti ár hvert og þar eru kynntar rannsóknir um það sem efst er á baugi í menntavísindum hér á landi. Að þessu sinni er opnunarmálstofa og aðalerindi ráðstefnunnar helgað því að rýna í  tengsl menntastefnu og farsældar. Því sérstaklega kallað eftir ágripum og málstofum sem beinast að því megin þema, ásamt því að fjallað verður um fjölbreytt viðfangsefni sem varpa ljósi á grósku á sviði menntavísinda.
Mikla deigla er í íslensku menntakerfi um þessar mundir þar sem lögð er áhersla á heildstæða samvinnu um farsæld og menntun barna og ungmenna. Nýtt ráðuneyti mennta- og barnamál varð til árið 2021 og farsældarlög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna tóku gildi árið 2021. Þá hefur verið tekin ákvörðun um að leggja niður menntamálastofnun og vinna stjórnvöld að mótun nýrrar stofnunar sem meðal annars er ætlað að byggja upp heildstæða skólaþjónustu.

Hvaða máli skiptir menntastefna og hverjir koma að mótun hennar? Hverjir bera ábyrgð á menntun og farsæld barna og ungmenna? Hvaða hlutverki gegna ólíkar fagstéttir? Hver eru breytt hlutverk skóla og hvernig takast kennarar og skólastjórnendur á við nýjar áskoranir? Hvaða starfshættir og kennsluaðferðir styðja við árangur allra nemenda? Hvaða máli skipta félagatengsl, vinátta og frístundastarf? Hvaða tækifæri og áskoranir fylgja örri tækniþróun? Hvaða áhrif hafa breyttir lífshættir á heilsu, svefn og næringu í nútímasamfélagi? Hvaða sameiginlegu gildi ætti íslenskt samfélag að hafa að leiðarljósi þegar kemur að menntun og farsæld?


Leitað verður svara við ofangreindum spurningum og mörgum fleiri á Menntakviku 2023.