Um Menntakviku

Háskóli Íslands

Velkomin

Árleg ráðstefna Menntavísindasviðs Menntakvika: Rannsóknir, nýbreytni og þróun verður haldin við Háskóla Íslands föstudaginn 2. október 2020.

Menntakvika hefur skapað sér sess sem einn mikilvægasti farvegur Háskólans fyrir miðlun á þekkingu og rannsóknum sem snúa að menntamálum, skóla- og frístundastarfi, sem og velferð og virkri þátttöku allra í samfélaginu.

Menntarannsóknir eru grunnurinn að því að varpa ljósi á hin flóknu öfl sem móta nám og kennslu, sem móta félagslegan veruleika okkar allra. Í þeim flókna og síbreytilega heimi sem við búum í þurfum við ávallt að endurnýja þekkingu okkar, endurskoða og jafnvel umbylta starfsháttum.

Síðustu ár hefur skapast breið samstaða meðal stjórnvalda, fagfélaga, sveitarfélaga og háskólanna um mikilvægi menntunar. Fjölgun hefur orðið í kennaranámi og framundan eru spennandi tímar og áskoranir þar sem mun reyna á öfluga samvinnu fagfólks og fræðimanna.

Menntakvika leiðir saman á hverju ári fjölda fagfólks og hagsmunaaðila sem láta sig menntun og menntavísindi varða. Spennandi dagskrá bíður þátttakenda en flutt verða 220 erindi í 57 málstofum. Viðfangsefnin bera vott um þá grósku sem er á sviði menntarannsókna, bæði hérlendis og á alþjóðlegum vettvangi.

Við vonum að ráðstefnan skapi góðar umræður, kveiki nýjar hugmyndir og þekkingu.

Góða skemmtun!

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs HÍ og Kristín Erla Harðardóttir, forstöðumaður Menntavísindastofnunar HÍ

 

Kristín Harðardóttir