Hæfni á vinnumarkaði, raunfærnimat og starfsþróun

Kl. 12:00-13:30

Nám fullorðinna

Hróbjartur Árnason

Fagmennska í fullorðinsfræðslu

Hróbjartur Árnason, lektor, MVS HÍ

Nú á dögum kannast allir við þá staðreynd að sú tíð er liðin að fólk lærði til starfs í æsku og byggði svo starfsævina á sínu fyrsta námi á unglingsárum eða í háskóla, og að hæfniþróun færi fyrst og fremst fram á grunni reynslu og ígrundun hvers fyrir sig. Nú sækir fólk nýliðanámskeið þegar það hefur störf hjá fyrirtækinu, það fær fræðslu um nýju tölvukerfin og breytingar í lagaumhverfi. Sumir skipta alveg um starfsvettvang eða ákveða að þreyja loks sveinspróf eftir að hafa unnið fjölda ára í starfi. Þar hjálpar raunfærnimat og alls konar námsleiðir sem greiða fólki leiðir inn í ný störf. Þá sækja fullorðnir námskeið í tengslum við áhugamál, tómstundir og félagsstarf, í mörgum tilfellum getur fólk verið að þjálfa leikni sem skiptir sköpum á ögurstundu, eins og aðferðir björgunarsveita við björgun. Öll þessi dæmi má flokka sem fullorðinsfræðslu, sem sumir vilja kalla fimmtu stoð íslenska menntakerfisins. Því er þó eins farið á Íslandi eins og í flestum öðrum löndum, að óvíða eru gerðar formlegar kröfur um að kennarar í fullorðinsfræðslu hafi formlega menntun í kennslufræði sem er miðuð við þarfir og aðstæður fullorðinna. Flestir sem hafa kennt í fullorðinsfræðslu undanfarna áratugi, hafa dregist „óvart“ inn í starfið og lært það í vinnunni, oftast með því að prófa sig áfram. Margt er þó að breytast í þeim efnum. Í þessu erindi verður gefið yfirlit yfir þróun fræðilegrar umræðu um fagmennsku í fullorðinsfræðslunni undanfarin ár, með áherslu á nýrri rannsóknir og nálganir til að skilgreina nauðsynlega hæfni og leiðir til starfsþróunar.

 

Hvernig styðjum við færniuppbyggingu leiðbeinenda fullorðinna?

Lilja Rós Óskarsdóttir, sérfræðingur, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins; Hróbjartur Árnason, lektor, MVS HÍ; Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir, sérfræðingur, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins; Sif Svavarsdóttir, sérfræðingur, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Valgerður Guðjónsdóttir sérfræðingur, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Fræðsla fullorðinna fer fram víða í íslensku samfélagi, einna helst í atvinnulífinu hjá fræðslustofnunum og frjálsum félagasamtökum. Í fæstum tilfellum eru gerðar formlegar kröfur um menntun í kennslufræði til þeirra sem annast kennsluna, þó rannsóknir sýni ótvírætt að gæði leiðsagnar hafi mikil áhrif á árangur nema. Aðeins lítill hluti leiðbeinenda sækir lengra nám í kennslufræði og til þess að mæta brýnni þörf á færniuppbyggingu leiðbeinenda tóku Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Háskóli Íslands höndum saman. Unnin var hæfnigreining á starfi leiðbeinanda með þátttakendum úr atvinnulífi, skólaumhverfi og frjálsum félagasamtökum með það fyrir augum að skilgreina lykilhæfni leiðbeinenda í fullorðinsfræðslu. Í þessu erindi verður gerð grein fyrir ofangreindri vinnu, forsendum hennar, þeim ferlum sem beitt var við vinnuna sem og niðurstöðum hennar. Afurðir verkefnisins eru: Starfaprófíll fyrir leiðbeinendur í fullorðinsfræðslu, matslistar fyrir raunfærnimat og sjálfsmat, leiðarvísir um starfsþróun leiðbeinenda og gagnagrunnur yfir námskeið og aðrar leiðir til starfsþróunar fyrir leiðbeinendur fullorðinna. Afurðirnar eru verkfæri sem veita leiðbeinendum í fullorðinsfræðslu skýrar línur um þá hæfni sem þykir almennt nauðsynleg í því mikilvæga starfi sem þeir hafa með höndum. Sömuleiðis fá stjórnendur og verkefnastjórar sem koma að fræðslumálum innan fyrirtækja, félagasamtaka og fræðslustofnana verkfæri sem nýtast við ráðningu og stuðning við starfsþróun þeirra sem taka að sér fræðslu í þeirra samhengi. Um er að ræða hagnýtt verkefni sem byggir á fræðilegum skrifum um fagmennsku í fullorðinsfræðslunni, fjölda hæfnigreininga frá nágrannalöndum, alþjóðastofnunum og félagasamtökum en fyrst og fremst rýnihópavinnu með íslenskum aðilum sem þekkja vel til starfsins og tilraunum með starfandi leiðbeinendum.

 

Raunfærnimat á móti viðmiðum starfa – Fagbréf

Fjóla María Lárusdóttir, þróunarstjóri/sérfræðingur, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Haukur Harðarson, sérfræðingur, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA), Samtök atvinnulífsins (SA) og Alþýðusamband Íslands (ASÍ) stýrðu tilraunaverkefni í samstarfi við fjórar símenntunarmiðstöðvar og 10 fyrirtæki sem gekk út á að leggja upp ferli til að draga fram og staðfesta hæfni í starfi, bjóða upp á starfsþjálfun í þeim þáttum sem mögulega þyrfti að styrkja og votta heildarhæfnina með Fagbréfi á þrepi. Þróun aðferðafræðinnar byggir í grunninn á ferlum sem nýttir hafa verið í fyrri tilraunaverkefnum og ferlum sem starfsgreinar í Svíþjóð hafa þróað og unnið með góðum árangri. Verkefnastjórn vann að greiningu á störfum inn í tilraunina í samráði við hagsmunaaðila. Fimm störf urðu fyrir valinu.

Hæfniviðmið starfa voru útbúin fyrir matsferlið, byggð á hæfnigreiningum starfa (ferli FA) og matsaðilar fengu þjálfun í aðferðafræði raunfærnimats. Lagt var upp með 15 manna hópa úr störfunum fimm. Í samræðum stýrihópa hagsmunaaðila fyrir hvert starf kom í ljós þörf fyrir að vottun á hæfni í starfi fengi gildi á vinnumarkaði. Ákveðið var að útbúa Fagbréf í því skyni og er það tengt við íslenska hæfnirammann. Með því er sérhæfð sem og almenn hæfni starfsfólks gerð sýnileg og því auðveldara fyrir fólk að öðlast framgang í starfi og/eða fara á milli starfa. Um 70 manns hófu ferlið og hefur hluti þeirra fengið Fagbréf í hendur. Könnun á meðal þátttakenda og fyrirtækja leiddi ljós mikla ánægju með ferlið sem þótti hvetjandi og varpa skýrara ljósi á þá færni sem til staðar er í mannauði fyrirtækja. Hvernig Fagbréfið nýtist síðan fólki inn í formlega skólakerfið á eftir að koma í ljós.

 

Raunfærnimat í almennri starfshæfni

Steinunn Björk Jónatansdóttir, náms- og starfsráðgjafi / deildarstjóri

Í þessu erindi verður gerð grein fyrir nýlegu meistaraverkefni þar sem markmiðið var að skoða hvaða áhrif raunfærnimat í almennri starfshæfni hefur á þá sem í matið fara. Almenn starfshæfni er yfirfæranleg færni sem má yfirfæra milli starfa og starfsgreina. Með raunfærnimati í almennri starfshæfni er hún gerð sýnileg, og auðveldar þátttakendum að átta sig á eigin hæfni, hvernig má þróast í starfi og taka að sér meira krefjandi störf og verkefni. Þátttakendur í rannsókninni voru sex, komu frá tveimur símenntunarmiðstöðvum og voru allir í starfsendurhæfingu. Tekin voru hálfopin viðtöl. Niðurstöður leiddu í ljós að matsferlið virðist virka mjög valdeflandi á þátttakendur, auka sjálfstraust og þekkingu á eigin færni. Þátttakendur voru meðvitaðri um hvað þeir hefðu afrekað og hvernig þeir gætu nýtt hæfni sína. Stuðningur náms- og starfsráðgjafa virðist hafa haft mikið að segja um að þátttakendur luku ferlinu. Áður höfðu þeir lagt mikið á sig til að stíga aftur inn í skólakerfið, jafnvel oftar en einu sinni en ekki tekist. Trú á eigin getu hafði boðið hnekki og þá skorti jákvæða upplifun. Allir viðmælendur voru sammála um að matið hefði haft afgerandi áhrif á hvernig þeir sæju sig og hjálpað þeim að hugleiða færni á nýjan hátt. Draga má þá ályktun að þátttakendur hafi fengið heildstæða nálgun sem virðist virka vel með annarri sjálfsvinnu.