Þroskaþjálfar sem fagstétt í skólakerfinu: Staða, áskoranir og tækifæri

Kl. 8:30-10:00

Þroskaþjálfafræði

Vilborg Jóhannsdóttir

Framlag fagstéttar þroskaþjálfa til skólastarfs án aðgreiningar

Vilborg Jóhannsdóttir, lektor, MVS HÍ og Jóna G. Ingólfsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ

Erindið sem hér er kynnt byggir á yfirstandandi rannsókn höfunda á störfum og starfsþróun þroskaþjálfa vítt og breitt í samfélaginu. Horft er til þeirra áskorana sem þroskaþjálfar standa frammi fyrir í störfum sínum í síbreytilegu starfsumhverfi. Hvatinn að rannsókninni er m.a. þær starfsþróunarkröfur sem samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks gerir til þjónustuaðila og fagstétta um að afnema starfshætti sem ekki samræmast ákvæðum hans og stuðla að viðeigandi breytingum. Í þessu erindi er sjónum einkum beint að skólahluta rannsóknarinnar í ljósi ákvæða 24. greinar samningsins sem fjallar um rétt til menntunar án aðgreiningar. Rannsóknin byggir á félagslegu sjónarhorni mannréttinda sem og faglegum og siðfræðilegum starfsviðmiðum þroskaþjálfa. Gagna var aflað með spurningakönnun í samstarfi við Þroskaþjálfafélag Íslands sem og með rýnihópaviðtölum. Menningar-söguleg starfsemiskenning er notuð við greiningu gagnanna. Niðurstöðurnar sýna að þroskaþjálfar gegna veigamiklu hlutverki innan skólakerfisins við að treysta og halda utan um félagslega og námslega þátttöku fjölbreytts nemendahóps sem þarf á stuðningi að halda. Helstu áskoranir þroskaþjálfanna og togstreitur í starfi verða ræddar sem og þær lausnir sem þeir telja að geti stuðlað að farsælli þróun skólastarfs án aðgreiningar.

 

Togstreitur sem sóknarfæri til starfs- og skólaþróunar

Jóna G. Ingólfsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ og Vilborg Jóhannsdóttir, lektor, MVS HÍ

Í erindinu verður rýnt í niðurstöður úr skólahluta yfirstandandi rannsóknar höfunda á störfum og starfsþróun þroskaþjálfa innan skólakerfisins á Íslandi með aðstoð meginreglna menningar-sögulegrar kenningar um útvíkkað nám. Engeström lagði til að starfsemiskerfi (e. activity system), þar sem hópur fólks vinnur að sameiginlegu viðfangsefni, s.s. stofnun eða vinnustaður, væri sú eining sem lögð væri til grundvallar í þróunar- og breytingastarfi. Samkvæmt þessu er litið á skólann sem starfsemiskerfi sem skoða þarf með hliðsjón af ólíkum bakgrunni þeirra er þar starfa. Á grundvelli niðurstaðnanna eru kynntar tilgátur um mikilvæg atriði sem stuðlað gætu að skilvirkara skólastarfi í anda stefnunnar um skóla án aðgreiningar. Sjónum er beint að jafnhliða þróun starfsemiskerfisins og hlutaðeigandi fagstétta í sögulegu samhengi og þeim mótsögnum sem birtast. Þetta er gert í því skyni að koma auga á hvernig stuðla megi að áframhaldandi vexti og þróun skólastarfs með myndun sameiginlegs skilnings á markmiðum og framkvæmd skóla án aðgreiningar. Gagna var aflað meðal starfandi þroskaþjálfa með spurningakönnun og rýnihópaviðtölum ásamt sem nýjar skýrslur og úttektir á framkvæmd stefnunnar hér á landi eru rýndar. Greining á niðurstöðunum sýnir að fagþekkingar þroskaþjálfa er þörf innan skólans vegna faglegra og siðfræðilegra starfsviðmiða þeirra um að ryðja hindrunum úr vegi og stuðla að virkri þátttöku fatlaðra nemenda í skólastarfinu.

 

Staða og hlutverk þroskaþjálfa í framhaldsskólum

Kolbrún Ingibergsdóttir, þroskaþjálfi í Hörðuvallaskóla og verkefnastjóri Ljósbrots, Vilborg Jóhannsdóttir, lektor, MVS HÍ og Jóna G. Ingólfsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ

Í erindinu verður sjónum beint að störfum og starfsumhverfi íslenskra þroskaþjálfa í framhaldsskólum. Erindið byggir á BA-rannsókn höfundar og felur í sér fræðilega úttekt og eigindlega rannsókn sem byggir á viðtölum við fimm reynslumikla þroskaþjálfa. Flestir þeirra búa jafnframt yfir víðtækri starfsreynslu á breiðum vettvangi. Markmið ritgerðarinnar var að fjalla um faglega stöðu og hlutverk þroskaþjálfans sem fagstéttar í framhaldsskólum með áherslu á hvernig sérþekking þeirra nýtist á þessu skólastigi. Skoðaðar eru þær áskoranir sem þroskaþjálfarnir standa andspænis í störfum sínum og hvar þeir sjá möguleikana á sóknarfærum til áframhaldandi starfsþróunar. Eins verður fjallað um þær bjargir sem þeir nota til starfsþróunar. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingar um skörun við aðrar fagstéttir innan framhaldsskólans og þá sér í lagi við sérkennara. Sumir þroskaþjálfanna höfðu sótt sér sérkennsluréttindi en aðrir starfa undir fagheitinu sérkennari án þess að hafa sótt sér kennaramenntun. Þrátt fyrir að flestir þroskaþjálfarnir séu starfandi sem sérkennarar kom ótvírætt í ljós að þeir töldu menntun sína sem þroskaþjálfi mikilvæga á þessum vettvangi vegna faglegrar nálgunar og einstaklingsmiðaðrar hugsunar. Fram kom að þroskaþjálfarnir finna fyrir stéttaskiptingu innan framhaldsskólans. Einnig töldu þroskaþjálfarnir menntun sína ekki hljóta náð fyrir augum stjórnenda til þess að eiga tækifæri á að hljóta framgang í starfi. Þroskaþjálfarnir telja hugmyndafræði og sérþekkingu fagstéttarinnar eiga fullt erindi inn í framhaldsskólana þrátt fyrir að þeir standi frammi fyrir þessum áskorunum. Þroskaþjálfarnir sem rætt var við leita víða fanga til þess að efla sig í starfi og til þess að mæta margbreytilegum hópi nemenda í framhaldsskólum.