Meistaraprófsverkefni, utanumhald og námssamfélag

Kl. 10:10-11:40

RannSTARF, RASK og rannsóknarhópurinn SvaKaHaf-EddAn

Svanborg Rannveig Jónsdóttir

Að efla faglega sjálfsvitund gegnum meistaraprófsverkefni. Utanumhald og námssamfélag

Svanborg Rannveig Jónsdóttir, prófessor, MVS HÍ; Hafdís Guðjónsdóttir, prófessor, MVS HÍ; Anna Katarzyna Wozniczka, doktorsnemi, MVS HÍ; Edda Óskarsdóttir, lektor, MVS HÍ og Karen Rut Gísladóttir, dósent, MVS HÍ

Meistaranemar í M.Ed.-námi á Menntavísindasviði eiga að gera viðamikið lokaverkefni undir handleiðslu leiðsagnarkennara. Í slíku verkefni birtist það sem nemandinn hefur lært og hann setur það í samhengi við sjálfvalið viðfangsefni. Í verkefninu skoðar meistaraneminn afmarkað efni í ljósi fræðilegs bakgrunns og sýnir hvað liggur að baki þeirri fagmennsku sem hann byggir starf sitt á. Við fimm leiðbeinendur höfum safnað margvíslegum gögnum um hvernig megi styðja meistaranema gegnum námssamfélag meistaranema og leiðbeinenda. Fyrri niðurstöður okkar sem byggja á gögnum yfir 12 ára tímabil sýndu að miklu máli skiptir að halda vel utan um meistaranemana, gefa þeim ramma og stöðugleika og tækifæri til að hitta jafningja sína reglulega, sem og að fá sérfræðistuðning leiðbeinenda. Í vor gerðum við rannsókn á gildi lokaverkefna í meistaranámi. Tilgangur rannsóknarinnar er að skoða áhrif þess að gera umfangsmikið rannsóknarverkefni á fagmennsku og starfshætti. Rannsóknarspurningin er: Hvaða áhrif hefur vinna við meistaraprófsverkefni á starfshætti og faglega sjálfsmynd útskrifaðra meistaranema?  Gögnum var safnað með spurningakönnun til 107 meistaranema sem hafa tekið þátt í hópleiðsögn okkar á síðastliðnum 12 árum og lokið meistaraprófi. Einnig tókum við sex rýniviðtöl við 25 nemendur úr sama hópi. Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að flestir meistararnir telja að rannsóknartengt lokaverkefni hafi fært þeim faglega valdeflingu og telja að þeir eigi auðveldara með að taka afstöðu og útskýra vinnubrögð sín. Nokkrir sögðu að þeir hefðu frekar valið MT-leiðina hefði hún verið í boði. Flestir lögðu áherslu á að reglulegir hópleiðsagnarfundir og utanumhald um rannsóknar- og ritunarferlið hefði veitt þeim dýrmætan stuðning.

 

„Hann er ekki að vera óþekkur, hann er að vera skapandi“. Ávinningur og áskoranir í samþættingu nýsköpunarmenntar og grenndarnáms

Anna Katrín Þórarinsdóttir M.Ed., grunnskólakennari, Kerhólsskóla

Leiðbeinendur: Svanborg R. Jónsdóttir, prófessor, MVS HÍ og Hafdís Guðjónsdóttir, prófessor, MVS HÍ

Ég er grunnskólakennari í litlum grunnskóla á Suðurlandi. Fyrra nám mitt í Kaospilot-skólanum í Árósum hafði mikil áhrif á kennsluhætti mína og hefur mig alltaf langað að gefa vinnu nemenda minna aukið gildi sem næði út fyrir kennslustofuna. Veturinn 2020–2021 samþætti ég nýsköpunarmennt og grenndarnám í fyrsta bekk. Markmið þessarar starfendarannsóknar var að draga fram og rýna í ávinning og áskoranir sem fylgdu samþættingunni. Nemendur skoðuðu hugmyndina um „að vera skapandi“, fengu þjálfun í nýsköpunarvinnu, rannsökuðu nærumhverfi sitt og unnu nýsköpunarverkefni til að hafa áhrif á það. Ég safnaði gögnum í rannsóknardagbók sem ég skráði í vangaveltur um vinnuna; samskipti mín við nemendur og samstarfsaðila og samskipti nemenda sín á milli. Verkefni nemenda urðu einnig gögn, t.d. myndverk nemenda og frumgerðir lausna í hugmyndavinnu. Þegar nemendur unnu verkefnavinnu framkvæmdi ég vettvangsathuganir, fylgdist með þeim við vinnu og skráði hjá mér það sem greip athygli mína. Niðurstöðurnar sýna að samþætt nám nýsköpunarmenntar og grenndarnáms reyndist góður kostur í kennslu fyrsta bekkjar. Starfið efldi atbeina nemendanna og jók ánægju þeirra í námi. Samþætting nýsköpunarmenntar og grenndarnáms kallar á verkefnamiðaðar vinnuaðferðir og upplifði ég að slíkt drægi úr starfstengdri streitu, gerði kennslustundir ánægjulegri og krefðist minni undirbúningstíma. Hins vegar var ákveðin togstreita tengd því að koma slíku námi fyrir í hefðbundnu skólastarfi. Áhugavert væri að skoða frekar hvort verkefnamiðuð kennsla sé til þess fallin að draga úr starfstengdri streitu kennara og hvernig megi breyta skólaskipulagi til að slík vinna eigi auðveldar uppdráttar.

 

Allir á sömu vegferð: Starfendarannsókn um samstarf í samreknum skóla í Reykjavík

Auður Valdimarsdóttir, grunnskólakennari, Dalsskóla

Leiðbeinendur: Karen Rut Gísladóttir, dósent, MVS HÍ og Hafdís Guðjónsdóttir, prófessor, MVS HÍ

Í þessu erindi segir frá starfendarannsókn minni sem var unnin á árunum 2019–2021. Tilgangur rannsóknarinnar var að leita leiða til þess að styrkja og viðhalda samfellu og samvinnu á milli skólastiga í samreknum grunnskóla í Reykjavík. Markmið með þessu verkefni var að draga fram hugmyndir, sýn og styrkleika fólks sem kemur að samstarfi leikskólans, grunnskólans og frístundaheimilisins og ákvarða næstu skref þessarar samvinnu út frá þeim. Í rannsókninni leitast ég við að svara spurningunni: Hvernig get ég sem deildarstjóri nýtt hugmyndir og viðhorf starfsfólks til að skapa vettvang um samstarf á milli leikskóla, grunnskóla og frístundaheimilis sem stuðlar að og viðheldur sterkri samfellu á milli skólastiga? Rannsóknin fór fram í Dalskóla í Reykjavík sem er samrekinn grunnskóli, leikskóli og frístundaheimili. Gögnum var safnað með rannsóknardagbók, tölvupóstum til leiðbeinenda, fundargerðum, viðtölum við samkennara, formlegum og óformlegum samtölum, vettvangsnótum, og endurminningum. Ég er starfandi við skólann sem deildarstjóri á yngsta stigi. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að starfsfólk sé almennt jákvætt fyrir samstarfinu og upplifi samvinnu á milli skólastiganna. Þeim finnst samstarfið bæði gagnlegt og skemmtilegt og upplifa að bæði börn og starfsfólk njóti góðs af því. Starfsfólk kallar eftir meiri undirbúningstíma til að undirbúa samstarfið og til að skapa nýjan vettvang til samstarfs. Helsti lærdómur þessarar rannsóknar snýst um þróun minnar eigin fagvitundar og hvernig hún er undirstaðan í að ég komi auga á hugmyndir og viðhorf samstarfsfólks og mikilvægi dreifðrar ábyrgðar og samtalsins í að hlúa að og styrkja samfellu milli skólastiganna.

 

Samþætting og teymiskennsla í kjarnatímum: Starfendarannsókn í grunnskóla

María Hödd Lindudóttir, grunnskólakennari, Flóaskóla

Leiðbeinendur: Svanborg Rannveig Jónsdóttir, prófessor, MVS HÍ og Anna Katarzyna Wozniczka, doktorsnemi, MVS HÍ

Aðalnámskrá grunnskóla gefur gott svigrúm til þess að samþætta námsgreinar og nálgast nám og kennsluhætti með ýmsu móti. Ég kenni í litlum grunnskóla úti á landi og gerði starfendarannsókn á kennslu minni veturinn 2020–2021. Markmið rannsóknarinnar var að rýna í samstarf kjarnateymis við samþættingu námsgreina og árgangablöndun. Tilgangurinn var að efla teymiskennslu og teymisvinnu á eldra stigi skólans. Lagt var upp með tvö stór námsþemu sem tóku um fimm vikur hvort. Með þeim var hægt að búa til fjölbreytt og skapandi verkefni og auka rými fyrir val nemenda. Gagnaöflun var í formi rannsóknardagbókar, vettvangsnótna, formlegra og óformlegra viðtala, ljósmynda og einnig var rýnt í áætlanir og fundarskýrslur. Niðurstöður sýndu að teymisstarf efldist og ég áttaði mig á mikilvægi þess að nemendur taki þátt í mótun á sínu námsefni og finni að rödd þeirra skipti máli. Þá eru þeir líklegir til að leggja meira á sig við námið og skila verkefnum sínum. Þegar starfsfólk og nemendur fengu að byggja sína vinnu á sínum styrkleikum fengum við meira frá þeim heldur en þegar þeir fá verkefni til að leysa. Samþættingin gaf svigrúm til að veita nemendum val og við gátum mætt þeim á þeim stað sem þeir voru. Í rannsóknarferlinu mínu sá ég mikilvægi þess að í skólastarfi sé hlustað á skoðanir nemenda og að nýta þá auðlind sem þeir eru. Einnig tel ég það mikilvægt að kennarar skoði starf sitt reglulega og miðli hver til annars þeirri vitneskju sem þeir hafa aflað sér. Samvinna og samgeta leiða til framfara í skólastarfi.

 

Skóli fyrir alla: Mikilvægi þess að tilheyra skólasamfélagi sínu

Þorbjörg Lilja Jónsdóttir, grunnskólakennari, Grunnskólanum í Hveragerði

Leiðbeinendur: Svanborg Rannveig Jónsdóttir, prófessor, MVS HÍ og Anna Katarzyna Wozniczka, doktorsnemi, MVS HÍ

Allar manneskjur eiga það sameiginlegt að hafa ríka þörf fyrir að tilheyra og finna að þær skipta máli. Íslenskt samfélag er stöðugt að verða margbreytilegra, fjölmenning að aukast og mikilvægt að skólakerfið stuðli að jafnrétti og lýðræði þannig að allir geti orðið viðurkenndir og virkir samfélagsþegnar, óháð bakgrunni eða samfélagsstöðu. Rannsóknin sem hér er sagt frá var starfendarannsókn sem unnin var í grunnskóla, þar sem ég var bæði rannsakandinn og viðfangsefnið ásamt nemendum mínum og samstarfsfólki. Megintilgangurinn var að stuðla að velferð og vellíðan nemenda minna. Markmiðið var að skoða eigin starfshætti og áhrif þeirra á mig sem kennara og nemendur mína. Ég safnaði fjölbreyttum gögnum um kennslu mína og skólastarfið. Ég hélt rannsóknardagbók, tók viðtöl við nemendur, sendi samkennurum og stjórnendum spurningar, safnaði upplýsingum um skólahópinn, skoðaði fundargerðir, tölvupósta og ljósmyndir af verkefnum nemenda. Við greiningu gagna studdist ég við fræði um skóla án aðgreiningar og þemagreiningu. Helstu niðurstöður sýna að mikilvægt er að skólastarf einkennist af umhyggju og stuðli að vellíðan allra nemenda. Í vinnu minni sem sérkennari er mikilvægt að ég sýni nemendum mínum persónulegan áhuga, jákvæðni, hlýju, þolinmæði og umburðarlyndi og að ég horfi á ólíkan félags- og menningarheim þeirra sem auðlind. Til þess að efla vitund nemenda um eigin áhrif og fá fram sjónarhorn þeirra þarf ég að tryggja að þeir finni sig örugga og tilheyri hópnum. Með því að ígrunda eigið starf og hafa velferð allra nemenda að leiðarljósi verðum við betur í stakk búin til að þróa skóla sem er fyrir alla.