Samtal um menntun: Trú, réttlæti og ást

Kl. 12:00-13:30

Heimspeki menntunar

Ólafur Páll Jónsson

Getur kennari verið trúlaus? Samtal við Magnús Helgason

Atli Harðarson, prófessor, MVS HÍ

Séra Magnús Helgason var fyrsti skólastjóri Kennaraskólans. Bók hans Uppeldismál til leiðbeiningar barnakennurum og heimilum kom út árið 1919. Sumt af því sem þar segir um starf kennara er samofið trúarlegri lífsleikni og háleitum hugsjónum um andleg verðmæti. Magnús brýndi meðal annars fyrir lesanda að ætla börnum „að óreyndu aldrei annað en gott“, miðla „hinni helgu speki hjartans“ og „temja sjálfum sér alla þá mannkosti er hann óskar að glæða og innræta öðrum“.

Til samanburðar við sjónarmið Magnúsar skoða ég kenningar sem John Dewey reifaði í bókinni A Common Faith frá 1934. Þeir Dewey og Magnús tilheyrðu sömu kynslóð umbótamanna í uppeldismenntamálum og höfðu svipuð viðhorf til barna. Dewey áleit, líkt og Magnús, þörf fyrir lífsleikni af trúarlegu tagi en sagði að við gætum tileinkað okkur hana án þess að trúa á neinn yfirnáttúrulegan veruleika. Skrif Deweys svöruðu kalli tímans þegar æ fleirum þótti sem eiginleg trúarbrögð hlytu að víkja með aukinni menntun og nútímalegri lifnaðarháttum – þau væru leifar af eldri samfélagsgerð og fornum hugsunarhætti. Í erindinu ræði ég tengsl fagmennsku kennara og háleitra hugsjóna í ljósi þess sem Magnús og Dewey skrifuðu á fyrri hluta síðustu aldar og velti fyrir mér hvert erindi rök þeirra eigi nú á 21. öldinni þegar trúarbrögð ganga í endurnýjun lífdaga. Ég reyni líka að átta mig á hvort ástæður séu til að ætla að kennarar þurfi á trú að halda og hvort rökræða um trúarleg efni eigi að vera hluti af menntun stéttarinnar.

 

Að mennta innra auga manneskjunnar? Samtal við Mörthu Nussbaum og Rudolf Steiner um ímyndunarafl, bókmenntir, siðfræði og menntun

Þóra Björg Sigurðardóttir, doktorsnemi, MVS HÍ

Í ritunum Poetic Justice (1995) og Cultivating Humanity (1997) fjallar samtímaheimspekingurinn Martha Nussbaum um mikilvægi ímyndunaraflsins sem grundvöll siðferðis. Hún segir að til þess að vera borgari í margbreytilegu samfélagi þurfum við skilning og umburðarlyndi á því sem er framandi en einnig að sjá og finna fyrir því sem við eigum sameiginlegt í okkar mannlegu reynslu. Hún leggur því áherslu á að mennta innra auga nemandans í gegnum t.d. bókmenntir og sögur. Ímyndunaraflið er forsenda þess að sjá með augum annarrar manneskju, setja sig í spor hennar og hlusta á sögur hennar. Úr allt annarri átt fjallar heimspekingurinn Rudolf Steiner um hið siðferðilega ímyndunarafl mannssálarinnar í bók sinni Heimspeki frelsisins sem kom út árið 1894. Steiner var afstæðishyggjumaður um siðferði og sagði að ekki væri hægt að mennta innra auga manneskjunnar, við gætum með öðrum orðum ekki séð með augum annarra. Hann taldi að hver einasta manneskja væri ráðgáta sem þyrfti að þroskast á sinn eigin hátt í umhverfi þar sem hún gæti gert það. Sem kennarar værum við fyrst og fremst fyrirmyndir. Ef við vildum skilja manneskjuna, innra auga manneskjunnar, þá skyldum við annars vegar leita í fjársjóði fortíðarinnar og hins vegar í hinn eilífa sannleika sem lifir innra með hverri manneskju. Í erindinu ræði ég þessa tvo ólíku heimspekinga, afstöðu þeirra til siðferðis og manneskjunnar og mikilvægi bókmennta og sagna fyrir ímyndunarafl barna sem þeim ber saman um að er dýrmæt leið til menntunar.

Hermiþráin: Böl eða blessun mannsandans?

Jón Ásgeir Kalmansson, aðjúnkt, MVS HÍ

Allt frá tímum Sókratesar og Platons hefur þrá, löngun eða (erótísk) ást með einhverjum hætti verið talin varða kjarna andlegs og siðferðilegs lífs. Í Samdrykkju Platons er okkur til dæmis leitt fyrir sjónir hvernig andleg heill getur oltið á því hvort maður þrái rétta hluti á réttan hátt, og beri gæfu til að unna sífellt fegurri og guðlegri veruleika fremur en heillast af margvíslegum blekkingum og fánýti. Á 20. öld kom fram á sjónarsviðið áhugaverður hugsuður sem varpaði eilítið nýju ljósi á mikilvægi þrárinnar í andlegu lífi, René Girard. Girard dregur skýrt fram eftirhermueðli mannlegra langana, það er í hve ríkum mæli fólk sækist eftir, og telur eftirsóknarvert, það sem aðrir sækjast eftir. Þetta einfalda innsæi Girards í manneðlið og eðli langana varpar ljósi á ýmis fyrirbæri mannlífsins, á borð við tískustrauma, fjármálamarkaði, neyslu, samkeppni, ófullnægju, einelti, og svo framvegis. Í fyrirlestrinum verður kenning Girards skoðuð og spurt hvaða ljósi hún varpi á andlega velferð. Í platonskum anda verður spurt hvort og þá hvernig sé hægt að vekja og aga þrána, og beina henni að göfugum og verðugum hlutum, þegar sívaxandi fjöldi ýmiss konar „áhrifavalda“ vekur og mótar langanir fólks með æ ágengari, og oft algerlega ómeðvituðum, hætti. Hvernig getum við gert þróttmikla og vel mótaða þrá að þungamiðju andlegs lífs í nútímanum?

 

Samtal við Platon og Mason Marshall um að snúa nemendum til sannleiksástar

Róbert Jack, lektor, MVS HÍ

Þrátt fyrir að flestir sem ná fullorðinsárum virðist meta sannleikann nokkurs bendir flest til þess að við fæðumst ekki elskandi sannleikann. Hinn forngríski Platon telur til að mynda að manneskjan þurfi að ganga í gegnum töluvert þroskaferli áður en hún geti almennilega elskað sannleikann. Jafnframt má halda því fram að rannsóknir síðustu áratuga á mannlegum þroska leiði fram sömu niðurstöðu.

Samtímis er ákaflega mikilvægt að hver og einn læri að meta sannleikann, ekki síst á tímum þar sem „falskar fréttir“ (e. fake news) og „valsannleikur“ (e. alternative truth) virðast hafa skotið rótum sem raunverulegir valkostir hjá hópi fólks. Eitt af verkefnum Platons í skrifum sínum var að sýna hvernig ýta megi við fólki sem ekki kann að meta sannleikann þannig að það snúist í átt til sannleiksástar. Þetta fór að mestu þannig fram að persónan Sókrates beitti ýmsum aðferðum í samræðu við einhvern einstakling til að reyna að orsaka þennan viðsnúning hjá viðkomandi. Í nýrri bók, Reading Plato‘s dialogues to enhance learning and inquiry: Exploring Socrates‘ use of protreptic for student engagement (2021), fæst Mason Marshall við að útfæra aðferð sem nýta má í nútímaskólum til að snúa nemendum til sannleiksástar. Erindið felst í samtali við Platon og Mason um hvernig standa má að þessum viðsnúningi. Heimspekileg greining á textum er aðferð rannsóknarinnar. Niðurstaða samtalsins felur í sér að það að orsaka umræddan viðsnúning sé erfitt en gerlegt.

 

Samtal við Hönnuh Arendt um menntun og mikilvægi þess að varðveita heiminn

Eva Harðardóttir, doktorsnemi, MVS HÍ

Erindið byggir að stærstum hluta á texta Arendt um menntakrísuna eða The Crisis in Education frá árinu 1954 auk þess sem fjallað verður um hvað felst í þeirri hugmynd að vera gestur í lífi fólks út frá þeirri merkingu sem Arendt lagði í hugtökin visiting og tourism í tengslum við viðbrögð okkar við aðstæðum eða hugmyndum sem eru ókunnugar eða ólíkar því sem við eigum að venjast. Í erindinu ræði ég einnig hugmyndir Arendt um markmið menntunar og hvað hún á við með þegar hún segir að markmið menntunar sé annars vegar það að varðveita heiminn frá eyðileggingu þeirra sem í honum lifa og hins vegar að varðveita nýja kynslóð andspænis heiminum sjálfum. Þá skoða ég einnig hvort spegla megi sígildar hugmyndir Arendt í nýlegum stefnum og straumum sem lúta að menntun í anda alþjóðlegrar borgaravitundar (e. global citizenship education) með gagnrýnum hætti. Í lokin velti ég því fyrir mér hvort við getum dregið lærdóm af umfjöllun Arendt um menntakrísuna sem nýta megi til þess að bregðast við þeim fjölmörgu og síbreytilegu krísum sem við mætum í nútímasamfélagi.