Framhaldsskólinn á tímum COVID-19: Kreppa, áskoranir og aðlögun

Kl. 10:10-11:40

Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs

Guðrún Ragnarsdóttir

Kennsluhættir í breyttum heimi framhaldsskóla

Þorsteinn Á. Sürmeli, doktorsnemi, MVS HÍ og Susanna Margrét Gestsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ

Heimsfaraldur COVID-19 hefur haft veruleg áhrif starf kennara á öllum skólastigum sem þurftu að grípa til ýmissa tækja og tóla til að halda kennslu áfram. Í auknum mæli og af illri nauðsyn neyddust þeir til að breyta kennsluháttum og nýta tæknina til að miðla námsefni, eiga í samskiptum við nemendur og halda kennslu áfram, en í annarri mynd og í breyttum heimi. Erindið byggir á viðtölum við 12 kennara í þremur framhaldsskólum en í þeim er ýmislegt sem gefur til kynna að margar af þeim breytingum sem þurfti að grípa til verði varanlegar. Fjallað er sérstaklega um þær breytingar og hverjar af þeim æskilegt er að kennarar og skólastjórnendur þrói enn frekar. Þannig er ekki síst lögð áhersla á þau jákvæðu áhrif sem heimsfaraldurinn hefur haft á kennsluhætti á framhaldsskólastigi, þekkingu kennara og sveigjanleika og sjálfstæði þeirra í starfi. Kennarar voru nokkuð fljótir að tileinka sér nýja tækni við kennslu og skipulögðu nám nemenda að mestu þannig að þeir unnu einir þar sem þeim fannst erfitt að þróa samvinnu í gegnum netið. Niðurstöðurnar sýna að hefðbundið staðnám hefur, með aukinni tækni og fleiri tólum sem kennarar og nemendur geta stuðst við til að eiga í samskiptum, fengið breytta og víðari merkingu og skilin á milli fjar- og staðnáms hafa orðið óskýrari. Í því samhengi eru kostir blandaðrar kennslu skoðaðir, bæði í fjarnámi og staðnámi á framhaldsskólastigi.

 

Nám og líðan framhaldsskólanemenda í heimsfaraldri

Guðbjörg Pálsdóttir, framhaldsskólakennari, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Amalía Björnsdóttir, prófessor, MVS HÍ

Markmið þessarar rannsóknar var að kanna áhrif COVID-19 faraldursins á nám og líðan framhaldsskólanemenda eftir mikla röskun á skólastarfi í rúmt ár. Á vorönn 2021 var rafrænn spurningalisti lagður fyrir nemendur í fjórum framhaldsskólum og svöruðu 1306 nemendur listanum. Spurt var um upplifun nemenda af náminu, aðstöðu og stuðning heima fyrir og líðan á þeim tíma sem fjarkennsla fór fram. Þrír skólanna voru fjölbrautaskólar og einn hefðbundinn bekkjaskóli. Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna að nemendur höfðu gott aðgengi að tölvum til að nota í náminu og 73% sögðust hafa haft næði til að vinna heima. Þeir höfðu góðan stuðning frá foreldrum og vinum og 66% fannst kennurum ganga almennt vel að kenna á netinu. Tæplega helmingur nemenda upplifði aukið námsálag og svipað hlutfall frestaði verkefnum sem þeir hefðu getað unnið í tímum. Meirihluti nemenda (70%) upplifði betra eða svipað gengi í náminu. Um helmingur nemenda upplifði minni kvíða í fjarkennslu en í staðkennslu og tæplega fjórðungur upplifði meiri kvíða. Um helmingur nemenda var meira einmana og þá leiddist um 60% nemenda meira en í staðnámi. Um 53% fannst gott að mæta aftur í skólann aftur eftir samkomutakmarkanir og 22% fannst það slæmt. Niðurstöðurnar sýna að fjarkennslan gekk að mörgu leyti vel en félagslegi þátturinn var áskorun. Einnig sýna niðurstöðurnar að sameiginlegt átak skóla og heimila hélt skólastarfi gangandi á þessum krefjandi tímum og meirihluti nemenda lagaði sig ótrúlega vel að þessu breytta fyrirkomulagi.

 

Félagslegt réttlæti og framhaldsskólinn á tímum COVID-19

Ómar Örn Magnússon, verkefnisstjóri og doktorsnemi, MVS HÍ og Guðrún Ragnarsdóttir, dósent, MVS HÍ

COVID-19 faraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á skólastarf sem og allt mannlíf frá því í mars 2020 þegar samkomubann var fyrst sett á vegna faraldursins. Í um eitt og hálft ár hefur nám nemenda í framhaldsskólum verið með óhefðbundnu sniði en það er um helmingur námstíma þeirra nemenda sem útskrifuðust vorið 2021 og kláruðu námið á þremur árum. Allan þann tíma var nám framhaldsskólanema að stórum hluta í fjarnámi eða í dreifnámi með ýmsum takmörkunum. Fjarnám krefst meira sjálfstæðis frá nemendum og býður ekki á sama hátt og staðnám upp á jafna aðstöðu í námi. Ýmislegt bendir til þess að þeir nemendur, sem höllustum fæti stóðu fyrir, hafi farið verst út úr faraldrinum. Fjallað verður um upplifun nemenda af fjarnámi, kenningar um fjarnám og velt upp hugmyndum um ójöfnuð nemenda í fjarnámi umfram staðnám. Umfjöllunin byggir á 12 viðtölum við nemendur í þremur framhaldsskólum sem eru þátttakendur í rannsókninni Framhaldsskólinn á tímum COVID-19: Kreppa, áskoranir og aðlögun. Fyrstu niðurstöður sýna að nemendur bjuggu við mjög mismunandi aðstæður í heimanámi/fjarnámi og þurftu að leita mismunandi leiða eftir stuðningi í námi sínu. Niðurstöðurnar vekja upp áleitnar spurningar um fyrirkomulag náms á tímum COVID-19 og ýmislegt bendir til að félagslegt ójafnræði hafi aukist á tímabilinu.

 

Breyttur framhaldsskóli í kjölfar heimsfaraldurs?

Guðrún Ragnarsdóttir, dósent, MVS HÍ og Súsanna Margrét Gestsdóttir, lektor, MVS HÍ

Ekki fer á milli mála að COVID-19 faraldurinn hafði mikil áhrif á skólastarf víðs vegar um heiminn. Á Íslandi fór starfsemi framhaldsskóla að mestu fram með fjarfundabúnaði í heilt ár og starfsfólk og nemendur sinntu verkefnum sínum að heiman. Í þessu óvenjulega ástandi felst einstakt tækifæri til að rannsaka áhrif óvæntrar kreppu og skoða með markvissum hætti hvort eða hvernig framhaldsskólinn breytist í kjölfarið. Markmið erindisins er að varpa ljósi á sýn starfsfólks skólanna á þróun framhaldsskólans, framtíðina og markmið skólastigsins í ljósi reynslunnar. Einnig er erindinu ætlað að fjalla um mikilvægi starfsþróunar. Byggt verður á spurningakönnun sem lögð var fyrir allt starfsfólk íslenskra framhaldsskóla vorið 2020 (N=1.034) en einnig á viðtölum við sex stjórnendur, tólf kennara og sex náms- og starfsráðgjafa þriggja ólíkra skóla sem tekin voru skólaárið á eftir. Bæði skólarnir og viðmælendur voru valdir með tilgangsúrtaki. Frumgreining á niðurstöðunum sýnir að þátttakendur sjá fyrir sér opnara og sveigjanlegra skólastarf fyrir nemendur, kennara og annað starfsfólk skóla, betri nýtingu tækninnar, breytta kennsluhætti og öðruvísi námsmat. Einnig hefur starfsfólk öðlast aðra sýn á hlutverk framhaldsskólans sem kann að taka mun meira mið af félagslegum gildum, samveru og virkni nemenda. Þá er ljóst að starfsþróun gegndi lykilhlutverki í breytingaferlinu en þátttakendur töldu sig aldrei á sinni starfsævi hafa breytt eins miklu og í fjarkennslunni eða lært jafn mikið. Niðurstöður greinarinnar eru mikilvægt innlegg í áframhaldandi umræðu um þróun framhaldsskólans.