Réttindi barna og fagmennska í starfi

Kl. 12:00-13:30

BÆR – Rannsóknarstofa í bernsku- og æskulýðsfræðum

Hervör Alma Árnadóttir

Vandið til verka eða sleppið þessu alveg! Um rannsóknarþátttöku barna

Guðrún Kristinsdóttir, prófessor, MVS HÍ

Erindið byggir á grein vísindasiðfræðinga sem rannsakað hafa samvinnu við börn í rannsóknum. Efnið vekur athygli þar sem umfjöllunin sker sig úr fjölda skrifa um efnið á síðustu áratugum. Höfundar telja sig greina skekkju sem felist í að hagsmunir fullorðinna séu of ríkjandi á kostnað barna. Greinin er hluti af stærri rannsókn sem miðar að því að fá fram gagnlegar spurningar um rannsóknarþátttöku barna. Tilgangurinn var að skoða virka þátttöku barna í rannsóknum og hvernig má varast að skaða börn. Um er að ræða viðtalsrannsókn og var rætt við 10 fullorðna með reynslu af rannsóknarþátttöku barna. Þrír þátttakendur sátu í vísindasiðanefndum eða í ráðgjafar- eða matsnefnd um umræddar rannsóknir. Notuð var túlkandi innihaldsgreining og þemagreining.

Höfundar byggja á yfirliti um rannsóknir á þátttöku barna, skoða algeng líkön sem ná yfir hana og hvernig þátttakan tengist starfendarannsóknum. Þeir leitast líka við að afmarka hugtakið „child co-researcher“ betur en fyrr hefur verið gert. Niðurstöðurnar endurspeglast í ýmsum varnaðarorðum sem beint er að fræðimönnum. Í umræðum í málstofunni verða þau skoðuð í ljósi skoðana annarra sem leitt hafa sterk rök að kostum við þátttöku barna í rannsóknum. Í hagnýtum ályktunum er bent á þörf barna fyrir stuðning og þjálfun í að taka þátt í rannsóknum og að það krefjist úrræða og bolmagns. Einnig er fjallað um álag af ýmsu tagi sem börn geta orðið fyrir með rannsóknarþátttöku sinni, ekki síst þau sem eru jaðarsett.

 

Áskoranir rannsakenda við að leita samþykkis barns vegna þátttöku í rannsóknum

Hervör Alma Árnadóttir, dósent, FVS HÍ

Áhersla á þátttöku barna í rannsóknum sem varða líf þeirra og aðstæður hefur almennt aukist síðust þrjá áratugi. Að bjóða börnum til þátttöku í rannsóknum hefur reynst flókið ferli og áskorun fyrir rannsakendur. Í erindinu verður fjallað um áskoranir rannsakenda þegar unnið er að því að fá börn til þátttöku í rannsóknum og hvernig mögulegt sé að hanna upplýst samþykki sem ferli. Markmiðið er að benda á þekktar áskoranir þegar unnið er að rannsóknum með börnum og benda á aðferðir til þess að tryggja það sem best að samþykki barns sé virt allt rannsóknarferlið. Gögnin sem lögð eru til grundvallar eru fengin úr kerfisbundinni leit að stöðu þekkingar. Valdar voru 23 greinar sem fjölluðu um viðfangsefnið og niðurstöður þemagreindar. Niðurstöður benda til að mikilvægt sé að vinna að traustu sambandi við hliðverði. Mikilvægt sé að samþykki barns til þátttöku sé lifandi ferli sem rannsakandi tekur reglulega upp allt rannsóknarferlið. Börn þurfa að vera meðvituð um rétt sinn til að hætta þátttöku sinni eða fresta henni hvenær sem er í ferlinu án afleiðinga og viðeigandi aðferðum sé beitt við það. Hvetja þarf rannsakendur til þess að nota skapandi leiðir til þess að tryggja það að börn séu upplýst um áhrif þátttöku sinnar í rannsóknum og að þau geti hætt þátttöku sinni eða frestað henni á viðeigandi hátt.

 

Sjónarmið og vitneskja barna um Barnasáttmálann og réttindi barna

Elín Helga Björnsdóttir, meistaranemi og aðstoðarforstöðukona í frístundinni Halastjörnunni, Eyrún María Rúnarsdóttir, lektor, MVS HÍ og Guðrún Kristinsdóttir, prófessor, MVS HÍ

Hér á landi er unnið markvisst að því að innleiða réttindi barna með líkani og verkfærakistu sem nefnist barnvæn sveitarfélög. Sveitarfélagið Akureyri tekur þátt í verkefninu og hefur hlotið viðurkenningu sem slíkt samkvæmt skilgreiningu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Markmið rannsóknar sem kynnt verður í erindinu er að skoða reynslu og þekkingu barna, sem búa á Akureyri og í Eyjafjarðarsveit, af lýðræðislegri þátttöku í tengslum við 1. mgr. 12. gr. sáttmálans. Vitað er að börn búa við ólíkar aðstæður og var tilgangur verkefnisins einnig að skoða hver sýn þátttakenda er á réttindi barna. Rannsóknin er eigindleg og voru þátttakendur börn í 4. og 8. bekk í fjórum grunnskólum á Akureyri og í Eyjafjarðarsveit, alls 43 börn. Einnig voru tekin viðtöl við tvo starfsmenn sem tengjast starfsemi barnvæns sveitarfélags, Barnasáttmálans og réttindaskóla Sameinuðu þjóðanna. Tekin voru einstaklings- og rýnihópaviðtöl og við úrvinnslu gagna var þemagreiningu beitt. Helstu niðurstöður voru að þátttakendur kunnu skil á innihaldi þeirra réttinda sem Barnasáttmálinn veitir en áttuðu sig ekki í öllum tilvikum á hvaðan vitneskja þeirra kom. Skilningur þátttakenda úr réttindaskólanum á Barnasáttmálanum var í meiri mæli byggður á því sem þau höfðu lært þar og var þannig frábrugðinn skilningi nemenda annarra skóla. Þátttakendum fannst öll börn jafn mikilvæg en einnig kom fram að þeim fannst forsjáraðilar þeirra bera meiri virðingu fyrir skoðunum þeirra en starfsmenn skóla- og menntastofnana. Markvisst þarf að stuðla að því að öll börn þekki réttindi sín og skyldur samkvæmt Barnasáttmála og brýnt að þátttaka þeirra sé raunveruleg en ekki táknræn.

 

Viðhorf til fagmennsku og siðareglna

Árni Guðmundsson, aðjúnkt, MVS HÍ

Undanfarin tvö ár hefur Félag fagfólks í frítímaþjónustu ásamt tómstunda- og félagsmálafræðibraut MVS Háskóla Íslands tekið þátt í rannsóknarsamstarfi um viðhorf til fagmennsku og siðareglna í opnu æskulýðsstarfi (e. open youth work). Samstarfsaðilar eru Victoria University, fagfélag starfsmanna í opnu æskulýðsstarfi í Viktoríufylki í Ástralíu, Tallin-háskóli og félag fagfólks í frítímaþjónustu í Eistlandi. Rannsóknin byggir á niðurstöðum spurningalista og rýnihópa frá hverju landi fyrir sig. Verið er að vinna að heildarúttekt um þessar mundir. Ráðgert er að heildarniðurstöður liggi fyrir í árslok 2022. Í þessum fyrirlestri fjallar höfundur eingöngu um niðurstöður úr íslensku rýnihópunum. Rýnihóparnir voru tveir, hópur starfsmanna sem eru með menntun á sviði æskulýðsmála og annar hópur starfsmanna sem ekki er menntaður á þessu fagsviði. Fyrstu niðurstöður sýna með nokkuð afgerandi hætti að þeir sem búa að menntun þekkja betur og notfæra sér í mun meiri mæli siðareglur Félags fagfólks í frítímaþjónustu en þeir starfsmenn sem ekki búa að menntun á sviðinu. Starfsmenn með menntun nýttu sér í mun meiri mæli eða höfðu til hliðsjónar siðreglurnar og innihald þeirra í daglegum störfum sínum og ekki síst í starfsháttum þegar um viðkvæm mál er að ræða. Þeir sem búa að menntun telja mikilvægi siðareglna meira en þeir sem ekki búa að menntun.