Textílrannsóknir ─ sjálfbærni, nýsköpun, skólamál og útgáfa: Fyrri hluti 

Upptaka af málstofu

Kl. 8:30-10:00

Rannsóknarstofa í textíl 

Ásdís Jóelsdóttir 

„Mér finnst þetta voða skemmtilegt, annars væri ég ekki í þessu“

Guðfinna Pétursdóttir, grunnskólakennari, Borgarhólsskóla, Grunnskóla Húsavíkur og Ásdís Jóelsdóttir, lektor, MVS HÍ 

Markmið rannsóknar var að varpa ljósi á upplifun textílkennara af starfi þeirra og starfsaðstæðum til að benda á það sem gengur vel og hvað mætti betur fara. Lagt var af stað með eftirfarandi rannsóknarspurningu: Hver er upplifun textílkennara á starfi sínu og starfsaðstæðum? Framkvæmd var eigindleg rannsókn þar sem gagnaöflun fólst í leit að fræðilegum heimildum og hálfopnum viðtölum við fimm textílkennara. Helstu niðurstöður sýna að upplifun textílkennara af starfi sínu og starfsaðstæðum er nokkuð góð en bæta þyrfti úr nokkrum atriðum. Viðmælendur eru ánægðir í starfi en sú ánægja kemur helst af áhuga þeirra á faginu og að kenna það. Starfsaðstaða þeirra er yfir heildina góð. Hins vegar hafa atriði eins og launakjör, einkunnagjöf við lok 10. bekkjar og hástemmd hæfniviðmið í aðalnámskrá grunnskóla neikvæð áhrif á upplifun textílkennara. Einnig upplifa sumir einveru og einangrun í starfi. Einnig telja viðmælendur sig vanta stuðning vegna álags í starfi og mikil ábyrgð hvíli á þeim. Allir viðmælendur eru sammála um mikilvægi fagsins í kennslu, finna að nemendum þyki gaman í kennslutímum og myndu ekki vilja missa af textílkennslu. Út frá niðurstöðum má álykta að upplifun textílkennara á starfi sínu og starfsaðstæðum er alla jafna nokkuð góð. Þrátt fyrir það er rými fyrir úrbætur og eru nokkur atriði sem hafa neikvæð áhrif á þá upplifun. Í erindinu verður fjallað um niðurstöður og hvað megi bæta til að upplifun textílkennara á starfi sínum og starfsaðstæðum verði með breyttu og enn betra sniði. 

 

Textílhandbók fyrir grunnskólann

Kristín Garðarsdóttir, grunnskólakennari, Víðistaðaskóla í Hafnarfirði; Sigríður Hjartardóttir, grunnskólakennari, Vatnsendaskóla og Ásdís Jóelsdóttir, lektor, MVS HÍ 

Í farvatninu er textílhandbók sem gefin er út af Menntamálastofnun. Um er að ræða finnska kennslubók sem nýlega hefur verið þýdd yfir á íslensku til notkunar í textílkennslu í grunnskólum. Innihald bókarinnar er fjölbreytt og skiptist á hefðbundinn hátt í prjón, hekl, útsaum og aðrar textílaðferðir. Megináherslan í innihaldi bókar er saumtækni, snið í tilbúnum stærðum og saumaleiðbeiningar. Bókinni fylgja sníðaarkir og kennsluleiðbeiningar fyrir kennara. Nýjungin, ef borið er saman innihald af öðru útgefnu efni fyrir textílkennslu, eru hin fjölmörgu fyrrnefndu snið sem fylgja með bókinni. Sniðin eru í nokkrum stærðum fyrir börn og ungmenni af báðum kynjum á grunnskólaaldri. Í hverjum hluta bókarinnar er inngangur og í mörgum tilvikum hefur sá hluti verið staðfærður með áherslu á íslenskar aðstæður eða búinn til nýr inngangur eða viðbætur sem þykja eiga betur við, í ljósi þess hvernig mótun textílkennslu hefur verið hér á landi. Bókin er vel skipulögð og eru leiðbeiningar hnitmiðaðar og nemendamiðaðar sem ættu að auðvelda innlagnir í kennslu og að útbúa nemendamiðuð verkefni með aðstoð innihalds og kennsluleiðbeininga. Í erindinu verður fjallað um hvernig innihald bókar geti nýst í kennslu og hvernig þetta nýja námsefni muni hafa áhrif á breytta kennslutilhögun og mögulega breytta kennsluhætti í faggreininni. 

 

Íslensk ull og textíll í samstarfi við nýsköpunar- og þekkingarsmiðjur í stórborgum Evrópu

Þorgerður J. Einarsdóttir, prófessor, FVS HÍ og Laufey Axelsdóttir, nýdoktor, FVS HÍ 

Textílmiðstöðin á Blönduósi og námsbraut í kynjafræði taka þátt í evrópska H2020 verkefninu CENTRINNO (2020–2024) sem stendur fyrir New CENTRalities in INdustrial areas and engines for inNOvation and urban transformation. Markmið verkefnisins er að endurvekja hnignandi en menningarsögulega mikilvæg iðnaðarsvæði í Evrópu þar sem störfum hefur fækkað og umhverfi er á fallanda fæti. Nýsköpunar- og þekkingarmiðstöðvum verður komið á fót og þeim ætlað að mæta umhverfisáskorunum samtímans; efla fjölbreytt og skapandi þekkingarhagkerfi, og nýta fyrirliggjandi menningararf kvenna og karla sem hvata fyrir nýsköpun í anda hringrásarhagkerfis og sjálfbærni. Þátttakendur eru stofnanir, fyrirtæki og háskólar í Amsterdam, Barcelona, Genf, Kaupmannahöfn, Mílanó, París, Tallinn, Zagreb og á Blönduósi. Textílmiðstöðin á Blönduósi stefnir að því að verða miðja nýsköpunar og þekkingar í stafrænni textílframleiðslu sem byggð er á íslenskum menningararfi og handverkskunnáttu, einkum kvenna, með sérstakri áherslu á ull og umhverfisvæna nýtingu hennar. Í erindinu verður rannsóknarhluti verkefnisins kynntur en hann er á hendi kynjafræðinnar. Markmið með rannsóknahlutanum er að kanna og kortleggja umgjörð, bakgrunn og sögulega þróun textíliðnaðar á Íslandi, þar með talið núverandi landslag, samfélagslegt umfang, menningarlegar rætur og kynjasjónarmið. Lykilhugtak verkefnisins er arfleifð (e. heritage) í merkingunni varðveisla í lifandi endursköpun. Í verkefninu verða greind fyrirliggjandi gögn, og aðferðinni netverk hughrifa (e. emotion networking) ásamt eigindlegum viðtölum verður beitt til að nýta hefðir og menningararfleifð sem innblástur og hvata til endursköpunar á nýjum tímum og í nýju samhengi. Þess er vænst að niðurstöðurnar stuðli að því að textíllinn geti tekið skrefið inn í stafræna framtíð á umhverfisvænan og sjálfbæran hátt.  

 

Textílkennsla í leikskólum

Þóra Lilja Kristjánsdóttir, B.Ed. í leikskólakennarafræðum og Ásdís Jóelsdóttir, lektor, MVS HÍ 

Markmið lokaverkefnis til B.Ed.-gráðu var að skoða textílkennslu í leikskólum. Höfundur er starfsmaður á leikskóla og með sveinspróf í kjólasaum. Þaðan kviknaði hugmyndin að skrifa um textílkennslu í leikskólum, skoða hvort textílkennsla hafi áhrif á sköpunargetu leikskólabarna og hvort hægt sé að virkja sköpun þeirra í gegnum textílkennslu. Einnig vildi höfundur kanna af hverju textílkennsla er ekki viðurkennd faggrein í leikskólum samkvæmt aðalnámskrá leikskóla. Ekki hefur áður verið rannsakað hvernig textílkennslu er háttað í leikskólum. Textílkennsla er fastur liður í grunnskólum landsins og samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla er textílkennsla byggð á þekkingaröflun, hugmyndavinnu og sköpun. Í leikskólum er textílkennsla þó ekki mikilvægur liður í leikskólastarfinu og kemur ekkert fram í aðalnámskrá leikskóla að textílkennsla eigi að vera hluti af leikskólanámi. Í aðalnámskrá leikskóla kemur aftur á móti fram að sköpun sé mikilvægur þáttur í námi og þroska barna. Til þess að fá nánari niðurstöður um textílkennslu í leikskólum sendi höfundur út fyrirspurn til leikskólakennara og bað þá, sem vinna með textíltengd verkefni með leikskólabörnum, að hafa samband. Fimm leikskólakennarar frá mismunandi leikskólum höfðu samband og svöruðu spurningum og var rannsóknin eigindleg. Niðurstöður sýna að leikskólakennarar, sem eru að vinna með textíltengd verkefni með leikskólabörnum, horfa á textíl sem sköpun og nýta verkefnin til þess að ýta undir sköpunargetu barnanna. Í erindinu er farið yfir spurningar og svör þátttakenda og rýnt í niðurstöður.