Grunnskóli í þróun: Lærdómssamfélag, ytra mat og kennarar

Kl. 8:30-10:00

Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs

Auður Pálsdóttir

„Eins og annað heimili manns.“ Birtingarmyndir tveggja lærdómssamfélaga

Svandís Egilsdóttir, meistaranemi, MVS HÍ

Leiðbeinandi: Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor, MVS HÍ

Grunnskólum er ætlað að vera í stöðugri þróun í takt við samfélagsbreytingar, uppbyggileg fræði og viðmið um farsæla skólaþróun. Á þeim grunni er hvatt til ígrundandi samvinnu og samvirkra kennslu- og stjórnunarhátta með árangur allra nemenda að leiðarljósi. Ramma utan um slíkt umbótastarf er að finna í skilgreindum einkennum faglegs lærdómssamfélags. Markmið rannsóknarinnar var að kanna vinnulag og greina birtingarmyndir skólamenningar í tveimur grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu sem tóku þátt í nýlegri mælingu á stöðu lærdómssamfélags. Með viðtölum og vettvangsathugunum á forsendum eigindlegrar aðferðafræði var skoðað hvernig einkenni skólamenningar í öflugu lærdómssamfélagi birtast með hliðsjón af vinnulagi, skipulagi, hefða skólasamfélagsins, stjórnunar og samskipta. Niðurstöður benda til samstarfs stjórnenda og kennara um ýmsa þætti skólastarfsins. Vinátta, gleði, þægindi og traust í teymum var ein af forsendum upplifunar starfsfólks af jákvæðri skólamenningu sem einnig hvatti til hollustu þeirra við skólann og tilfinningu fyrir því að tilheyra hópnum. Áberandi er að frelsi kennara í skólunum er mikið og jafnframt ein af birtingarmyndum traustsins sem kennararnir upplifðu milli sín og stjórnenda. Frelsi kennaranna getur þó sett skólaþróun og íhlutun stjórnenda ákveðnar skorður. Að sama skapi gátu vináttumenning, gamlar hefðir og þægindi haft hamlandi áhrif á lærdóm, þróun og samstarf kennaranna. Loks eru vísbendingar um að kennslufræðilegur ágreiningur geti orðið persónulegur og því skaðað andrúmsloft en þegar grannt var skoðað var sá ágreiningur í grunninn einnig árekstur mismunandi menningar sem fólk í raun flytur með sér frá einum stað til annars, úr einni skólamenningu til annarrar eða mögulega einnig einum tíma til annars.

 

Notkun og áhrif endurgjafar í kjölfar ytra mats á grunnskólum

Björk Ólafsdóttir, doktorsnemi, MVS HÍ og Jón Torfi Jónasson, prófessor, MVS HÍ

Í erindinu er greint frá niðurstöðum rannsóknar sem beinist að því að skoða hvernig og að hvaða marki skólastjórar og kennarar í grunnskólum nota niðurstöður ytra mats. Einnig er sjónum beint að því hversu varanlegar breytingarnar eru. Gagna var aflað með viðtölum við skólastjóra og kennara í sex grunnskólum, sem voru metnir á tímabilinu 2013 til 2015. Einnig fór fram greining á umbótaáætlun skólanna og framvinduskýrslum sem þeir skiluðu í umbótaferlinu. Niðurstöður leiddu í ljós að kennarar og skólastjórar voru almennt jákvæðir gagnvart ytra matinu og höfðu af því góða reynslu. Þeim fannst stuðningur af matinu og lýstu yfir ánægju með umbótamiðaða nálgun þess. Viðmælendur virtust upplifa margs konar ávinning af ytra matinu og það var notað á ýmsan hátt, það (1) jók víðsýni, dýpt og breidd umræðu innan skólans, stuðlaði að hugleiðingu kennara um eigin fagmennsku og hjálpaði til við að skerpa fókus (e. conceptual use), (2) leiddi til umbótaaðgerða og þróunar skólastarfsins (e. instrumental use), (3) nýttist til að veita nýjum hugmyndum brautargengi og virkja fólk til þátttöku (e. persuasive use) og (4) styrkti þá skóla sem fengu góða umsögn í að þeir væru á réttri leið (e. reinforcement use). Af viðtölum og framvinduskýrslum má draga þá ályktun að flestar umbætur sem kynntar voru í umbótaáætlunum skólanna hafi náð fram að ganga og í flestum tilvikum orðið varanlegar. Allir viðmælendur vildu sjá framhald af ytra mati en þó var einn kennari sem setti þann fyrirvara að sýna þyrfti fram á ávinning af matinu til að réttlæta áframhald þess.

 

Karlkyns nýliðar í grunnskólakennslu: Styðjandi þættir í staðblæ skólanna

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor, MVS HÍ; Andri Rafn Ottesen, grunnskólakennari, Garðaskóla og Valgerður S. Bjarnadóttir, nýdoktor, MVS HÍ

Rannsóknin er byggð á fimm viðtölum við hvern af sjö nýbrautskráðum kennslukörlum í grunnskólakennslu. Kennslukörlunum var fylgt eftir í tvö skólaár á árabilinu 2017–2020. Rannsóknarspurningin var: Hvernig gengur nýbrautskráðum körlum á vettvangi starfsins? Í ljós hefur komið í fyrri rannsóknum, innlendum og erlendum, að ekki fá allir nýir kennarar formlega leiðsögn, þar á meðal fæstir nýliðanna í þessari rannsókn. Í fyrri rannsóknum hefur einnig komið fram að nýir kennarar upplifa gjarna að góðar móttökur og ýmsir aðrir þættir en formleg leiðsögn styrki þá í starfi. Því fannst okkur tilvalið að skoða gagnasafnið út frá því markmiði að kortleggja hvaða og hvers konar formlegir sem óformlegir þættir í skólunum reyndust styðjandi við starf nýju kennslukarlanna. Allir upplifðu viðmælendur okkar góðar móttökur í upphafi starfsins, nokkrir þeirra og einkum í minni skólunum voru í styðjandi tengslum við stjórnendur skólanna og þeir sögðu okkur mörg almenn dæmi af góðum starfsanda og styðjandi viðhorfum. Meginþunginn í niðurstöðunum liggur þó í margvíslegu formlegu og óformlegu samstarfi við aðra kennara. Sumir nýju kennaranna voru með í teymi um tiltekna kennslu; aðrir í óformlegu samstarfi. Í þessum tilvikum virtist ekki skipta máli hvort samstarfsfólkið var karlar eða konur. Í samstarfinu reyndist felast mikil leiðsögn sem við teljum ekki að komi í stað formlegrar leiðsagnar heldur ályktum við að það ætti að huga að því að samþætta formlega leiðsögn og teymisvinnu. Við munum einnig greina frá formlegum og óformlegum karlaklúbbum sem voru hluti af styðjandi umhverfi við nýja kennslukarla.

 

Breyting starfshátta – þróun Draumaskólans Fellaskóla

Auður Pálsdóttir, dósent, MVS HÍ og Helgi Gíslason, skólastjórnandi, Fellaskóla

Í Fellaskóla í Reykjavík hófst haustið 2020 fimm ára þróunarverkefni sem kallast Draumaskólinn Fellaskóli og byggir á menntastefnu Reykjavíkurborgar. Markmiðið er að auka árangur nemenda svo þeir geti látið drauma sína rætast. Fyrir þróunarstarfið voru skilgreindir þrír áhersluþættir en það eru innleiðing leiðsagnarnáms, efling máls og læsis og tónlist og skapandi skólastarf.

Tilgangur þessarar rannsóknar var að greina stöðuna eftir fyrsta starfsár þróunarstarfsins. Annars vegar var starfið greint út frá kenningum um trú kennara á getu hópsins (e. collective teacher efficacy) og hins vegar út frá sjö þátta staðli um starfsþróun skóla. Gögnin eru bæði megindleg og eigindleg. Greind voru svör starfsfólks við útsendum spurningalista og eigindleg gögn sem byggjast á innsýn og þekkingu skólastjóra og sérfræðings á því hvað var gert og hvernig var unnið fyrsta veturinn. Niðurstöður benda til að vel hafi tekist þrátt fyrir áskoranir heimsfaraldurs. Samtal um sýnina og markmið einstakra áhersluþátta Draumaskólans fór vel af stað og skilgreind voru markmið áhersluþáttanna sem birtast í stefnukorti Draumaskólans. Mótað var skorkort þar sem skráð eru öll verkefni sem voru í gangi í skólanum, öll ný verkefni sem hafin er innleiðing á og verkefni sem eru áformuð. Einnig voru stigin veigamikil skref við skilgreiningu á mælikvörðum og viðmiðum verkefnanna. Þá var unnið skipulega í útfærslu á leiðsagnarnámi. Frekari niðurstöður verða ræddar með hliðsjón af greiningartækjunum en líka efnisþáttum sem fram munu koma í samtali starfsfólks á undirbúningsdögum í byrjun nýs skólaárs.