Framhaldsskólinn: Stefnumótun og lærdómssamfélag

Kl. 8:30-10:00

Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs

Elsa Eiríksdóttir

Núgildandi námsleiðir til stúdentsprófs: Útfærsla og framkvæmd námskrárstefnu í íslenskum framhaldsskólum

María Jónsdóttir, doktorsnemi, MVS HÍ; Elsa Eiríksdóttir, dósent, MVS HÍ og Guðrún Ragnarsdóttir, lektor, MVS HÍ

Með útgáfu menntastefnu þeirrar sem innleidd var á árunum 2008 til 2014 voru gerðar umfangsmiklar breytingar á námsbrautum íslenskra framhaldsskóla sem leiða til stúdentsprófs. Framhaldsskólunum var fengið það hlutverk að semja námsbrauta- og áfangalýsingar sem áður hafði verið gert af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, auk þess sem námsbrautir til stúdentsprófs voru styttar um eitt ár, úr fjórum árum í þrjú. Með þessum breytingum urðu námsbrautir til stúdentsprófs mun fleiri og fjölbreyttari. Erindið byggir á rannsókn höfunda á fjölda, inntaki og breytileika stúdentsprófsbrauta en yfirlit yfir núgildandi námsbrautir framhaldsskóla hefur áður ekki verið til. Rannsóknin byggir á gagnrýnum menntastefnufræðum (e. critical policy analysis) og er ætlað að kanna hvernig útfærsla og framkvæmd stefnubreytinganna varð á vettvangi, þ.e.a.s. innan framhaldsskólanna. Innihaldsgreiningu (e. content analysis) var beitt til að greina og flokka upplýsingar um samþykktar námsbrautir framhaldsskólanna á vef Menntamálastofnunar til að útbúa yfirlit yfir núgildandi námsleiðir til stúdentsprófs. Fyrstu niðurstöður sýna að námsleiðum hefur fjölgað umtalsvert auk þess sem fjölbreytileiki þeirra er meiri. Þær sýna einnig að val nemenda hafi minnkað, bæði frjálst val og val innan kjörsviða. Niðurstöðurnar vekja upp spurningar um stigveldi námsgreina innan námsbrauta til stúdentsprófs og áhrif á háskólastigið. Niðurstöðurnar benda til þess að skoða þurfi frekar ólíkan hlut einstakra námsgreina og undirbúning nemenda undir frekara nám á háskólastigi.

 

Stefna um aukið sjálfstæði framhaldsskóla – áhrif mismunandi aðstæðna á svigrúm og viðbrögð skóla

Kolfinna Jóhannesdóttir, doktorsnemi, MVS HÍ og Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor, MVS HÍ

Með lögum um framhaldsskóla sem samþykkt voru árið 2008 og nánar útfærð í nýrri aðalnámskrá framhaldsskóla 2011 var dregið mjög úr miðstýringu í námskrárgerð frá því sem áður var. Stefna var mörkuð um aukið sjálfstæði skóla um þróun námsframboðs og inntak náms. Skólar voru taldir betri í að þróa og aðlaga nám að mismunandi þörfum nemenda, nærsamfélags, annarra menntastofnana og atvinnulífs. Erindið byggir á niðurstöðum úr yfirstandandi doktorsrannsókn þar sem tilgangurinn er að skilja betur hvernig stefnan og framkvæmd hennar birtist í skólastarfi framhaldsskóla. Tekin voru viðtöl við stjórnendur, kennara, nemendur, foreldra og fulltrúa í skólanefnd hjá fjórum framhaldsskólum. Val á þátttökuskólum tók mið af því að þeir endurspegli fjölbreyttar aðstæður, litið var m.a. til staðsetningar, stærðar og námsframboðs. Í rannsókninni er sjónum meðal annars beint að því hvernig ýmsir þættir í aðstæðum skóla hafa haft áhrif á svigrúm þeirra og viðbrögð við stefnunni. Helstu niðurstöður benda til þess að stefnan hafi vakið upp ólíkar áskoranir og spennu innan skólana. Í erindinu verður fjallað meðal annars um áskoranir tengdar mismunandi landfræðilegum og lýðfræðilegum aðstæðum, auk spennu sem tengist ímynd, menningu, hefðum og vantrú á nýjungum. Rannsóknin er mikilvægt framlag í umræðu um framkvæmd menntastefnu og hvernig mismunandi þættir í aðstæðum einstakra skóla geta haft ófyrirsjáanleg áhrif á framkvæmd hennar.

Lærdómssamfélag í Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Guðmundur Grétar Karlsson, framhaldsskólakennari, Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Fjölbrautaskóli Suðurnesja hefur tekið þátt í þróunarverkefni um starfsþróun frá árinu 2018. Í Fjölbrautaskóla Suðurnesja hefur verið starfandi hópur sem vinnur að þróun lærdómssamfélagsins í skólanum. Hópurinn hittist einu sinni í mánuði og ber saman bækur sínar. Þessir fundir eru hugsaðir sem jafningjastuðningur þar sem starfsmenn geta fengið ráð og leiðsögn í sínum verkefnum. Ráðgjafi frá HÍ hefur svo mætt á fundina, verið starfsmönnum og verkefnastjóra innan handar og gefið ráð. Var sá hluti verkefnis metinn af Menntamálastofnun og voru þátttakendur ánægðir með skipulag og utanumhald verkefnisins. Þátttaka þeirra í þróunarverkefninu jók hæfni þeirra og hefur haft jákvæð áhrif á faglega starfsþróun þeirra. Ákveðið var að þróa verkefnið enn frekar og innvikla fleiri atriði skólastarfsins inn í starfsþróunarverkefnið ásamt að halda áfram með jafningjastuðning starfsmanna. Má þar nefna leiðsögn nýrra kennara og það að bjóða upp á námskeið fyrir þá kennara sem vilja veita leiðsögn. Stefnan er að setja meiri fókus í að rýna í gögn til að bæta nám nemenda og að lokum að vinna með framtíðarsýn og gildi skólans. Þetta eru allt liðir í að byggja upp lærdómssamfélag innan skólans. Staða lærdómssamfélagsins innan skólans var metin í upphafi með umræðufundi meðal kennara og liggja helstu niðurstöður fyrir úr því mati. Verkefnið er styrkt af Sprotasjóði og er Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor á Menntavísindasviði HÍ, ráðgjafi þess. Í málstofunni verður verkefnið og staða þess kynnt.