Gæði kennslu í grunnskólum: Faglegt nám kennara og kennaramenntun

Kl. 10:10-11:40

Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs

Berglind Gísladóttir

Tengsl milli fræðilegs og verklegs hluta kennaranáms

Berglind Gísladóttir, lektor, MVS HÍ; Guðmundur Engilbertsson, lektor, HA og Birna Svanbjörnsdóttir, dósent, HA

Meginþungi starfsnáms í kennaranámi er á fimmta ári námsins. Fram að því tengjast kennaranemar skólastarfi í vettvangsheimsóknum og styttra vettvangsnámi en hafa fyrst og fremst búið sig fræðilega undir kennarastarfið. Í starfsnámi takast nemar á við fjölmargar áskoranir kennarastarfsins og hagnýta þau fræði sem þeir hafa lært. Ef vel tekst til aukast líkur á að kennaranemar geti í kjölfarið átt farsælan starfsferil, en hversu vel tekst nemum að flétta saman fræði og vettvang í kennaranámi? Hver er upplifun kennaranema á því og hvernig má nýta niðurstöður þess efnis til þróunar kennaranáms? Spurningalistinn The Coherence and Assignment Study in Teacher Education (CATE) hefur verið notaður í þeim tilgangi að skilja betur kennslufræðilega þáttinn í kennaramenntun í mismunandi samhengi, ekki síst hvernig kennaranemar eru búnir undir að kenna ákveðnar faggreinar og tengslin milli fræða og kennslu þessara greina. Í QUINT-rannsókninni hefur spurningalistinn verið þýddur og staðfærður í Noregi, Danmörku og á Íslandi og við hann bætt fleiri þáttum er varða nám og kennslu ásamt leiðsögn til nema. Búið er að leggja spurningalistann einu sinni fyrir nemendur í starfsnámi á lokaári kennaranáms í HA og HÍ og verður gerð grein fyrir helstu niðurstöðum í málstofuerindinu. Einkum verður hugað að niðurstöðum sem benda til að umbóta sé þörf í því skyni að tengja sem best saman fræði og vettvang í kennaranámi.

 

Gæði kennslu – gæði náms: Að nýta myndbandsupptökur úr kennslu til starfsþróunar

Rúnar Sigþórsson, prófessor, HA; Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor, MVS HÍ og Hermína Gunnþórsdóttir, prófessor, HA

Í erindinu er greint frá starfsþróunarverkefni sem er hluti af rannsókn á gæðum kennslu á unglingastigi innan öndvegissetursins QUINT. Tíu kennarar á unglingastigi í fjórum grunnskólum tóku þátt í námskeiði til að auka gæði eigin kennslu. Haldnar voru tvær sameiginlegar vinnustofur þar sem flutt voru erindi um gæði kennslu og valin myndskeið úr norrænum kennslustofum greind og rædd. Í kjölfarið gerðu þátttakendur í hverjum skóla áætlun um þróun tiltekinna þátta í eigin kennslu og unnu að þeim með aðferðum starfendarannsókna með stuðningi rannsakenda úr QUINT-hópnum og nema við MVS HÍ. Vegna smitvarnaráðstafana fóru öll samskipti milli þátttakenda fram á fjarfundum. Námskeiðinu lauk með sameiginlegri vinnusmiðju og opinni rafrænni málstofu þar sem þátttakendur kynntu starfendarannsóknir sínar og árangur af þróunarstarfinu. Meðal viðfangsefna voru samræður og spurningatækni, endurgjöf og vitsmunaleg áskorun. Kennararnir skiluðu einnig skriflegu mati á námskeiðinu. Í erindinu eru kynntar og lagt mat á þær breytingar sem þátttakendur töldu verða á kennslu sinni, með hliðsjón af PLATO-greiningarrammanum sem notaður er í QUINT-rannsókninni til að meta gæði kennslu. Jafnframt er greint frá reynslu þátttakenda af því að rannsaka eigin kennslu og þróa hana með stuðningi af myndupptökum. Matið er byggt á áætlunum kennaranna, minnispunktum frá leiðsagnarfundum rannsakendanna með þeim, kynningum kennaranna á verkefnum sínum á málstofunni og skriflegu uppgjöri þeirra í lok námskeiðsins.

 

Að fara skrefinu lengra – Leiðir til að styrkja gæði kennslu í grunnskóla

Sigurbjörg Hvönn Kristjánsdóttir, meistaranemi, MVS HÍ

Leiðbeinandi: Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor, MVS HÍ

Gæði menntunar ræðst að stórum hluta af gæðum þess starfs sem fer fram í skólastofunni, þ.e. kennslunni. Markmið rannsóknarinnar sem kynnt er hér er að varpa ljósi á einkenni gæði kennslu út frá ólíkum sjónarhornum og hvort og þá hvernig myndbandsupptökur nýtast kennurum við að þróa gæði kennslunnar. Rannsóknin er tilviksrannsókn á unglingastigi í einum grunnskóla þar sem bæði megindlegum og eigindlegum gögnum var safnað. Viðtöl voru tekin við nemendur, kennara og skólastjóra auk vettvangsathugana í kennslustundum sem einnig voru teknar upp á myndband. Auk þess svöruðu nemendur í 8. og 10. bekk spurningalista sem lagður var fyrir á pappír í lok kennslustundar sem tekin var upp. Kennararnir rýndu í myndbandsupptökur með hliðsjón af greiningarrammanum PLATO til að meta gæði nokkurra þátta í eigin kennslu. Meginniðurstöður gefa vísbendingu um að æskilegt sé fyrir skólastjórnendur sem vilja ástunda kennslufræðilega forystu að skapa vettvang fyrir faglegar samræður við kennara um kennsluhætti. Til að geta það þarf hann upplýsingar um það sem gerist í skólastofunni. Skólastjórinn í þessari rannsókn hefur þróað vinnulag innan skólans sem snýr að því að skapa þennan vettvang en einnig að veita kennurunum umboð til athafna til að þróa og bæta kennsluhættina. Niðurstöður þessarar rannsóknar styðja við niðurstöður annarra rannsókna um að árangursríkasta starfsþróun kennara fari fram í nánum tengslum við daglegt starf. Kennurunum fannst árangursríkt við mat á kennslustundum að rýna í myndabandsupptökur með hliðsjón af greiningarrammanum PLATO.

 

Mat á þróunarverkefni um stoðkerfi við starfsþróun kennara og skólastjórnenda

Birna Sigurjónsdóttir, kennari og Hjördís Þorgeirsdóttir, framhaldsskólakennari, Menntaskólanum við Sund

Í þessu erindi er fjallað um mat á þróunarverkefni samstarfsráðs um starfsþróun kennara og skólastjórnenda um stoðkerfi við starfsþróun kennara og skólastjórnenda, framkvæmd þess og útkomu. Fjórir skólar tóku þátt, leikskóli, grunnskóli, framhaldsskóli og tónlistarskóli. Matið fór fram frá apríl 2019 til janúar 2021. Metið var hvernig grunnstoðir stoðkerfis við starfsþróun nýttust í verkefninu þ.e. ígrundun í starfi, starfendarannsóknir, lærdómssamfélag, samstarf innan og milli skóla og samstarf háskóla og skóla um starfsþróun og skólaþróun. Fimm þrepa matslíkan Tomas R. Guskey á starfsþróun var nýtt við mat á þróunarverkefninu. Aðferðafræðin er blönduð tækni þar sem fjórar rannsóknaraðferðir eru nýttar, umræðufundir, kannanir, viðtöl og ritaðar heimildir. Allir skólarnir nema grunnskólinn luku þróunarverkefninu og náðu þeim markmiðum sem þeir höfðu sett sér. Heildarniðurstaðan er að þróunarverkefnið kemur mjög vel út samkvæmt matskerfi Guskey um starfsþróun og samkvæmt matinu virka einstaka þættir stoðkerfisins vel fyrir faglega starfsþróun kennara. Þátttakendur voru mjög ánægðir með verkefnið, skipulag, fundi, samvinnu, samræður og verkefnisstjórn. Þeir töldu sig ígrunda starfið meira, tíma í það var vel varið og það hafði nýst þeim vel í starfi. Þátttakendur voru ánægðir með stuðning skólans við verkefnið og töldu það styðja vel við lærdómssamfélagið í skólanum. Minnsta ánægjan var með tímann sem þátttakendur höfðu til að sinna þróunarverkefninu. Í starfsþróunarverkefnunum hefur orðið til þekking meðal þátttakenda sem nýtist þeim í starfi auk þess að nýtast nemendum. Þróunarverkefnið hefur þannig haft varanleg áhrif á skólastarfið. Fullyrða má að samstarf um starfsþróun og lærdómssamfélag milli ráðgjafa háskólanna og þróunarhópanna hafi átt stóran þátt í árangri þróunarverkefnanna.