Líkamleg heilsa, íþróttir, hreyfifærni og lýðheilsa 

Kl. 12:00-13:30

Birna Varðardóttir

YAP (Young athletes program) Alþjóðleg hreyfiáætlun

Karitas S. Ingimarsdóttir, íþróttafræðingur, leikskólanum Glaðheimum, Bolungarvík og Ragnheiður I. Ragnarsdóttir, leikskólastjóri leikskólans Glaðheima, Bolungarvík 

Alþjóðlega hreyfiáætlunin (YAP) er alþjóðaverkefni sem unnið er af Special Olympics í samstarfi við háskólann í Boston. Alþjóðlega hreyfiáætlunin er snemmtæk íhlutun í hreyfifærni með það að markmiði að stuðla að aukinni hreyfiþjálfun barna tveggja til sjö ára. Ísland hóf innleiðingu áætlunarinnar árið 2015 og er áhersla lögð á samstarf við leikskóla. Tilgangur rannsóknar var að mæla hreyfifærni allra útskriftarnema í árgangi 2015 fyrir og eftir æfingatímabil eftir kennsluefni YAP. Markmið var að sem flestir útskriftarnemendur, 5-6 ára, vorið 2021 hefðu náð 90% færni í sérstöku matsprófi. Til að meta árangur voru nemendur prófaðir með stöðluðu matsprófi YAP. Matsprófið gefur annars vegar hrátt skor sem byggist á samanlagðri tölu úr atriðum sem nemandi getur framkvæmt samkvæmt stöðlum prófs og heildarprósentu reiknaða út frá hráu skori, 35 stig (=100%). Hæsta hráa skor í fyrra matsprófi rannsóknarinnar var 34 stig og náðist það fyrir 8 vikna æfingatímabil eftir kennsluefni YAP. Meðaltal hrás skors í fyrra prófi var 28,4 stig og 30,5 stig í seinna prófi. Mesta framför milli fyrra og seinna prófs var úr 25 stig í hráu skori í 35 stig eða úr 71% heildarprósent í 100%. Sökum tímaskorts voru þeir nemendur sem náðu yfir 90% færni í fyrra prófi ekki endurprófaðir heldur þeir sjö nemendur sem ekki náðu a.m.k. 90% færni í matsprófi. Niðurstöðurnar sýndu að aukin hreyfiþjálfun skilar sér í bættri hreyfifærni þar sem allir nemendurnir nema einn, sem endurprófaðir voru, bættu sig á milli prófa. Einnig inniheldur matsprófið sértækari prófanir en aldursmiðaðir matslistar sem fylltir eru út árlega og gefa því ítarlegri niðurstöður um stöðu nemenda gagnvart hreyfifærni. Þó æfingarnar séu í grunninn miðaðar að börnum með sérþarfir sýna niðurstöðurnar að æfingarnar henta öllum börnum þar sem einungis einn nemandi í þessari rannsókn var með sérþarfir.  

 

Lýðheilsa og orðnotkun í heimsfaraldri

Ágústa Þorbergsdóttir, verkefnisstjóri, HUG HÍ og Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir, lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri vöruhönnunar, Sidekick Health 

Heimsfaraldurinn COVID-19 hefur haft mikil áhrif á lýðheilsu þjóða en þar að auki hefur hann haft áhrif á orðnotkun. Ýmis sérfræðihugtök hafa komið fram og í sumum tilvikum hefur íslensk orðnotkun verið á reiki. Einnig eru dæmi um að skilgreiningar hugtakanna hafi breyst vegna nýrra áskorana. Erindið greinir frá rannsókn á orðnotkun sem tengist heimsfaraldrinum. Orðanefnd í lýðheilsu hefur unnið að því markmiði að festa í sessi skýra orðnotkun. COVID-orðum hefur verið safnað saman í lista og var listinn lagður fyrir til samþykkis hjá íðorðanefnd lýðheilsufræða og að því loknu settur í rýniferli hjá bæði fagaðilum og fræðifólki víða í samfélaginu. Í rannsókninni var orðalisti lýðheilsufræðinga borinn saman við tíðnilista úr Risamálheild Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum frá síðasta ári og athugað hvaða COVID-orð höfðu aldrei komið fram áður og hvaða orð voru mun algengari en fjögur ár á undan. Þá var einnig athugað hvaða COVID-orð hafa verið send á Nýyrðavefinn nyyrdi.arnastofnun.is. Í þessu samhengi er einnig fjallað um málsnið eftir aðstæðum, íðorð, almennt mál og slanguryrði. Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að mjög mikilvægt sé að fræðileg orðnotkun sé skýr og að jafnframt sé fylgst með því hvaða orð hafa í raun verið notuð. Orðalisti í lýðheilsu er birtur í heild á vefnum https://idord.arnastofnun.is/leit//ordabok/LYDHEILSA 

 

Hlutfallslegur orkuskortur (RED-s) meðal íslensks íþróttafólks

Birna Varðardóttir, doktorsnemi, MVS HÍ; Sigríður Lára Guðmundsdóttir, prófessor, MVS HÍ og Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor, MVS HÍ 

Miklu máli skiptir að orku- og næringarefnainntaka íþróttafólks sé í samræmi við einstaklingsbundnar þarfir, og styðji sem best við heilsu og árangurstengda þætti. Sé það ekki raunin er hætt við að jákvæð áhrif íþróttaiðkunar snúist í andhverfu sína með tímanum. Viðvarandi skortur tiltækrar orku (e. low energy availability) leiðir til hlutfallslegs orkuskorts (e. relative energy deficiency in sport, RED-s) og veldur því að orkan sem líkaminn hefur fyrir sína grunnstarfsemi er ekki næg. Víðtækar truflanir geta því orðið á líkamsstarfsemi vegna RED-s og haft neikvæð áhrif á heilsu og árangur til lengri og skemmri tíma. Niðurstöður erlendra rannsókna benda til þess að algengi RED-s sé breytilegt eftir íþróttagreinum en geti þó komið fram hjá öllu íþróttafólki, óháð aldri, kyni og getustigi. Markmið RED-Í rannsóknarverkefnisins er að meta algengi og áhættuþætti RED-s meðal íslensks afreksíþróttafólks og afreksefna yfir 15 ára aldri úr fjölbreyttum íþróttagreinum. Kynntar verða frumniðurstöður úr fyrri hluta rannsóknarinnar þar sem alþjóðlegir spurningalistar (Low Energy in Females (LEAF-Q) og Low Energy in Males Questionnaire (LEAM-Q)) voru þýddir og staðfærðir áður en þeir voru lagðir fyrir með rafrænum hætti. Vægi og próffræðilegir eiginleikar spurningalistanna verða ræddir og fjallað um hvernig byggt verður á niðurstöðunum í þeim mælingum sem verða framkvæmdar í seinni hluta rannsóknarinnar. RED-Í er fyrsta íslenska rannsóknin sem tekur til tiltækrar orku og RED-s og gætu niðurstöður nýst við þróun íslenskra skimunartækja og ráðlegginga, auk þess að efla forvarnir og meðferð.