Listir

Kl. 13:40-15:10

Rannveig Björk Þorkelsdóttir

Söfn og menntun 

Hanna Ólafsdóttir, lektor, MVS HÍ  

Í þessu erindi á að veita innsýn í verkefni sem tengist „listasögu, söfnum og menntun,“ en verkefnið hlaut styrk úr Kennslumálasjóði 2021. Meginmarkmið verkefnisins er tvíþætt; annars vegar að styrkja tengsl MVS og lista- og menningarsafna (að styrkja samband kennara og skólakerfisins við söfnin) og hins vegar að þróa námsefni tengt viðfangsefninu. Forsendur samstarfsins eru kjarnahlutverk þessara stofnana, rannsóknir, menntun, kennsla, sýningarstarfsemi, miðlun, söfnun og varðveisla. Í samstarfi við söfnin er ætlunin að útfæra sameiginleg verkefni með sérstakri áherslu á söfnin sem fræðslu- og menntastofnanir og miðlun til almennings, kennara og nemenda. Fyrsti vísir að þessu samstarfi var á haustmánuðum 2020 þegar komið var á samstarfi við Hafnarborg. Það varð til þess að nemendur MVS á námskeiðinu „Íslensk listasaga, söfn og menntun“ unnu smiðjur ætlaðar börnum í tengslum við sýningu í safninu. Á vorönn 2021 tók við framhaldsáfangi á meistarastigi þar sem nemendur unnu kennsluefni í tengslum við listasögu og safnafræðslu. Rýnt verður í afrakstur þessarar vinnu þar sem skapaður var vettvangur þar sem áherslan er á samstarf og samtal skóla og safna á milli. Rannsóknin sem er enn á frumstigi byggir á eigindlegri rannsóknarhefð og opnum spurningum. Niðurstöður benda til þess að vinna við verkefni/smiðjur þar sem unnið er með eitthvert tiltekið viðfansefni með útgangspunkt í skapandi úrvinnslu gagnist bæði kennaranemum og kennurum í endurmenntun í kennslu. Verðandi kennarar kynnast skapandi leiðum til að tengja kennsluefni safnafræðslunni og þjálfa um leið stafrænt læsi og gagnrýna hugsun. 

 

Að brúa bilið, aðferðir leiklistar notaðar til að bæta árangur í tungumálakennslu

Rannveig Björk Þorkelsdóttir, dósent, MVS HÍ og Jóna Guðrún Jónssóttir, aðjúnkt, MVS HÍ 

Í þessu erindi veitum við innsýn í þróunarverkefni sem heitir: Að brúa bilið, aðferðir leiklistar notaðar til að bæta árangur í tungumálakennslu. Vettvangur verkefnisins er námskeið í leiklist sem beinist að tungumálanámi. Námskeiðið er ætlað nemendum og kennurum Háskóla Íslands. Erindið fjallar um hönnunarmiðaða rannsókn (e. design-based research) á aðferðum frásagnarleikhúss þar sem aðferðir leiklistar eru notaðar með áherslu á raunveruleg/raunhæf (e. embodied) dæmi um námsferli og tjáningu nemenda og viðhorf sem getur umbreytt störfum listafólks og kennslufræðinga í rannsóknarefni og rannsókninni sjálfri á vettvangi. Sem rannsakendur á starfsvettvangi byggjum við rannsóknir okkar og störf á hugmyndafræði sem gerir okkur kleift að viðhalda víxlverkun og gagnkvæmum stuðningi rannsókna og starfa. Með því að líta á starf sem rannsókn, og rannsókn sem starf, buðum við nemendum okkar að taka þátt í verkefni sem heitir Að brúa bilið á haustönn 2020. Verkefnið hafði tvö markmið; annars vegar að skoða hvort, og þá hvernig, hægt er að nota aðferðir frásagnarleikhúss til að bæta árangur í tungumálakennslu og hins vegar að skoða okkar eigin kennsluhætti til að byggja brýr milli kennslufræðilegra og fræðilegra þátta í kennslu og námi, til að kanna rýmið þar á milli sem er það sem við búumst við af kennaranemunum okkar. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu fram á að þátttaka í rannsókninni var valdeflandi fyrir nemendur. Með því að brúa bilið milli rannsakenda og kennara, svo og bilið milli kennara og nemenda, reyndist vera námsferli fyrir alla þátttakendur. 

 

Hreyfanleiki líkamans: Um göngur í listum, námi og rannsóknum

Gunndís Ýr Finnbogadóttir, lektor, LHÍ 

Í erindinu verður fjallað um göngur í samhengi við nám, myndlist og rannsóknir og áhrif þeirra á skynjun og tengsl við umhverfi okkar. Á síðustu áratugum hafa vinsældir þess að nota göngur í rannsóknum til þess að safna gögnum aukist mikið en það hefur sýnt sig að göngur, hvort sem það eru gönguviðtöl, athuganir eða skynjunargöngur, auka möguleika á að fá góða og heildræna innsýn inn í upplifun fólks af umhverfinu, sem getur haft mikinn ávinning. Rannsóknir sýna að það að ganga sem hluti af námi getur haft mikil áhrif á líðan, á tengsl á milli nemenda og einnig nemenda og umhverfis. Í listkennslu getur verið áhrifarík leið að vinna með nemendum utandyra og að veita þeim tækifæri til þess að skoða nærumhverfi sitt og að stunda listsköpun í gegnum göngur. Í erindinu verður greint frá reynslu úr námskeiðum og vinnusmiðjum með háskólanemum þar sem lögð var áhersla á göngur og listsköpun. Göngur sem listaverk eiga rætur sínar að rekja til annars og þriðja áratugar síðustu aldar og hafa tekið á sig ólíkar birtingarmyndir en mörg þeirra eiga það sameiginlegt að listamaðurinn og stundum jafnvel áhorfendur fara í gegnum skynræna upplifun á umhverfinu á göngu.