Leikskólinn 

Kl. 12:00-13:30

Anna Magnea Hreinsdóttir

„Stundum er maður lengi í leikskólanum, en ekki alltaf“: Viðhorf barna til dvalartíma þeirra í leikskóla

Anna Magnea Hreinsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ og Kristín Dýrfjörð, dósent, HA 

Upplifun barna á tíma er líklega ekki sú sama og hjá fullorðnum. Áhrif tímans á leikskólastarf og skipulag þess eru töluverð og mótar klukkan bæði starfshætti og tíma barna í daglegu starfi. Klukkan hefur áhrif á barnahópinn og tengist fagmennsku kennara sem felst í skýrðu dagskipulagi og vel skipulögðu starfi. Samtímis getur skipulagið takmarkað flæði í leik barna og dýpt hans. Í erindinu er fjallað um rannsókn í sex leikskólum á höfuðborgarsvæðinu með það að markmiði að gefa börnum tækifæri til að láta í ljós skoðanir á eigin dvalartíma og að varpa ljósi á hvaða þættir hafa áhrif á líðan þeirra og upplifun á tíma. Tilgangurinn var að koma til móts við sjónarmið og virkja áhrifamátt barnanna í daglegu starfi. Rannsakendur vörðu tíma með 60-120 stúlkum og drengjum á aldrinum 4-5 ára, til að leita svara við hvernig börnin upplifðu dvalartíma sinn. Niðurstöður sýna að börnin þekkja fæst annað en að dvelja í leikskóla megnið af vökutíma sínum. Almennt töldu börnin sig vera lengi í leikskólanum og fæstum fannst þau vera þar stuttan tíma. Fram kom að börn upplifa bæði það sem þeim finnst skemmtilegt og leiðinlegt sem lengi að líða. Jafnframt er núið þeim ofarlega í huga. Fram kom að vinátta barna er þeim mikilvæg og tækifæri til að fást við fjölbreytt og menntandi viðfangsefni sem þau fá að stýra sjálf. Rannsóknin varpar ljósi á að gefa þurfi tímaskyni barna gaum og þarf skipulag leikskólastarfs að taka mið af upplifun og skynjun barna á tíma. 

 

Undirbúningstímar í leikskóla: Með hag barna að leiðarljósi

Kristín Karlsdóttir, dósent, MVS HÍ; Anna Magnea Hreinsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ; Margrét S. Björnsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ og Sara Margrét Ólafsdóttir, dósent, MVS HÍ 

Sagt er frá rannsókn sem gerð var í átta leikskólum á Íslandi með það að markmiði að skoða fyrirkomulag og áhrif undirbúningstíma leikskólakennara á nám og vellíðan barna í leikskóla. Tilgangurinn var að auka skilning á hvernig leikskólakennarar forgangsraða verkefnum í undirbúningstímum og hverju þau skila í daglegt starf barna í leikskólum. Tekin voru viðtöl við átta leikskólastjóra víðs vegar af landinu, í bæði fámennum og fjölmennum leikskólum, átta deildarstjóra og átta leikskólakennara um skipulag og framkvæmd undirbúningstíma. Fyrstu niðurstöður sýna að þátttakendur völdu að undirbúa leikskólastarfið á fjölbreyttum tímum yfir daginn og var undirbúningi yfirleitt sinnt við tölvu í sérstökum herbergjum ætluðum til undirbúnings. Í leikskólunum voru undirbúningstímarnir notaðir til þess að sinna fjölbreyttum verkefnum svo sem skipulagningu leikskólastarfsins, foreldrasamstarfi, endurmenntun og formlegu mati á námi og vellíðan barnanna. Þátttakendur töldu að aukinn undirbúningstími leikskólakennaranna hefði jákvæð áhrif á fagmennsku þeirra og þar með gæði í leikskólastarfi, sérstaklega þar sem hlutfall fagfólks var hátt. Kennararnir sögðust koma betur undirbúnir til starfa á deildum og verkefnum sem áður þurfti að sinna á hlaupum gátu þeir sinnt í undirbúningstímanum sem skilaði sér í nánari tengslum við börnin í leik og daglegu starfi. Fram kemur ákveðinn ójöfnuður sem tengist réttindum barna til gæða leikskólastarfs þar sem undirbúningstímar eru kjarasamningsbundnir leikskólakennurum og eru þeir flestir þar sem leikskólakennarar eru margir. Rannsóknin varpar ljósi á tengsl nýtingar undirbúningstíma og fagmennsku leikskólakennara, gæði leikskólastarfs og hvaða áhrif aukinn undirbúningstími hefur á hag barna. 

 

Ærslaleikur ungra barna: Óþarfa hamagangur eða fyrstu skref í samleik?

Hugrún Helgadóttir, leikskólakennari, leikskólanum Jötunheimum 

Rannsóknin var gerð til M.Ed.-prófs í júní 2020. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvernig mætti gefa yngstu börnum í leikskóla meira svigrúm til ærslaleiks inni á deild í þeim tilgangi að ærslaleikurinn styddi við samskipti þeirra. Ærslaleikur ungra barna er skilgreindur í þessu verkefni sem leikstíll sem einkennist af hreyfingu, líkamstjáningu og hljóðum. Í rannsókninni var sjónum beint að því hvernig ærslaleikur styður við samskipti ungra barna inni á deild og hvernig breytt fyrirkomulag á námsumhverfi deildar og starfshættir kennara geta stutt við samskipti ungra barna. Rannsóknarsniðið var starfendarannsókn þar sem rýnt var í þróun nýrra starfshátta og áhrif þeirra á samskipti yngstu barnanna. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að ærslaleikur ungra barna studdi við samskipti barnanna á deildinni. Í forgrunni ærslaleiksins var líkamstjáning sem veitti ungu börnunum jafnan grundvöll til samskipta og til að þróa samleik sinn. Breytt námsumhverfi deildarinnar gaf börnunum aukin tækifæri til samskipta. Ærslahornið sem sett var upp á deildinni veitti börnunum svæði til að ærslast á sem leiddi til þess að félagstengsl og samskipti þeirra efldust. Niðurstöður sýndu einnig mikilvægi þess að kennarar séu andlega og líkamlega til staðar til að styðja við samskipti ungra barna, ekki aðeins til þess að leiðbeina þeim í leik, heldur jafnframt til að veita þeim öryggi. Út frá niðurstöðunum má álykta að ung börn fái aukin tækifæri til að efla samskipti og samleik sín á milli með meira svigrúmi til ærslaleiks inn á deild, auk þess að ærslaleikurinn veiti kennurum kjörinn vettvang til að styðja við leik yngstu barnanna á leikskóla.