Læsi

Kl. 12:00-13:30

Rannveig Oddsdóttir

Orð af orði í leikskóla

Guðmundur Engilbertsson, lektor, HA 

Orð af orði er kennslufræði sem hefur að markmiði að efla læsi og námsárangur grunnskólabarna. Lögð er áhersla á að efla málumhverfi, kenna markvissar aðferðir við að sundurgreina námsefni, orð og hugtök, greina merkingu og inntak, tengsl við annað efni, kortleggja aðalatriði og endurbirta á fjölbreyttan og heildrænan hátt. Orð af orði kennslufræðin hefur verið útfærð sem þróunarverkefni í grunnskólum allt frá 1. til 10. bekkjar. Hver skóli hefur lagað hugmyndir og aðferðir verkefnis að starfi skólans, mismunandi námsgreinum, aldri og aðstæðum í bekk. Þróunarverkefnið felur í sér fræðslu, kennsluefni, ráðgjöf og eftirfylgni og hafa margir grunnskólar á landinu tekið þátt í slíku þróunarstarfi. Rannsóknir er varða áhrif Orðs af orði á orðaforða og lesskilning nemenda og orðaforða nemenda af erlendum uppruna gefa til kynna góðan árangur (mælingar, stöðluð próf). Þróunarstarf með Orði af orði virðist einnig hafa jákvæð áhrif á starfskenningu og starfsþróun kennara og m.a. auðvelda þeim að hrinda hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar í framkvæmd. Ljóst er að kennslufræðin getur nýst vel á fleiri skólastigum og næsta skref er að útfæra hana til eflingar orðaforða leikskólabarna og starfsþróunar leikskólakennara þar sem lögð verður áhersla á samræðu sem helsta tæki og viðfangsefni þróunarstarfsins í stað ritmáls/ritunar. Markmiðið er að efla orðaforða barna og veita þeim ríkuleg tækifæri að rækta tungumálið sitt – verkfæri hugans – á skapandi og greinandi hátt. Í erindinu verður gerð grein fyrir þróun Orðs af orði kennslufræðinnar til innleiðingar í leiksskólastarfi. Jafnframt verður gerð grein fyrir rannsókn á fyrirhugaðri innleiðingu. 

Stafurinn minn og stafurinn þinn: Þróun stafaþekkingar íslenskra barna á aldrinum 4-6 ára

Rannveig Oddsdóttir, lektor, HA og Hrafnhildur Ragnarsdóttir, prófessor emeritus, MVS HÍ 

Einn mikilvægur þáttur í þróun læsis er að læra að þekkja stafina. Börn byrja ung að viða að sér þekkingu á stöfum og hafa erlendar rannsóknir sýnt að þróun stafaþekkingar er mjög háð uppeldisaðstæðum. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða hvernig stafaþekking íslenskra barna þróast frá 4-6 ára aldurs, hvort stafaþekking tengist menntun foreldra, læsisumhverfi á heimili eða málþroska barnanna, og hvort börn læra fyrr að þekkja ákveðna stafi en aðra. Fylgst var með þróun stafaþekkingar hóps barna yfir þriggja ára tímabil og aflað upplýsinga um málþroska þeirra, menntun foreldra og lestrarumhverfi á heimilum. Niðurstöður sýna að þótt ekki sé lögð áhersla á það í íslenskum leikskólum að kenna börnum stafina með skipulögðum hætti er staða íslenskra barna góð hvað þennan þátt lestrarnáms varðar og við fjögurra til fimm ára aldur var stafaþekking barnanna komin vel á veg. Fylgni var á milli stafaþekkingar, menntunar foreldra, tekna og málþroska barnanna en lítil tengsl fundust við lestarumhverfi á heimilum. Yngstu börnin þekktu helst stafi sem hafa persónulega merkingu fyrir þeim svo sem sinn eigin staf og stafi annarra fjölskyldumeðlima. Niðurstöðunum ber saman við fyrri rannsóknir á þessu sviði sem sýna að stafaþekking barna er samofin af mörgum þáttum og þau viða að sér þekkingu um stafina í gegnum persónulega reynslu af ritmáli. Í leikskólastarfi ætti því að gæta þess að áherslur í læsiskennslu afmarkist ekki við mjög þrönga þætti hvað varðar þekkingu og leikni barna heldur vinna á fjölbreyttan hátt með lestur og ritmál í margvíslegu samhengi út frá áhuga barnanna.  

 

Myndbandasamkeppnin Siljan: Lærdómur af skapandi lestrarverkefni

Brynhildur Þórarinsdóttir, dósent, HA 

Myndbandasamkeppnin Siljan er skapandi lestrarverkefni fyrir nemendur í 5.-10. bekk, en Barnabókasetur stendur fyrir keppninni. Nemendur velja nýlega barna- eða ungmennabók og hafa frjálsar hendur við að skapa myndband um hana. Markmiðið er að efla lestraráhuga grunnskólanemenda, stuðla að jafningjahvatningu og beina sjónum skólasamfélagsins að barna- og ungmennabókum. Barnabókasetur nýtir keppnina jafnframt til að safna gögnum sem nýst geta til að bæta lestrarmenningu barna og unglinga. Siljan hefur verið haldin sex sinnum og í gagnasafninu eru 230 myndbönd eftir nærri 800 nemendur. Hér verður gagnasafn Siljunnar krufið, hópurinn að baki myndböndunum verður greindur og litið sérstaklega á framlag stúlkna og drengja sem og miðstigsnemenda og unglinga. Þekking á lestrarvenjum grunnskólanemenda gefur tilefni til að ætla að stúlkur taki frekar þátt í lestrartengdu verkefni en drengir og yngri nemendur frekar en eldri. Hvort tveggja fékkst staðfest en þó hallar enn meira á unglingana en búast hefði mátt við. Þótt almennt halli á drengi mæta þeir sterkir til leiks þar sem kennarar tóku keppnina inn í kennsluna sem sýnir hversu mikilvægur þáttur kennarans er í að skapa stemningu fyrir lestri. Fjallað verður um bækurnar sem nemendur völdu í samanburði við metsölulista og útlánatölur skólasafnanna, hvað einkennir vinsælustu bækurnar, og hvað einkennir myndböndin, en slíkar upplýsingar um hvernig börn velja og túlka bókmenntir koma að gagni við eflingu læsis og bókmenntakennslu. Myndbandasafnið ber vott um sköpunarkraft, hugvitssemi og tæknifærni barna og minnir á mikilvægi þess að vinna með áhugahvöt í tengslum við læsi. 

 

Ása sá sól – og hvað svo? Áhrif einfaldrar sýnar á lestur og lestrarnám skoðuð út frá DRIVE-líkaninu

Auður Björgvinsdóttir, grunnskólakennari, Álftanesskóla og Guðmundur Engilbertsson, lektor, HA 

Mikilvægi góðrar grunnfærni í lestri er óumdeilanlegt en slík færni er ekki nægjanleg. Við upphaf skólagöngu er kappkostað að börnin nái umskráningarfærni. Verkefnið sem bíður barnanna er að nýta lestrarfærni sína með hliðsjón af mismunandi textum, í ólíkum aðstæðum og með fjölbreyttum tilgangi ævina á enda. Fá nemendur kennslu og tækifæri til að þjálfa færni sína með það í huga eða er lestur settur í þröngt samhengi með áherslu nánast eingöngu á hljóðaaðferð og tæknilegan lestur í svipuðum textum? Duke og Cartwright, virtir fræðimenn á sviði lestrarrannsókna, hafa gert líkan sem skýrir vel hvað gerist í huga okkar þegar við lesum með því að líkja lestri við akstur. Auður Björgvinsdóttir og Guðbjörg R. Þórisdóttir lestrarfræðingar í læsisteymi Menntamálastofnunar fengu leyfi höfunda og Alþjóðlegu læsissamtakanna til að þýða DRIVE-líkanið og láta teikna nýja skýringarmynd. DRIVE-líkanið lýsir lestrarferlinu. Það útskýrir samhengi lestrar á skýran og aðgengilegan hátt og hjálpar við að afmarka mismunandi þætti hans. Meðal þess sem líkanið varpar ljósi á eru þættir í lestrarferlinu sem gleymast oft, svo sem áhugahvöt, þrautseigja og stýrifærni (e. executive function) sem gerir okkur kleift að stjórna hugsunum og tilfinningum okkar við framkvæmd flókinna verkefna. Líkanið má nýta til að varpa ljósi á kennsluaðferðir, starfsþróun kennara og stefnumótun ólíkra aðila og stofnana sem koma að öllu er varðar lestrarnám og -kennslu. Í málstofuerindinu verður gerð grein fyrir DRIVE-líkaninu og það sett í samhengi við lestrarkennslu og starfsþróun.