Hringborðsumræður I

Kl. 13:40-15:10

Stjórnandi: Gerður G. Óskarsdóttir

Þátttakendur: Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor, MVS HÍ; Börkur Hansen, prófessor, MVS HÍ; Ingvar Sigurgeirsson, prófessor emeritus, MVS HÍ; Sigríður Margrét Sigurðardóttir, lektor, HA og Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands

Um þessar mundir er liðinn aldarfjórðungur frá flutningi á rekstri grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga. Í málstofunni eru dregnar fram niðurstöður rannsókna frá þessu tímabili um þróun einstakra þátta grunnskólastigsins. Tilgangurinn er að varpa ljósi á þróunina og meta hvort eða hvernig flutningurinn hafði áhrif á hana. Annars vegar verða skoðaðir þættir sem tilheyra ytri umgjörð, s.s. stjórnun skóla og skipulag starfsins. Hins vegar verður sjónum beint að innra starfi, s.s. samstarfi kennara og kennsluháttum. Fyrirlesarar mynda panel þar sem hver er með stutt innlegg, góður tími er gefinn fyrir umræður. Byggt er á fyrirliggjandi rannsóknum á grunnskólastiginu og reynslu fyrirlesara, annars vegar um umgjörð skólastarfsins og hins vegar námi og kennslu. Þessar rannsóknir eru ekki tengdar en með því að lesa í niðurstöður þeirra hverrar fyrir sig í samhengi má lesa ákveðna heildarþróun. Nýnæmi felst í að horfa heildstætt á niðurstöður margra höfunda. Fram kemur mynd af og mat á þróuninni. Um ytri ramma verður m.a. litið til fjölgunar stöðugilda stjórnenda innan skóla, starfa ráðgjafa, breytinga á skólabyggingum og breytingar á skilum milli árganga og bekkja. Í innra starfi verður sjónum m.a. beint að samstarfi kennara, kennsluháttum, þjónustu við skóla (frá fræðsluskrifstofum landshluta til þjónustu á vegum hvers sveitarfélags), símenntun kennara og stuðningi við starfsþróun. Leitast verður til að meta hvort flutningurinn hafði áhrif á þessa þróun eða hvort hér sé fremur um að ræða alþjóðlega strauma og þróunin hefði orðið án tillits til yfirstjórnar á rekstri skólanna. Niðurstöður geta skapað grunn að framtíðarsýn.