Bragðlaukaþjálfun, heimilisfræði og kennsla 

Kl. 13:40-15:10

Anna Sigríður Ólafsdóttir 

Þróun kennsluhátta eftir heimakennslu í heimilisfræði á tímum COVID-19 veturinn 2020-2021. Hvað næst?

Ragnheiður Júníusdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ  

Tilgangur og markmið er að lýsa reynslu af kennslu í heimilisfræði þegar ekki var unnt að halda úti verklegri kennslu í kennslueldhúsi Menntavísindasviðs eftir lokun samfélagsins haustið 2020 vegna COVID-19. Til að bæta nemendum þetta og koma kennslunni í gagnlegan farveg var kennt úr heimiliseldhúsi í gegnum Teams veturinn 2020-2021. Viðfangsefnið var skoðað út frá aðferðum starfendarannsókna, hver kennslustund metin og aðferðum breytt eftir því hvernig kennslan gekk, til dæmis undirbúningur, val uppskrifta, tækjaþörf og áskoranir sem komu upp við kennsluna. Allar kennslustundir voru teknar upp í gegnum Teams og birtar óklipptar á Canvas-vef námskeiðanna. Reynslan af heimakennslunni var almennt góð. Töluvert þurfti að aðlaga aðstæður í heimiliseldhúsinu að fjarkennslunni. Útvega þurfti vefmyndavél, bæta lýsingu, netöryggi og hljóð og ýmislegt annað. Einnig þurfti að koma í veg fyrir truflanir af völdum fjölskyldumeðlima og gæludýra. Erfiðast var að virkja nemendur í vinnu. Sumir þeirra elduðu eða bökuðu með kennara í hverjum tíma, aðrir horfðu á en sumir mættu aldrei. Áhugavert var hve mikil tengsl mynduðust á milli kennara og nemenda. Ánægja var meðal fjarnema með þetta fyrirkomulag en staðnemar söknuðu staðkennslunnar. Heimakennsla í heimilisfræði er raunhæfur kostur og út frá þessari reynslu er ætlunin að taka upp hluta verklegrar kennslu og nýta sem kennsluefni. Einnig nýtist þessa reynsla til að þróa áfram kennsluhætti í rauntíma fyrir fjarnema í verklegum greinum og þá jafnvel á tíma utan hefðbundinnar stundatöflu.  

 

Bragðlaukaþjálfun: Fyrstu niðurstöður úr rannsókn á matvendni barna með og án taugaþroskaraskana og fjölskyldur þeirra

Sigrún Þorsteinsdóttir, doktorsnemi, MVS HÍ; Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor, MVS HÍ; Urður Njarðvík, prófessor, HVS HÍ og Ragnar Bjarnason, prófessor, HVS HÍ og yfirlæknir á LSH  Barnaspítalanum 

Börn með taugaþroskaraskanir á borð við einhverfurófsröskun og ADHD eru gjarnan matvandari en börn án þessara raskana. Samt sem áður er lítið um fæðumiðaðar íhlutanir og rannsóknir í skólaumhverfinu fyrir börn með þessar raskanir. Til að rannsaka áhrif Bragðlaukaþjálfunar tók 81 fjölskylda með börn með taugaþroskaröskun (n = 33), og án (n = 48), á aldrinum 8-12 ára, þátt í 7 vikna íhlutun. Börnin voru pöruð út frá taugaþroskaröskun, kyni og aldri og síðan slembiraðað í íhlutunarhóp og seinkaðan íhlutunarhóp sem gegndi hlutverki viðmiðunarhóps. Niðurstöður sýndu að í íhlutunarhóp dró úr matvendni (e. food fussiness) miðað við seinkaða íhlutunarhópinn. Einnig dró stöðugt úr matvendni í 6 mánuði eftir þátttöku. Aftur á móti jókst ánægja af því að borða ekki marktækt (e. enjoyment of food). Ekki var marktækur munur á matvendni hjá börnum með og án taugaþroskaraskana. Niðurstöður sýndu einnig auknar líkur á að börn samþykktu eftir íhlutun fleiri tegundir af grænmeti, hnetum og fræjum, en ekki ávöxtum. Niðurstöður voru svipaðar óháð greiningum barnanna. Bragðlaukaþjálfun gefur góð fyrirheit sem einföld og mild langtímaleið til að draga úr matvendni og auka fæðufjölbreytni barna með og án taugaþroskaraskana. 
  

Krakkar kokka – nærsamfélagsneysla og sjálfbærni sem viðfangsefni gegnum skemmtimennt

Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor, MVS HÍ; Kolbrún Sveinsdóttir, verkefnastjóri á Matís og Berglind Lilja Guðlaugsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ 

Krakkar kokka er skemmtimennt um matarhefðir, nærumhverfisneyslu og sjálfbærni fyrir grunnskólabörn. Í verkefninu er lögð áhersla á umræðu um ábyrga neyslu þar sem virðing er borin fyrir náttúrunni, þeim sem brauðfæða þjóðina, sjálfbærum framleiðsluaðferðum, aðbúnaði dýra og manna og umhverfissjónarmiðum. Verkefnið var hluti af stærra Evrópuverkefni, WeValueFood, sem hefur það m.a. að markmiði að efla matarvitund, áhuga og þekkingu næstu kynslóðar á fæðutengdum málefnum. Verkefnið fór fram í sex grunnskólum haustið 2020 og var námsefni miðlað til 11-12 ára nemenda gegnum kennara hvers skóla sem fékk að aðlaga verkefnið að sínum þörfum og eigin hugmyndum um útfærslu. Viðtöl voru tekin við kennara úr fjórum af sex skólum um upplifun þeirra og reynslu af námsefninu. Nemendur svöruðu stöðluðum spurningalistum í upphafi og lok námsefnisins (minnst 6 vikur á milli) til að meta hvort námsefnið hefði áhrif á viðhorf og þekkingu tengd viðfangsefninu. Kennarar voru ánægðir með námsefnið og fannst það virka hvetjandi fyrir nemendur. Sérstaklega þóttu myndbandagerð og vettvangsferðir sem tilheyrðu verkefninu skemmtileg nálgun. Orðaforði tengdur viðfangsefninu reyndist hins vegar takmarkaður sem gerði innlögn námsefnisins og fyrirlögn spurningalistanna flókna. Niðurstöður úr spurningalistum gáfu til kynna að börn sem tóku þátt væru spenntari fyrir að prófa nýjan mat, horfðu frekar á fæðutengt efni á samfélagsmiðlum og væru líklegri til að velta fyrir sér hvernig matur væri framleiddur við lok verkefnis samanborið við upphafsmælingu. Námsefnið og aðferðirnar sem lagt var upp með í kennslu höfðuðu bæði til nemenda og kennara. Áframhaldandi vinna með innleiðingu og mat á gildi verkefnisins í skólastarfi er framundan.