Háskólar: Viðhorf nemenda til kennslu í COVID-19

Kl. 8:30-10:00

Rannsóknarstofa um háskóla

Ásta Bryndís Schram

„Gekk betur á Zoom en ég átti von á“ – Upplifun nemenda af námskeiði í netheimum

Ásta Bryndís Schram, dósent og kennsluþróunarstjóri, HVS HÍ og Ólöf Júlíusdóttir, kennslustjóri, HVS HÍ

Vegna aðstæðna í samfélaginu (COVID-19) var skyldunámskeiðið Inngangur í þverfræðileg heilbrigðisvísindi, heilsdagsnámskeið með fyrirlestrum og umræðutímum, fært í netheima. Uppteknir fyrirlestrar voru gerðir aðgengilegir á Canvas, verkefni aðlöguð fyrir Zoom- og Teams-umræðutíma, og leiðbeinendur undirbúnir undir umræðustjórnun og tæknilega útfærslu. Þátttakendur í námskeiðinu eru nýnemar í deildum Heilbrigðisvísindasviðs. Umfjöllunarefnið er teymisvinna heilbrigðisstétta, mannréttindi og jafnrétti með áherslu á réttinn til heilsu. Í lok námskeiðs svöruðu nemendur (N=621) spurningum sem lýstu upplifun þeirra. Notaðar voru spurningar með Likert-kvarða ásamt opnum reitum fyrir persónulegar athugasemdir. Svörin voru að nokkru leyti borin saman við svör og athugasemdir þátttakenda úr staðnámskeiðinu í janúar 2020. Þemagreiningu var beitt fyrir opnu athugasemdirnar. Niðurstöður leiddu í ljós að nemendur sem höfðu tekið námskeiðið í netheimum voru ekki síður ánægðir með námskeiðið (98% af 621 ánægðir/mjög ánægðir) en nemendur úr staðnámskeiðinu (97% af 328). Þemagreining sýndi m.a. eftirfarandi niðurstöður úr liðnum Best heppnað: Gott skipulag, gagnleg umræða við nemendur úr öðrum heilbrigðisstéttum og skipulagðir leiðbeinendur, en við bættist 2021: Gagnlegir myndbandsfyrirlestrar, og árangursríkt í netheimum. Ný þemu úr Miður heppnað voru m.a.: Skammur tími fyrir undirbúningsefni, vantaði glærur, skemmtilegra í staðkennslu, og smávægilegir tækniörðugleikar. Farið verður nánar í niðurstöður og hvernig þær leiðbeina með framhaldið. Það hefur verið áskorun að útvega nægilegan fjölda stofa fyrir tíu manna umræðuhópa í þessu fjölmenna námskeiði. Miðað við jákvæð viðbrögð nemenda er freistandi er að halda því í stafrænu umhverfi.

 

Students’ Perspectives on the Teaching-Learning Experience during COVID-19: A Case Study from First Year Students in Anthropology

Marco Solimene, post-doctoral researcher, School of Social Sciences, UI

I here present the preliminary results of a small investigation into how first-year students at the University of Iceland (UI) lived their teaching/learning experience during the COVID-19 pandemic. The study builds on a thematic analysis of 25 assignments that students wrote in a course in autumn 2020, and where they described their situation as university students in times of the pandemic. The students gave their permission to make these assignments available for this study. The analysis of the students’ perspectives was complemented by my direct observations as teacher in the course, and by retrospective reflections on that experience. I will first present the main challenges and obstacles identified by students, and then the strategies they adopted to endure the practical and emotional challenges posed by the pandemic. What emerges is how the uncertainties concerning the transition to university studies combined with those related to the exceptional circumstances of the COVID-19 outbreak. Students articulate the complexity of the learning experience and its intertwining with aspects referring to identity, relations and sociability, and sometimes socio-economic vulnerability. They also talk of agency and creatives responses to an adverse situation and highlight successes (and gaps) of the responses of the teachers and the UI to the pandemic. I thus reflect on the lessons that can be learned from the students’ perspectives and might come useful, not only in case of a new lockdown, but also to improve the teaching/learning experience at the UI in post-pandemic times.

 

Reynsla stúdenta í Háskóla Íslands á tímum COVID-19 vorin 2020 og 2021

Amalía Björnsdóttir, prófessor, MVS HÍ og Þuríður Jóna Jóhannsdóttir, prófessor, MVS HÍ

Rannsóknin kannaði áhrif COVID-19 faraldursins og var gögnum safnað í tvígang vorin 2020 og 2021 með rafrænni spurningakönnun sem send var til allra stúdenta Háskóla Íslands. Svarhlutfall var um 12%. Spurt var um upplifun stúdenta af þeim breytingum sem gerðar voru í kjölfar samkomutakmarkana en einnig um áhrif faraldursins á fjárhag, námsframvindu og líðan. Örlítið hefur dregið úr vinnu með námi, 68% unnu með námi 2020 en 60% árið 2021. Fjórðungur er á námslánum 2021 en um fimmtungur 2020. Árið 2020 sögðust nærri 90% vera frekar eða mjög sátt við hvernig brugðist var við COVID-19 faraldrinum en talsvert færri eða 68% vorið 2021. Um 75% stúdenta voru sáttir við þær rafrænu lausnir sem notaðar voru bæði vorið 2020 og 2021 en vísbendingar eru um mun meiri notkun seinna árið. 20% töldu frekar eða mjög líklegt að þeim seinkaði í námi vegna COVID-19 vorið 2020 en 28% ári seinna. Árið 2020 höfðu 30% frekar eða mjög miklar áhyggjur af fjárhagslegri getu sinni til að stunda nám en hlutfallið var 42% 2021. Vorið 2021 var síðan spurt sérstaklega um kosti og ókosti fjarnáms. Einmanaleiki, minni samvinna stúdenta og að hitta ekki kennara voru þeir ókostir sem helst voru nefndir en kostirnir voru að hafa aðgang að upptökum af fyrirlestrum, að hægt væri að stunda námið heima, heimapróf og tímasparnaður. Samkvæmt svörum við opnum spurningum má búast má við að stúdentar þrýsti á að áfram verði meiri sveigjanleiki í námsfyrirkomulagi og ýmsar rafrænar lausnir verði notaðar áfram.

 

 

Ólík reynsla fjarnema og staðnema við Menntavísindasvið HÍ af breytingum á kennsluháttum vegna COVID-19

Þuríður Jóna Jóhannsdóttir, prófessor, MVS HÍ og Amalía Björnsdóttir, prófessor, MVS HÍ

Í lok haustmisseris 2020 var lögð spurningakönnun fyrir alla nema á Menntavísindasviði til að kanna áhrif COVID-19 farsóttarinnar á nám stúdenta og reynslu þeirra og viðhorf til breyttra kennsluhátta sem teknir voru upp þegar byggingum skólans var lokað. Rannsóknin er byggð á gögnum úr þeirri könnun og spurt: Hvernig höfðu breyttir kennsluhættir vegna COVID-19 ólík áhrif á fjarnema og staðnema á Menntavísindasviði? Vorið 2020 var öll kennsla færð á netið og allir stúdentar settir í fjarnám. Það fyrirkomulag hélt áfram að mestu skólaárið 2020–2021. Fyrir meirihluta stúdenta sem stunda námið í staðnámi var þetta róttæk breyting. Menntavísindasvið hefur þó haft þá sérstöðu að margar námsleiðir er hægt að taka í fjarnámi og um helmingur nema hefur valið það námsform. Ætla mætti að fyrir fjarnema hafi breytingar á kennsluháttum verið litlar sem engar þegar kennslan var flutt á netið. Nýjungar í tækni sem voru teknar upp við þær neyðaraðstæður sem sköpuðust sem breyttu þó skipulagi fjarnámsins nokkuð frá því sem verið hafði. NIðurstöður sýna að fjarnemar og staðnemar eru ólíkir hópar; fjarnemar oftast eldri, fjölskyldufólk, í nánast fullri vinnu með námi en staðnemar eru líklegri til að vera ungt fólk. Ólíkar aðstæður skipta máli um hvernig farsóttin hafði áhrif á nám stúdenta t.d. hafði 40% staðnema meiri tíma til að sinna náminu en 18% fjarnema. 13% staðnema fannst námið hafa verið betra þegar það var flutt í fjarnám en 70% verra á meðan, en 36% fjarnema fannst það betra og 30% fannst það verra.