Námsmat

Kl. 8:30-10:00

NNN Rannsóknarstofa

Margrét S. Björnsdóttir

Námsmat á Íslandi, tvö samtvinnuð sjónarmið: Sjónarmið mannbóta og skilvindusjónarmið

Meyvant Þórólfsson, prófessor, MVS HÍ

Námsmat gegnir lykilhlutverki í öllum skólakerfum við að greina námsstöðu, að fylgjast með námsgengi í daglegu skólastarfi og að votta um árangur þegar námsferli lýkur. Námsmat getur með öðrum orðum haft mismunandi tilgang. Athyglin hefur þó fyrst og fremst beinst að tvenns konar tilgangi, leiðsagnarmati annars vegar og lokamati hins vegar, tengslum þar á milli og hvernig þetta tvennt styður hvort annað. Strangt til tekið hefur hið stóra markmið skólakerfisins með námsmati alltaf verið að meta mismunandi hæfni og verðleika til að spá fyrir um áframhaldandi nám og um leið að hlúa að mismunandi hæfileikum, fremur en að leita að því hvað nemendur skortir eða hvað þeir kunna ekki. Námsmat hefur með öðrum orðum haft þann megintilgang að upplýsa og styðja við nám (sbr. e. assessment to assist learning) og leita þannig svara við því hvaða skref væri heppilegast að taka næst, burt séð frá því hvort það hafi farið fram við lok námsáfanga eða í miðju ferli á meðan tiltekinn námsáfangi stóð yfir. Hins vegar hefur umræðan um námsmatið og framkvæmdin þar af leiðandi stundum tekið óheppilega stefnu. Í erindinu er reynt að varpa ljósi á einkenni þessa samtvinnaða kerfis þau 140 ár sem það hefur verið við lýði á Íslandi, þar sem mæst hafa sjónarmið mannbóta annars vegar og skilvindusjónarmið hins vegar.

 

Hæfniviðmið á yngsta stigi grunnskóla – hvert erum við komin í dag?

Sigrún Birna Sigurðardóttir, grunnskólakennari, Hólabrekkuskóla og Margrét S. Björnsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ

Í þessari rannsókn voru grunnskólakennarar og verkefnisstjórar á yngsta stigi spurðir hvernig þeir mátu nám, námsframvindu og námsárangur með hliðsjón af hæfniviðmiðum núgildandi aðalnámskrár. Túlka má ákvæði aðalnámskrár svo að skólar hafi nokkuð frjálsar hendur í þessum efnum. Árið 2019 bættust við aðalnámskrána leiðbeinandi matsviðmið til að styðjast við þegar nemendur luku 4. og 7. bekk. Áhugavert þótti því að skoða hvernig kennarar skildu og túlkuðu þessi ákvæði, hvort farið væri eftir matsviðmiðum aðalnámskrár eða hvort kennarar yngsta stigs útfærðu eigið mat við lok 4. bekkjar. Tekin voru hálfopin viðtöl við átta starfandi kennara á yngsta stigi og tvo stjórnendur í einum grunnskóla. Notast var bæði við snjóbolta- og markmiðsúrtak, þ.e. að viðmælendur voru beðnir um að benda á kennara sem gætu svarað spurningum rannsakanda og jafnframt var lögð áhersla á að viðmælendur kenndu á yngsta stigi grunnskóla eða kæmu að skipulagi námsmats á stiginu. Niðurstöður leiddu í ljós að mikið álag virðist hvíla á kennurum þegar kemur að námsmati með hliðsjón af hæfniviðmiðum. Skólarnir hafa lagt mikla vinnu í að móta matskerfið í samræmi við ákvæði námskrárinnar og niðurstöður gefa til kynna að áherslur skólanna hafi verið ólíkar með tilliti til framsetningar hæfniviðmiða, úthlutunar þeirra milli árganga og matsaðferða. Út frá niðurstöðum má sjá að frekari áherslu þarf að leggja á innleiðingu matsviðmiða ef þau eiga að virka sem skyldi. Nokkrir viðmælenda virtust ekki hafa kynnt sér þau að ráði og vissu jafnvel ekki af þeim.

 

Leiðbeinandi matskerfi á yngsta stigi grunnskóla byggt á hæfni- og matsviðmiðum

Hrefna Rún Guðbjörnsdóttir, grunnskólakennari, Árbæjarskóla og Meyvant Þórólfsson, prófessor, MVS HÍ

Núgildandi aðalnámskrá tók gildi í endanlegri gerð árið 2013. Kynnt voru til sögunnar hæfniviðmið í stað markmiða í fyrri námskrám, sem eiga að endurspegla inntak náms og aðferðir, og tengjast svo matsviðmiðum sem gefa eiga til kynna að hvaða marki hæfniviðmið hafi náðst. Fyrst komu einungis út matsviðmið fyrir lok 10. bekkjar en haustið 2019 bættust við leiðbeinandi matsviðmið fyrir önnur stig, sem kennurum var frjálst hvernig skyldi túlka og útfæra. Í þessari rannsókn var reynt að varpa ljósi á námsmat á yngsta stigi grunnskóla, þ.e. hvernig unnið væri með hæfniviðmið og matsviðmið, jafnt undir merkjum leiðsagnarmats og lokamats. Einnig var reynt að fá innsýn í skoðanir viðmælenda á núgildandi matskerfi og innleiðingu þess. Rætt var við stjórnendur og kennara í sjö grunnskólum á Íslandi þar sem notast var við snjóbolta- og markmiðsúrtak við val á viðmælendum. Niðurstöður benda til þess að sátt ríki um hugmyndafræðina sem liggur að baki (áhersla á víðtæka hæfni og mat á henni), en innleiðingin og útfærslan virðast hafa vafist fyrir flestum sem áttu í hlut. Niðurstöður gefa til kynna að skólar hafi ráðist í mikla undirbúningsvinnu við að mæta þessum breyttu hugmyndum, hver í sínu horni, en við það virðist hefur myndast ósamræmi milli skóla sem hlýtur að vekja spurningar um réttmæti og áreiðanleika. Skilningur viðmælenda á leiðbeinandi matsviðmiðum var misjafn og enginn þeirra virtist hafa nýtt sér þau á yngsta stigi með þeim hætti sem aðalnámskrá grunnskóla kveður á um.

 

Að meta víðtæka hæfni huglægt og hlutlægt með fjölbreyttum aðferðum: Mikilvægar hugmyndir en betur má ef duga skal

Linda Heiðarsdóttir, aðstoðarskólastjóri, Réttarholtsskóla   

Drjúgur tími hefur gefist til að innleiða ákvæði núgildandi aðalnámskrár fyrir grunnskóla. Þó bendir margt til þess að óvissa ríki enn um innleiðingu tiltekinna þátta hennar, einkum það kerfi námsmats sem þar var kynnt til sögunnar með tilheyrandi hæfniviðmiðum og matsviðmiðum og samspili þar á milli. Haustið 2020 birtist skýrsla Mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Mat á innleiðingu aðalnámskrár grunnskóla: Niðurstöður kannana og aðgerðir til úrbóta. Safnað var víðtækum gögnum er byggðu bæði á rýnihópaviðtölum og spurningakönnun og gáfu niðurstöður mikilvægar upplýsingar um stöðuna sjö árum eftir endanlega gildistöku námskrárinnar. Enn virðist ríkja óöryggi og óvissa um framkvæmdina meðal allra hagsmunaaðila og kallað er eftir markvissari faglegum stuðningi við innleiðinguna en raun hefur verið. Margir reynast ráðþrota þegar kemur að samspili hæfniviðmiða og matsviðmiða og nefna að viðmiðin séu of „flókin, loðin, óraunsæ og illmælanleg“. Djúpstæður misskilningur virðist ríkja um framkvæmd námsmats í þessu tilliti og þar af leiðandi hefur orðið ósamræmi í mati milli skóla, milli námsgreina og jafnvel innan sama skóla, sem hlýtur að vekja spurningar um áreiðanleika og réttmæti. Höfundur þessa erindis tók þátt í gagnaöflun og gerð framangreindrar skýrslu ráðuneytisins og hefur jafnframt átt drjúgan þátt í umræðu um þróun námsmats, jafnt meðal fagfólks og einnig á opinberum vettvangi. Í erindinu fjallar höfundur um núverandi stöðu og framtíðarsýn.