Framtíð náms ─ Ný tækni, tækifæri og áskoranir

 

RANNUM: Rannsóknarstofa í upplýsingatækni og miðlun

Tryggvi B. Thayer

Frumkvöðlamennt: Teikn og stefnur eftir COVID-19

Tryggvi B. Thayer, kennsluþróunarstjóri, MVS HÍ

Vegna samkomutakmarkana í COVID-19 faraldrinum þurftu kennarar um alla Evrópu skyndilega að taka upp nýja kennsluhætti í lítt kunnugu stafrænu kennsluumhverfi. Þótt áskoranirnar væru töluverðar fyrir alla kennara, reyndi sérstaklega á kennslu sem byggir á verklegu og reynslumiðuðu námi, þar á meðal frumkvöðlamennt (e. entrepreneurial education). Var í mörgum tilvikum dregið verulega úr frumkvöðlamennt þrátt fyrir umtalsverðar framfarir síðustu áratuga í innleiðingu hennar í skólastarf. Digital Firefly er Erasmus+ verkefni sem er ætlað að varpa ljósi á stöðu frumkvöðlamenntar í framhaldsnámi og iðn-/starfsnámi í kjölfar COVID-19 faraldursins og hjálpa kennurum að aðlagast nýjum aðstæðum. Í erindinu verða kynntar niðurstöður úr fyrsta hluta verkefnisins sem lýtur að því að kanna hvernig kennarar sem kenna frumkvöðlamennt brugðust við samkomutakmörkunum vegna COVID-19 faraldursins. Kynnt verður heimildarýni sem varpar ljósi á þróun frumkvöðlamenntar og hvernig upplýsingatækni hefur verið nýtt til að styðja við hana og móta í takt við breytilegar aðstæður. Einnig verður fjallað um nýjustu rannsóknir um reynslu af frumkvöðlamennt í COVID-19 og helstu viðfangsefni fræðasamfélags í ljósi þeirra.

 

Netkennsla og stafræn tækni í grunnskólum á tímum farsóttar vorið 2020: Sýn kennara

Sólveig Jakobsdóttir, prófessor, MVS HÍ; Salvör Gissurardóttir, lektor, MVS HÍ; Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ; Svava Pétursdóttir, lektor, MVS HÍ og Torfi Hjartarson, lektor, MVS HÍ

Menntavísindastofnun HÍ stóð fyrir viðamikilli könnun vorið 2020 meðal starfsfólks í skólum til að skoða áhrif COVID-19 faraldursins á menntun og skólastarf. Hér er fjallað um niðurstöður sem tengjast stafrænni tækni og netnámi og byggja á svörum 1550 starfsmanna sem kenndu á unglingastigi (372), miðstigi (325), yngsta stigi (466) eða á fleiri en einu stigi (387). Í ljós kom að meirihluti svarenda taldi skólana vel búna stafrænum verkfærum og starfsliðið vel undir það búið að takast á við aukin tölvusamskipti, blandaða kennslu og netkennslu þó að margir væru þeirrar skoðunar, ekki síst í hópi kennara á yngri stigum, að efla þyrfti búnað og kunnáttu. Þá taldi þorri kennara á unglingastigi að aðgengi nemenda að tækni heima dygði vel til samskipta og netnáms í faraldrinum en á yngri stigum gætti skýrt þeirra sjónarmiða að aðgengi að búnaði hefði skort á mörgum heimilum. Niðurstöður endurspegla miklar breytingar á kennsluháttum og nýtingu stafrænnar tækni meðan á faraldrinum stóð. Mikil aukning varð á blönduðu námi og netnámi á unglingastigi, töluverð á miðstigi og merkjanlegar breytingar allt niður á yngsta stig. Þá hafði faraldurinn bæði letjandi og hvetjandi áhrif á skapandi starf með hjálp stafrænnar tækni. Meirihluti svarenda taldi að COVID-faraldurinn myndi breyta kennsluháttum í skólum þeirra til frambúðar. Mikilvægt þótti að búa kennara undir aukna netkennslu og umtalsverður áhugi er á að sækja einingabært nám um hagnýtar leiðir í notkun tækni í námi og kennslu. Aðstæður kennara, kunnátta og færni eru með ýmsu móti og efla þarf greiningu á stöðu stafrænnar tækni í grunnskólum.

 

Stafræn hæfni: Gagnsemi sjálfsmatsverkfæra og leiðarlykla í skólaþróun

Svava Pétursdóttir, lektor, MVS HÍ; Sólveig Jakobsdóttir, prófessor, MVS HÍ og Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri/kennsluráðgjafi í upplýsingatækni við Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar

Stafræn tækni skiptir sífellt meira máli í skólaþróun þar sem hún getur auðgað menntun og veitt nemendum fjölbreytt tækifæri til sköpunar og tjáningar. Mikilvægt er fyrir skóla að meta stöðu sína varðandi stafræna hæfni út frá alþjóðlegum viðmiðum. Á undanförnum misserum hafa aðilar frá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og Menntavísindasviði Háskóla Íslands tekið höndum saman um að þýða og prófa evrópska sjálfsmatsverkfærið SELFIE sem er leiðarlykill í skólaþróun á sviði upplýsingatækni. Skólar geta skráð sig á vef Evrópusambandsins (https://ec.europa.eu/education/schools-go-digital_en) og lagt fyrir endurteknar kannanir meðal stjórnenda, kennara og nemenda um stöðu varðandi stjórnun, tæknilega innviði, starfsþróun, stafræna hæfni og nýtingu stafrænnar tækni í námi og kennslu. Þátttakendur geta valið um fjölmörg tungumál og kerfið býr sjálfkrafa til skýrslur þegar könnunum er lokið. Fyrsta útgáfa af íslensku þýðingunni var sett inn á SELFIE-vefinn og prófuð í desember í tveimur grunnskólum. Á haustmisseri 2020 hélt þróunarvinnan áfram. Verkfærið var prófað í nokkrum skólum. Vorið 2021 var unnið að grunnþýðingu á umhverfi gagnagrunnsins og var fyrsta þýðing sett inn í maí. Jafnframt hefur verið unnið að því að endurbæta þýðingar á spurningalistunum. Verkfærið var nýtt á höfuðborgarsvæðinu í fjölmörgum grunnskólum vorið 2021 og hefur það verið talið gagnlegt í viðkomandi skólum til að meta stöðu stafrænnar hæfni í skólunum. Í erindinu verður fjallað um þetta þróunarverkefni og hvernig það getur stutt skóla í skólaþróun þar sem stafræn tækni kemur við sögu.