Stafræn borgaravitund

Kl. 13:40-15:10

RANNUM: Rannsóknarstofa í upplýsingatækni og miðlun

Sólveig Jakobsdóttir

 

Nýjustu rannsóknir SAFT í stafrænni borgaravitund

Arnar Ævarsson framkvæmdastjóri, Heimili og skóla (SAFT), Sigurður Sigurðsson, verkefnastjóri, Heimili og skóla (SAFT)

Á undanförnum mánuðum hefur SAFT ásamt ýmsum samstarfsaðilum framkvæmt rannsóknir á ýmsum þáttum er varða stafræna borgarvitund hjá foreldrum og börnum. Kannanir hafa verið lagðar fyrir foreldra og börn með það að markmiði að fá dýpri yfirsýn yfir stöðuna þ.e. hvar liggja tækifærin og hvar liggur raunverulega þörfin er kemur að fræðslu fyrir bæði foreldra og börn um stafræna borgarvitund, hvernig við getum eflt foreldra í sínu hlutverki, hvaða verkfæri þurfa þau og vilja fá samkvæmt niðurstöðunum, hvaða fræðsla er æskilegt að börn fái samkvæmt niðurstöðum og hvað segja þau í raun og veru er varðar ósk um fræðslu? Þessu tengt þá er markmiðið að niðurstöður þessara rannsókna leiði af sér markvissari og ígrundaðri nálgun við gerð fræðsluefnis og skipulag fyrir foreldra og börn. Að leitast verði við að sú vinna fari fram í samvinnu við fagfólk t.d. kennara og aðra þá sem koma að málaflokknum stafrænni borgarvitund.

 

Netbær: Ný námsbók fyrir miðstig um stafræna borgaravitund

Sigurður Sigurðsson, verkefnastjóri, Heimili og skóla (SAFT)

Í þessu erindi verður ný námsbók kynnt sem sérfræðingar Evrópuráðsins hönnuðu í samstarfi við unglinga á aldrinum 12–16 ára, meðal annars frá Íslandi. Árið 2019 komu unglingarnir saman í Aþenu, Grikklandi til að vinna að efni til að efla stafræna borgaravitund ungmenna. Ungmennin réðu á hvaða formi fræðsluefnið yrði en þau völdu að búa til verkefnabók fyrir börn á aldrinum 9–12 ára. Útlit bókarinnar og öll verkefni í bókinni voru hönnuð af unglingunum undir handleiðslu sérfræðinga sem byggðu kaflaskiptingu bókarinnar á ramma Evrópuráðsins um starfræna borgaravitund.

Bókin fjallar um heimsókn nemenda til Netbæjar þar sem þau fræðast um stafræna borgaravitund með því að vinna verkefni, leysa þrautir og læra af aðstæðum sem sögupersónur glíma við. Bókin kom út á ensku í fyrra en nú hefur hún verið þýdd yfir á íslensku og kemur út á næstu mánuðum hér á landi.

 

Stafræn borgaravitund: Íslenskað námsefni frá Common Sense Education

Sæmundur Helgason, upplýsinga- og tölvukennari, Grunnskóla Hornafjarðar og Sólveig Jakobsdóttir, prófessor, MVS HÍ

Erindið er um starfendarannsókn þar sem nýlegt námsefni frá Common Sense Education (CSE) var þýtt á íslensku og prófað með nemendum (10 stúlkum og 11 drengjum) í 6. bekk í landsbyggðarskóla. Skoðað var hvort námsefni CSE henti íslenskum nemendum til að efla stafræna borgaravitund þeirra og hjálpa þeim að verða betri netborgarar. Námsefnið samanstendur af kennslustundum þar sem nemendur fá tækifæri að taka þátt í umræðu og fjölbreyttri verkefnavinnu sem tengist eigin upplifun á notkun netsins í daglegu lífi, í skóla og heima fyrir. Hugtakið stafræn borgaravitund (e. digital citizenship) er leiðarstef í verkefninu og hvernig efla má vitund nemenda um jákvæð samskipti á netinu og síaukna netnotkun í samtímanum. Í erindinu er fjallað um reynslu kennara og nemenda af efninu. Nemendur tóku þátt í forkönnun, sex kennslustundum frá CSE og lokakönnun og einnig var tekið eitt viðtal við fjóra nemendur. Niðurstöður benda til þess að námsefni Common Sense Education geti eflt stafræna borgaravitund nemenda. Rannsóknin sýndi að námsefnið hentaði til að stýra umræðu um helstu hugtök og þætti sem tengjast stafrænni borgaravitund. Það skiptir miklu máli fyrir alla nemendur að allt námsefnið sé á íslensku, en fjögur stutt myndbönd voru á ensku og ekki þýdd. Námsefni Common Sense Education hentar prýðilega til þess að hjálpa nemendum betur að temja sér heilbrigða umgengni um netið og notkun stafrænna miðla. Til þess að námsefnið nái til allra nemenda verður þó að kosta til framleiðslu og staðfæringar á efninu á íslensku. Vanda verður til þýðingar á öllu efninu á íslensku.