Málþroski, læsi og fjöltyngi

Kl. 8:30-10:00

Fræðslu- og rannsóknarstofa um þroska, læsi og líðan barna og ungmenna

Sigríður Ólafsdóttir

Af einu orði fæðast fleiri: Áhrif markvissrar íhlutunar á íslenskan orðaforða tvítyngds leikskólabarns

Elín Freyja Eggertsdóttir, meistaranemi, MVS, HÍ; Sigríður Ólafsdóttir, lektor, MVS HÍ; Þóra Sæunn Úlfsdóttir, talmeinafræðingur og ráðgjafi hjá Miðju máls og læsis

Meistaraprófsritgerðin fjallar um íhlutun með fjögurra ára leikskólabarni, sem notar pólsku með fjölskyldu sinni og íslensku í leikskólanum, en meginmarkmið var að auka íslenskan orðaforða þess. Íhlutunin fór fram á tímabilinu september til desember 2020, tvisvar í viku í sjö vikur. Íslensk markorð voru þjálfuð með ýmsum hætti og íslensk samanburðarorð komu fram samhliða án sérstakrar þjálfunar. Íslenskur og pólskur orðaforði barnsins var metinn í upphafi og í lokin, auk þess sem íslenskur orðaforði var metinn meðan á rannsókninni stóð. Notuð voru íslenska orðaforðaprófið PPTV-4 og pólska orðaforðaprófið OTSR. Í upphafi var íslenskur orðaforði barnsins mun minni en hjá íslenskum jafnöldrum en pólskur orðaforði var í lágu meðallagi miðað við pólska jafnaldra. Íslenskur orðaforði barnsins jókst um 52,9% frá fyrstu mælingu til þeirrar síðustu samanborið við 25,0% orðaforðaaukningu að meðaltali hjá íslenskum jafnöldrum á sama tímabili. Barnið lærði öll markorðin sex og fimm af sex samanburðarorðunum. Í niðurstöðum pólska orðaforðaprófsins kom fram nokkur aukning milli prófa, en það var áfram í lágu meðallagi í samanburði við jafnaldra. Þessar niðurstöður gefa ástæðu til að ætla að markviss vinna með íslenskan orðaforða geti skilað árangri hjá börnum sem eiga annað móðurmál en íslensku, og ekki aðeins þau orð sem unnið er markvisst með, heldur geti önnur orð bæst samhliða með í safnið. Sérstaklega mikilvægt er að nýta vel þann tíma sem börn, sem ekki nota íslensku með fjölskyldu sinni, dvelja í íslensku málumhverfi.

 

Málleg samskipti í leikskóla: Samræður starfsmanna leikskóla við börn sem hafa íslensku sem annað mál

Sigríður Ólafsdóttir, lektor, MVS HÍ og Ástrós Þóra Valsdóttir, meistaranemi, MVS HÍ

Í rannsókninni voru skoðuð málleg samskipti starfsmanna við leikskólabörn með íslensku sem annað tungumál (ísl2-börn). Fyrir börn sem nota ekki íslensku heima er þýðingarmikið að nýta árin í leikskólanum vel. Þar gefast hugsanlega einu tækifæri barnanna til að efla stöðugt íslenskufærni sína. Meginmarkmið rannsóknarinnar voru að skoða samræður kennara og annarra starfsmanna við ísl2 leikskólabörn og bera saman við samræður þeirra við börn með íslensku sem móðurmál (ísl1). Þátttakendur rannsóknarinnar voru átta starfsmenn og fjögur ísl2-leikskólabörn ásamt 21 ísl1-barni. Myndbandsupptökur voru notaðar og samtölin skráð orðrétt. Kannaður var fjöldi orða á mínútu, fjöldi mismunandi orða og meðaltíðni orða sem notuð voru í samræðunum. Að sama skapi voru skoðuð sérstaklega tilgangur og eðli samræðnanna, hvort þær voru a) bein orðræða, b) að gefa upplýsingar, hrósa eða útskýra, c) orðainnlögn og endurtekningar orða, d) lokaðar spurningar eða e) opnar spurningar sem fóru fram í gagnkvæmum tjáskiptum á milli kennara og barna. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að ísl2-börnin fengu færri orð á mínútu og orðin voru að meðaltali algengari en orðin sem ísl1-börnin fengu. Þá fengu ísl2-börnin í meiri mæli beina orðræðu á meðan ísl1-börnin fengu meira af orðainnlögnum og opnum spurningum. Þessar niðurstöður eru áhyggjuefni í ljósi þess að rannsóknir sýna mikilvægi þess að starfsfólk leikskóla sæki í samræður við börn, leggi inn ný orð og beini til þeirra opnum spurningum sem hvetja þau til að tjá sig. Á þann hátt er þeim gert kleift að taka stöðugum framförum í málfærni sinni.

 

Upplifun og viðhorf leikskólastarfsmanna til samstarfsverkefnisins Læsi – allra mál

Guðbjörg Oddsdóttir, meistaranemi, MVS HÍ; Sigríður Ólafsdóttir, lektor, MVS HÍ og Þóra Sæunn Úlfsdóttir, talmeinafræðingur og ráðgjafi hjá Miðju máls og læsis

Í upphafi árs 2015 skrifuðu tíu leikskólar og fimm grunnskólar í Breiðholti undir samstarfsyfirlýsingu sem fól í sér stofnun verkefnis um málþroska og læsi barna í hverfinu og fékk verkefnið heitið Læsi – allra mál (LÆM.) Í þessari rannsókn var rýnt í leikskólahluta LÆM. Sett markmið voru að fá upplýsingar um viðhorf og upplifun starfsmanna til þess hvað LÆM hefur gert fyrir þekkingu þeirra á máli og læsi ungra barna, hvernig LÆM hefur nýst þeim í starfi og hvað markmið og leiðir LÆM hafa gert fyrir starfsemi leikskólanna á síðastliðnum fimm árum. Notast var við megindlega rannsóknaraðferð og var spurningalisti sendur á 80 starfsmenn þátttökuleikskóla. Alls bárust 39 svör og var svarhlutfall 49%. Niðurstöður sýndu að 81% þátttakenda töldu LÆM auka áhuga starfsmanna á máli og læsi og 87% töldu að fræðsla um mál og læsi væri meiri en áður. Þá voru 95% sammála um að markviss íhlutun með málþroska og læsi hefði aukist og allir þátttakendur voru sammála um að regluleg skimun veitti betri yfirsýn yfir málþroska og læsi barna. Þó mátti þekkingarflæði milli skóla og skólastiga vera meira. Auk þess kom í ljós að þátttakendur kölluðu eftir auknu samstarfi við ráðgjafa Þjónustumiðstöðvar Breiðholts þar sem aðeins ríflega helmingur, eða 54%, töldu að samstarf við ráðgjafa hefði aukist. Aftur á móti töldu 86% þátttakenda samstarf við ráðgjafa Þjónustumiðstöðvar mikilvægt við örvun máls og læsis. Heildarniðurstöður sýna að LÆM hafi aukið faglega starfsþekkingu og gert starf leikskólanna enn betra við örvun máls og læsis.

 

Einhverfan og enskan

María Rós Arngrímsdóttir, meistaranemi í talmeinafræði, HÍ og Jóhanna Thelma Einarsdóttir, dósent, HVS og MVS HÍ

Einhverf börn eiga oft í erfiðleikum með að tileinka sér mál og málnotkun. Margir foreldrar og fagaðilar á Íslandi telja að börn með einhverfurófsröskun kjósi frekar að tala ensku en íslensku þó að þau hafi ekki fengið formlega kennslu í ensku. Markmið rannsóknarinnar var að skoða málfærni barna sem greind eru með einhverfu á ensku og íslensku og þar sem íslenska er töluð á heimilum barnanna. Þátttakendur voru 10 einstaklingar á aldrinum 8;8 til 13;0 ára sem höfðu verið greind með einhverfu. Lögð voru fyrir börnin stöðluð próf (PPVT-4 og TOLD-2P undirprófin Túlkun setninga og Endurtekning setninga) og börnin beðin um að segja frá myndasögu (Froskur hvar ertu?). Skoðuð var færni barnanna bæði á íslensku og á ensku. Niðurstöður úr fyrirlögn staðlaðra prófa sýndu meðalsterka til mjög sterka (0,8) fylgni milli færni í íslensku og ensku á flestum þáttum sem voru athugaðir. Niðurstöður sýndu einnig meðal til sterka fylgni milli færni í íslensku og ensku úr mælieiningum málsýna (0,7–0,8) fyrir heildarfjölda orða og fjölda mismunandi orða. Ekki fannst marktækur munur á færni barnanna á ensku og íslensku en mikil dreifni var í gögnunum. Niðurstöðurnar benda til að færni barnanna í ensku og íslensku haldist nokkuð í hendur og ekkert bendir til að börn sem greind eru með einhverfu hafi almennt meiri og betri færni í ensku en íslensku. Mikilvægt er að efla almenna málfærni þessara einstaklinga jafnt á íslensku og ensku.

 

Málþroski ungra barna (25–32 mánaða)

Aðalbjörg Gunnarsdóttir, meistaranemi, MVS HÍ; Jóhanna Thelma Einarsdóttir, dósent, HVS og MVS HÍ og Sigríður Ólafsdóttir, lektor, MVS HÍ

Meginmarkmið rannsóknarinnar voru að skoða breytileika í málþroska ungra barna og nokkra þætti sem kunna að hafa áhrif á málþroska þeirra. Þátttakendur í rannsókninni voru 20 börn á aldursbilinu 25 til 32 mánaða, tíu drengir og tíu stúlkur. Rannsóknin beindist að því að kanna einstaklingsmun í sjálfsprottnu tali og tengsl á milli málsýna og málþroskaprófsins Orðaskil. Einnig var skoðað hvort væri munur á færni í máltjáningu eftir kynjum og aldri. Rannsakandi tók málsýni af sjálfsprottnu tali hjá 20 börnum í leik og kannaði fyrir hvert barn meðallengd segða, heildarfjölda orða, fjölda mismunandi orða og hlutfall málfræðivillna. Foreldrar voru beðnir að fylla út málþroskaprófið Orðaskil og svara spurningalista um hversu oft lesið væri fyrir barnið og hvort og hve mikinn aðgang það hefði að snjalltækjum. Helstu niðurstöður voru þær að mikill breytileiki einkenndi málþroska barnanna og kom það fram bæði með málsýnunum og einnig að mati foreldra með Orðaskilum. Niðurstöður málsýna og Orðaskila sýna fram á að börn á sama aldri geta verið með mjög ólíkan orðaforða og að dæmi séu um að stúlkur séu komnar lengra í orðaforða en drengir á svipuðum aldri. Mjög misjafnt var hve oft var lesið fyrir börnin, ýmist 3–4 sinnum í viku eða daglega. Helmingur barnanna hafði engan aðgang að spjaldtölvu, flest höfðu lítinn og mjög fá daglegan aðgang. Mun færri stúlkur höfðu aðgang að spjaldtölvu en drengir.