Viðhorf, aðferðir og kennsluefni: Hlutverk kennara í siðferðilegri menntun

Elsa Haraldsdóttir

Rannsóknarstofa í mannkostamenntun

Forsendur siðfræðimenntunar

Elsa Haraldsdóttir, doktorsnemi, HUG HÍ

Í erindinu er gerð grein fyrir hvernig Upplýsingin og skynsemishyggjan sem hún tilheyrði stuðlaði að upphafningu rökvísinnar, hins hlutlæga og „auð“mælanlega, á kostnað þess órökvísa, huglæga og „ómælanlega“. Aðgreining vísinda í raun- og hugvísindi (og síðar félagsvísindi) er ein birtingarmynd þessara viðhorfa en vísindin og háskólasamfélagið mótar síðan og hefur áhrif á samfélagsleg viðhorf, gildi og viðmið. Þau samfélagslegu gildi og viðmið sem ríkja í samfélaginu hverju sinni hafa óhjákvæmilega áhrif á viðhorf til hlutverks og markmiðs siðfræðimenntunar, ekki síður en menntunar almennt. Markmið erindisins er þannig að gera grein fyrir hvernig siðfræðimenntun er óhjákvæmilega hug- og félagsvísindaleg, og á þeim forsendum bundin sömu áskorunum þegar kemur að stöðu þeirra í og fyrir samfélagið. Það er ályktun höfundar að siðfræðimenntun sé best skilgreind sem samofin hvers konar menntun í hug- og félagsvísindum í formi heimspekilegrar samræðu og ígrundunar um efni hennar. En til að siðfræðimenntun fái það pláss og þá stöðu sem henni er ætlað, samkvæmt núverandi Aðalnámskrá, þarf til aukinn skilning á forsendum þeirra viðhorfa sem vinna gegn henni eða telja hana ekki eiga erindi í menntun almennt. Höfundur er doktorsnemi í heimspeki við Háskóla Íslands, leiðbeinandi er próf. Ólafur Páll Jónsson. Erindið byggir á doktorsrannsókn viðkomandi en meginaðferðafræði rannsóknarinnar er fræðileg greining á ólíkum kenningum innan hug- og félagsvísinda um menntun, siðferði og mennskuna, ásamt eigindlegum og megindlegum rannsóknum á heimspekimenntun.

Vöxtur í gegnum tungumál sem menntatæki hugans

Kristian Guttesen, sjálfstætt starfandi rannsakandi í menntavísindum

Markmið þessa fyrirlestrar er að kanna líkindin á milli viðhorfa til og nálgunar Wittgensteins og Dewey á menntun, sem framlag til heimspeki menntunar. Þetta verður gert í gegnum þrjú undirmarkmið. Í fyrsta lagi er ætlunin að rannsaka hugtakið menntun. Þetta markmið fjallar almennt um menntahugtakið og leggur grunninn að fyrirlestrinum. Annað undirmarkmiðið felst í að skilgreina tungumál náms og hlutverk þess í upplifun nemenda af menntun. Þetta markmið rannsakar hugmyndir Wittgensteins um tungumál og það hvernig Dewey fjallar um reynslu. Slíkt er mikilvægt vegna þess að innan menntamála hefur tiltölulega lítið verið talað um tungumál náms. Þriðja undirmarkmiðið er að taka saman niðurstöður fyrri markmiða til að byggja upp kenningu um aðgerðar-/atferlishæfni í menntun. Þetta markmið byggir á hugmyndum Wittgensteins um leiðir til að lifa og pragmatisma Dewey. Þó að gagnrýni þeirra á þekkingu sé svipuð, ætti þetta markmið að fela í sér höfnun þeirra á sýn áhorfandans á þekkingu, að hætti Quine, og einnig að leiða í ljós heildstætt kerfi eða nálgun fyrir útfærslu menntunar sem byggir á tungumáli náms og (innri og ytri) reynslu af menntun.

Mannkostamenntun í myndmenntastofunni: Hlutverk kennarans andspænis áskorunum og sóknarfærum

Ingimar Ólafsson Waage, lektor, LHÍ

Í erindinu verður kynnt rannsóknargrein sem er þriðji hluti af doktorsrannsókn höfundar sem byggð er á blandaðri aðferð. Sagt verður frá niðurstöðum rýnihópaviðtala við nemendur og kennara sem tóku þátt í íhlutunarverkefni sem byggði á hugmyndafræði Aristótelískrar mannkostamenntunar og hlutverki myndlistarkennslu í því samhengi. Íhlutunin fólst í því að vinna með nemendahópum í myndmennt að skapandi verkefnum á grundvelli hugmynda þeirra um dygðir. Samhliða skapandi vinnu tóku nemendur þátt í heimspekilegum samræðum um valin listaverk. Áður en íhlutunin fór fram og eftir að henni lauk voru lögð fyrir sérhönnuð próf til að meta framfarir nemenda hvað snertir orðaforða og færni í greiningu og tjáningu um listaverk sem talin eru hafa siðferðilegt inntak. Nákvæmt mat á greiningarprófunum sýndi ekki óyggjandi fram á að nemendur hefðu tekið framförum við íhlutunina. Að íhlutun lokinni voru tekin rýnihópaviðtöl við nemendur og kennara sem voru afrituð orðrétt og þemagreind. Viðtölin drógu fram mikilvæg atriði sem hafa þarf í huga þegar lagt er upp með íhlutun af þessu tagi. Þrátt fyrir að kennurum og nemendum almennt hafi líkað vel að taka þátt í íhlutuninni, þá kom í ljós að margvíslegir þættir, bæði innlægir og utanaðkomandi, geta haft talsverð áhrif. Þar má nefna félagslega þætti, áhugasvið nemenda, innri áhugahvöt, vilja nemenda til að vinna skólaverkefni og hópdýnamík – ekki síst með hliðsjón af kyni, aldri og árgangi. Þær ályktanir má draga að mikilvægt er að kennarar og rannsakendur hafi í huga merkingarbærni verkefna, að horft sé í auknum mæli til lýðræðislegrar nálgunar og hlutur neðansækinna vinnubragða verði aukinn.

Íslendingasögurnar — frá sál til sálar

Þóra Björg Sigurðardóttir, doktorsnemi, MVS HÍ. Leiðbeinendur: Ólafur Páll Jónsson og Atli Harðarson

Erindið byggir á rannsókn um siðferðilegt uppeldi í skólum þar sem blönduðum aðferðum í heimspeki, bókmenntum og hugtaka- og orðaforðakennslu var beitt við lestur á Gísla sögu Súrssonar. Íslendingasögurnar hafa verið kenndar í grunnskólum landsins um árabil. Öðru hverju heyrast raddir um að þær séu fornar og tyrfnar fyrir unglinga og það eigi að hætta að kenna þær. Ein mótbáran er sú að tvítyngd börn og börn af erlendum uppruna tengi illa við sögurnar og veruleika þeirra. Að auki séu ýmis börn með málþroskaraskanir og ýmsar takmarkanir sem geri þeim erfitt fyrir að vinna með fornan og framandi texta, flókna atburðarrás og margar persónur.  Um skeið voru þessar sögur notaðar til að prófa úr á samræmdum prófum, þá var gjarnan spurt út í ýmis þekkingaratriði, nöfn, ættartengsl, staðhætti eða þýðingar á fornum orðatiltækjum. Það má ætla að þessi leið hafi verið mörgum börnum illfær og lærdómurinn byggst á utanbókarlærdómi. Ef Íslendingasögurnar eru hins vegar lesnar út frá siðferðilegu sjónarhorni opna þær möguleika fyrir fleiri nemendur til að njóta þeirra. Tvítyngd börn, börn með málþroskaraskanir eða aðrar takmarkanir/greiningar hafa alveg jafn flókinn innri veruleika og mannlegar tilfinningar og önnur börn. Það getur því verið dýrmætt að fá aðgang að þessum menningarverðmætum sem hafa bæði siðferðilegt menntagildi og eru forsenda skilnings á ýmsu í tungumáli og hugsunarhætti þjóðar. Það er ekki þar með sagt að sú leið sé fyrirhafnarlaus af hálfu kennarans en hún gæti verið þess virði.