Hegðun og tilfinningar barna og ungmenna: Mikilvægi gagnreyndra aðferða í skólastarfi

Bergljót Gyða Guðmundsdóttir

Af innleiðingu og viðhaldi SMT skólafærni í einu sveitarfélagi: Áskoranir en vel unnið verk

Leifur S. Garðarsson, grunnskólakennari, Mosfellsbær og Margrét Sigmarsdóttir, dósent, MVS HÍ

Mikilvægt er að skólar búi yfir árangursríkum aðferðum til þess að mæta þörfum allra nemenda og móta jákvæðan skólabrag. Meðal annars þarf starfsfólk skóla að hafa yfir sannreyndum leiðum að ráða til að efla jákvæða hegðun nemendahópsins og fyrirbyggja óæskilega hegðun. SMT skólafærni er dæmi um slíka aðferð en hún hefur verið notuð hérlendis í tvo áratugi. Í þessu erindi verður sagt frá niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar á stöðu SMT skólafærni í einu sveitarfélagi og viðhaldi hennar 20 árum eftir innleiðingu. Kannað var hvernig þjálfun og fræðslu starfsfólks er háttað, hvernig gæðaeftirlit fer fram og hvort nægur stuðningur við verkefnið sé fyrir hendi. Viðtöl voru tekin við fimm skólastjórnendur í sveitarfélaginu með mikla reynslu af SMT skólafærni og svör þemagreind. Niðurstöður bentu til þess að grunnskólar sveitarfélagsins hafi haldið vel utan um SMT skólafærni frá innleiðingu. Mikil þekking hafi skapast innan skólanna og SMT skólafærni sé almennt talin ákjósanlegur kostur til þess að mæta þörfum allra nemenda. Niðurstöður eru þó einnig ákall á aðstoð því skólastjórnendurnir töldu að stuðningi sveitarfélagsins við SMT skólafærni væri ábótavant. Fræðsla og handleiðsla starfsfólks og stjórnenda væri nánast alfarið að frumkvæði starfsfólks hvers skóla, án þátttöku sveitarfélagsins. Eina aðkoma sveitarfélagsins að SMT skólafærni væri við mat á fylgni skólanna við aðferðina, en að eftirfylgni með niðurstöðu matsins skorti. Fjallað verður um þýðingu niðurstaðna fyrir sveitarfélagið og íslenskt skólasamfélag í heild, sérstaklega með tilliti til varðveislu þekkingar á gagnreyndum aðferðum í skólastarfi og áframhaldandi rannsókna og þróunar.

Félags- og tilfinningafærni í skólum: Kerfisbundin samantekt rannsókna á ART-þjálfun

Freyja Jónsdóttir, stuðningsfulltrúi, velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Ingibjörg Ásta Guðmundsdóttir, leiðbeinandi, Arnarskóli. Leiðbeinandi: Bergljót Gyða Guðmundsdóttir, dósent, MVS HÍ 

Rannsóknir benda til þess að stuðningur í skólum með gagnreyndum aðferðum við félags- og tilfinningafærni (þ.e. geðrækt) barna og ungmenna auki líkur á farsælum þroska þeirra. Fræði- og fagfólk á sviði menntavísinda hefur því í auknum mæli beint sjónum sínum að mikilvægi markvissrar geðræktar sem eins þáttar skólastarfs. ART-þjálfun (e. aggression replacement training) er nýtt í mörgum skólum hérlendis í þessum tilgangi og því ástæða til að meta stöðu þekkingar á þessu sviði. Hér verður sagt frá niðurstöðum kerfisbundinnar samantektar á rannsóknum á ART-þjálfun innan skólaumhverfis. Markmiðið var að kanna hvað rannsóknaniðurstöður segðu um möguleg áhrif ART á félags- og tilfinningafærni og hegðun nemenda og hvernig ART nýtist sem kennsluaðferð. Rannsóknirnar þurftu að hafa farið fram innan skólaumhverfis meðal þátttakenda á skólaaldri, verið ritaðar á íslensku, ensku, norsku eða sænsku og birst á tímabilinu 2001-2021. Gögnum var safnað úr gagnagrunnum Google Scholar, ProQuest og Skemmunnar og stuðst við viðmiðunarreglur PRISMA 2020. Alls uppfylltu níu rannsóknir inntökuskilyrði og náðu samtals til 641 þátttakanda. Helstu niðurstöður leiddu í ljós að ART tengist aukinni félags- og tilfinningafærni og bættri hegðun, sérstaklega hjá yngri nemendum. ART virðist jafnframt nýtast vel í kennslu í skólaumhverfi, að mati þátttakenda rannsóknanna. Annmarkar rannsóknanna voru m.a. fáir þátttakendur og hugsanleg skekkja í rannsóknahópum, skortur á rannsóknum með tilraunasniði og á mati á framkvæmd. Mikilvægt er að starfsfólk skóla hafi greitt aðgengi að upplýsingum um stöðu rannsókna á því geðræktarefni sem valið er til kennslu og geti þannig tekið mið af bæði styrkleikum og takmörkunum þess.

Áhrif endurgjafar kennara á námsástundun: Rannsóknir í tveimur grunnskólum

Helga Maggý Magnúsdóttir, atferlisráðgjafi, Urriðaholtsskóli, Erla Sif Sveinsdóttir, atferlisráðgjafi, Urriðaholtsskóli og Zuilma Gabriela Sigurðardóttir, prófessor, HVS HÍ

Tengsl markvissrar námsástundunar barna og ungmenna við velferð þeirra eru skýr. Rannsóknir benda til þess að ákveðnar gerðir yrtrar endurgjafar kennara tengist aukinni námsástundun. Þessa þekkingu má hagnýta í skólum og efla þannig námsárangur og jákvæða hegðun. Mikilvægt er kanna stöðuna hérlendis og hvort tækifæri sé til að styðja við starfsfólk skóla í notkun hvetjandi endurgjafar. Í þessu erindi verður sagt frá niðurstöðum rannsókna í tveimur skólum á endurgjöf kennara og sambands hennar við námsástundun. Mælingar fóru fram þrisvar sinnum yfir skólaárið í öllum árgöngum og umsjónarbekkjum, með beinu áhorfi í náttúrulegum aðstæðum. Í öðrum skólanum fóru mælingar einnig fram í verklegum greinum. Stuðst var við íslenska þýðingu skráningarblaðsins MICRO Recording Sheet við mælingar. Í ljós kom að námsástundun í báðum skólum hafði aukist, samanborið við niðurstöður fyrri rannsóknar sem gerð var hér á landi. Hlutfall jákvæðrar endurgjafar kennara til nemenda í öðrum skólanum hafði sömuleiðis aukist miðað við fyrri rannsókn. Í hinum skólanum hafði dregið úr neikvæðri endurgjöf miðað við fyrri rannsóknaniðurstöður, þótt hlutfall neikvæðrar endurgjafar mældist hærra en jákvæðrar. Í báðum rannsóknum beindist jákvæð endurgjöf aðallega að námi en neikvæð að félagslegri hegðun nemenda. Fylgni endurgjafar við námsástundun var misjöfn milli skóla; í öðrum skólanum mældust meðal annars marktæk tengsl milli neikvæðrar endurgjafar og minni námsástundunar. Í hinum skólanum mældist marktækt samband milli aukinnar jákvæðrar endurgjafar og námsástundunar. Niðurstöður benda til þess að endurgjöf kennara skipti máli fyrir nám og hegðun nemenda. Rætt verður um styrkleika og takmarkanir rannsóknanna og leiðir til hagnýtingar þessarar þekkingar í skólastarfi.

„Ef við náum ekki bekkjarstjórn þá getum við gleymt þessu“: Mat á námskeiði í bekkjarstjórnun fyrir grunnskólakennara

Sara Bjarney Ólafsdóttir, meistaranemi MVS HÍ, Margrét Sigmarsdóttir, dósent, MVS HÍ og Bergljót Gyða Guðmundsdóttir, dósent, MVS HÍ

Skólastarfsfólk þarf að ná til fjölbreytts hóps nemenda og styðja við nám, hegðun og líðan hvers og eins. Mikilvægt er að samskipti kennara og nemenda séu farsæl, en þar skiptir bekkjarstjórnun miklu máli. Árangursrík bekkjarstjórnun eykur gæði kennslu og námsástundun og stuðlar að bættri líðan kennara og nemenda. Ef hún er ómarkviss getur það hins vegar valdið álagi og streitu, bæði fyrir nemendur og kennara. Þetta erindi fjallar um niðurstöður rannsóknar á námskeiði í gagnreyndum bekkjarstjórnunaraðferðum fyrir grunnskólakennara. Þátttakendur, alls ellefu talsins, voru starfandi grunnskólakennarar sem luku námskeiðinu „Félagsfærni og sjálfsefling með áherslu á hegðun og bekkjarstjórnun“ og mátu afrakstur þess. Blönduðum rannsóknaraðferðum (þ.e. eigind- og megindlegum) var beitt, meðal annars spurningalistum, mati á mætingu og þátttöku og rýnihópaviðtölum við þátttakendur. Áhersla var lögð á að kanna upplifun þátttakenda af aðferðunum sem þeir lærðu á námskeiðinu og nýttu á vettvangi með nemendum sínum, svo sem gagnsemi þeirra og hvaða aðferðir þeir sæju fyrir sér að nota áfram. Samhljómur virtist vera um að það sem þátttakendur lærðu á námskeiðinu hefði borið árangur á vettvangi og að þeir myndu halda áfram að nýta aðferðirnar. Þá töldu þátttakendur þjálfun sem þessa nauðsynlega fyrir kennara, sérstaklega nýliða í stéttinni. Niðurstöður samræmast fyrri íslenskum rannsóknum á þessu sviði og benda til þess að þörf sé fyrir og áhugi á þjálfun í gagnreyndum bekkjarstjórnunaraðferðum meðal grunnskólakennara hérlendis. Rætt verður almennt um aðferðirnar og mikilvægi þeirra þar sem rannsóknir sýna að þær geti stuðlað að betri árangri og líðan nemenda og kennara.