Málstofa verkefna unnin í samstarfi Menntamálastofnunar og Sálfræðideildar HÍ: Seinni hluti

Sigurgrímur Skúlason

Menntamálastofnun

Einkunnaverðbólga í lokamati grunnskóla á árunum 2016-2022

Bergrós Skúladóttir, meistaranemi, HVS HÍ. Leiðbeinandi: Sigurgrímur Skúlason, aðjúnkt, HVS HÍ og sérfræðingur, MMS

Á undanförnum árum hefur verið notaður hæfnimiðaður einkunnakvarði við lokamat á stöðu nemenda í grunnskóla. Slíkir einkunnakvarðar byggja lýsingar á hæfni sem nemendur ráða yfir. Umræddur einkunnakvarði var tekinn upp 2015 og var talinn ónæmar fyrir tilhneigingu til að hækka undan kröfu um háar einkunnir, svokallaðri einkunnaverðbólgu (e. grade inflation). Einkunnaverðbólga felst í að nemendur með sömu kunnáttu fái hærri einkunnir ár frá ári. Vísbendingar hafa verið um að einkunnaverðbólga hafi engu að síður verið í einkunnum við lok grunnskóla. Niðurstöður marglaga aðhvarfsgreiningar (e. multilevel regression) sýndu marktæk einkunnaverðbólguáhrif, bæði í summu lokamats í fimm námsgreinum og einnig í aukningu hæstu einkunna í þrem námsgreinum. Áhrifin afmörkuðust þó við höfuðborgarsvæðið. Verkefnið var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Kennslustundaathuganir: Hver er staðan og hvað hefur breyst frá árinu 2013?

Gunnhildur Harðardóttir, sérfræðingur, MMS

Menntamálastofnun hefur umsjón með ytra mati á grunnskólum fyrir hönd mennta- og barnamálaráðuneytisins. Fjallað verður um niðurstöður sem unnar voru út frá gögnum ytra mats 143 grunnskóla á árabilinu 2013-2022. Á tímabilinu 2013 til og með 2017 voru að jafnaði metnir átta til tíu skólar á hverju skólaári en 2018 til 2022 voru 17 til 27 skólar metnir á hverju skólaári. Mat á kennslustundum fer fram í öllum kennslugreinum og er heildarfjöldi metinna kennslustunda 4666. Leitað er svara við eftirfarandi spurningum: Hver er þátttaka nemenda í kennslustundum? Byggja kennslustundir á markvissri samvinnu eða einstaklingsvinnu? Hvaða kennsluhætti nota kennarar? Hver er aðkoma nemandans að náminu? Hefur eitthvað breyst í kennslustofunni? Helstu niðurstöður sýna að breytingar á kennsluháttum og vinnulagi nemenda eru litlar.

 

Athugun á samræmi og ósamræmi í lokamati grunnskóla og niðurstöðum samræmdra könnunarprófa

Rúnar Helgi Haraldsson, sérfræðingur, MMS, Sigurgrímur Skúlason, aðjúnkt, HVS HÍ og sérfræðingur hjá Menntamálastofnun og Bergrós Skúladóttir, meistaranemi, HVS HÍ

Mikilvægur hluti af gæðamati á námsmatskerfum er samræmi mill ólíkra sjónarhorna við mat á einstaklingum eða stofnunum. Greining Menntamálastofnunar á gögnum um árgang nemenda sem lauk grunnskóla árið 2016 sýndi að í meginatriðum var gott samræmi milli lokamats grunnskóla (LGM) og samræmdra könnunarprófa (SKP), en jafnframt að talsverður munur var á niðurstöðum í hluta af skólum. Rannsóknin byggir um námsmati á árunum 2016 til 2022. Notuð voru meðaltöl skóla með 15 eða fleiri nemendur á tímabilinu á lokamati grunnskóla (LGM) og meðaltöl skóla á samræmdum könnunarprófum (SKP) (þrjár námsgreinar), samtals 135 skólar. Meðaltöl LGM og SKP yfir nokkurra ára tíma endurspegla stöðuga eiginleika á námsmati skóla annars vegar og breytileika í nemendahóp skólanna hins vegar. Fylgni milli meðaltals þessara mælinga var 0,56 og fylgni námsgreina í LMG innbyrðis var 0,57 til 0,79. Þáttalíkan fyrir niðurstöður á bæði LMG og SKP hafði slök mátgæði. Þegar niðurstöður fyrir LMG á öllum árum voru þáttagreindar komu fram þrír þættir og endurspeglaði einn þeirra útskriftarár og virðist hann tengjast einkunnaverðbólgu. Samræmi í matinu birtist í að mismunur LMG og SKP var innan við 0,75 staðalfrávik hjá 59% skóla (65% nemenda), en ósamræmi birtist í því að í 18% skóla (með 19% nemenda) var meðaltal LMG umtalsvert hærra en meðaltal SKP og í 23% skóla (með 23% nemenda)var meðaltal LMG umtalsvert lægra en meðaltal SKP. Þetta þýðir að 35 % nemenda býr við það að LGM í þeirra skóla er að meðaltali umtalsvert lægra eða hærra en hefði gerst í öðrum skóla.

Hvernig breytast tengsl lesfimi og lesskilnings yfir skólagöngu nemenda?

Auðun Valborgarson, doktorsnemi, HVS HÍ og sérfræðingur hjá Menntamálastofnun og Freyja Birgisdóttir, dósent, HVS HÍ. Leiðbeinendur: Sigurgrímur Skúlason, aðjúnkt, HVS HÍ og sérfræðingur, MMS og Fanney Þórsdóttir, prófessor, HVS HÍ

Tengsl lesfimi og lesskilnings hafa verið lengi þekkt og deilt hefur verið um hvort lesfimi hafi áhrif á lesskilning eða öfugt. Markmið rannsóknarinnar er að draga fram mynd af því hvernig tengsl lesfimi og lesskilnings þróast yfir skólagöngu grunnskólabarna. Frammistaða nemenda í lesfimi og lesskilningi var skoðuð í lok grunn-, mið- og unglingastigs. Nemendum í fjórða bekk (N = 1034) var fylgt eftir í fimm ár og breytingar í lesfimi og lesskilningi voru skoðaðar með krosstengdu tímaraðalíkani sem tekur tillit til einstaklingsmunar í færni nemenda (e. random intercept cross-lagged panel model). Líkanið skiptir dreifni mældu breytanna í tvennt, annars vegar í almennan færniþátt sem lýsir breytileika milli einstaklinga (e. between-person variance) og hins vegar sértækum breytileika á milli tímapunkta (e. specific within-person variances). Niðurstöður líkansins sýna að færni nemenda í lesfimi og lesskilningi skýrist fyrst og fremst af almennu færniþáttunum og eru tengslin á milli færniþáttanna, lesskilnings og lesfimi, sterk. Staða nemenda borin saman við jafnaldra, í lesfimi og lesskilningi, breytist lítið á milli skólastiga. Nemendur í lægstu röð á grunnstigi eru líklegir til að vera áfram í lægstu röð við lok grunnskóla. Samkvæmt líkaninu breytast tengsl lesfimi og lesskilnings innan einstaklinga á milli skólastiga. Á grunnstigi hefur færni nemanda í lesfimi áhrif á færni í lesskilningi en þessi áhrif snúast við þegar komið er á unglingastig, en þá hefur færni í lesskilningi áhrif á lesfimi nemandans.