Málþroski og læsi grunnskólabarna: Þróun, íhlutun og mat

Freyja Birgisdóttir

Rannsóknarstofa um þroska, læsi og líðan barna og ungmenna

Segðu mér sögu; persónulegar frásagnir 10 ára íslenskra barna

Erna Þráinsdóttir, meistaranemi, HVS HÍ. Leiðbeinandi: Jóhanna Thelma Einarsdóttir, prófessor HVS/MVS HÍ

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að skoða persónulegar frásagnir 10 ára barna. Greindir voru mállegir þættir, hvernig börnin brugðust við hvatningu og skoðað hvaða umræðuefni þau völdu að fjalla um. Aðferð: Þátttakendur rannsóknarinnar voru 27 íslensk börn sem voru valin af handahófi. Þau voru eintyngd og ekki með grun um frávik í máli og tali. Hvert barn sagði sex persónulegar sögur um þætti eins og hvenær þau voru hamingjusöm eða reið. Eftirfarandi mállegir þættir voru skoðaðir; Heildarfjöldi segða (HFS), Meðallengd segða (MLS), Fjöldi mismunandi orða (FMO), Heildarfjöldi orða (HFO) og hlutfall málfræðivillna. Auk þess var athugað val á umræðuefni. Niðurstöður: Niðurstöður sýndu mikinn einstaklingsmun á frásögnum 10 ára barna á öllum mælieiningum sem voru athugaðar. HFS var að meðaltali 53 segðir (frá 32 til 95 segðir), MLS var að meðaltali 10 orð (frá 5 til 20 orð), HFO var 550 orð (frá 199 til 991 orð), FMO var 206 orð að meðaltali (frá 94 til 336 orð) og hlutfall málfræðivillna var að meðaltali 2 orð (frá 0 til 10 orð). Frásagnir barnanna lengdust þegar þau voru hvött áfram að segja frá einhverju fleiru. Algengustu umræðuefni barnanna voru tengd afrekum í íþróttum, ósætti hjá systkinum eða hvernig þeim tókst að laga eða bæta fyrir eigin mistök. Ályktanir: Rannsóknin bendir til að 10 ára börn séu almennt komin með gott vald á því að segja frá; þau nota langar setningar og gera fáar málfræðivillur en breytileiki innan hópsins er mikill.

Áhrif íslenskrar þýðingar á námsefninu Story Champs á frásagnarfærni nemenda með námsörðugleika

Anna Ágústsdóttir, meistaranemi, HR, Hanna Steinunn Steingrímsdóttir, dósent, HR, Freyja Birgisdóttir, dósent HVS HÍ, Rafn Emilsson, skólastjórnandi

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að meta áhrif íslenskrar þýðingar á námsefninu Story Champs á frásagnarfærni nemenda með námsörðugleika. Stuðst var við kennsluáætlun sem miðar að því að efla þekkingu nemenda á grunnuppbyggingu frásagna, byggt á beinni kennslu, markvissri endurgjöf og stuðningi. Aðferð: Þrír 12 til 13 ára nemendur sem sækja sérskóla á höfuðborgarsvæðinu tóku þátt í rannsókninni. Notast var við þátttakendaþætt grunnskeið (multiple-baseline across subjecs) og margþætt könnunarsnið (e. multiple probe design) til þess að meta áhrif inngripsins. Kennslan fór fram á einstaklingsgrundvelli í skóla nemenda á venjulegum skólatíma. Eftir grunnskeiðsmælingar fengu þátttakendur kennslu í endursögn einfaldra frásagna sem fólu í sér fimm grunnþætti: kynningu á aðalpersónu, meginatburð eða vandamál, lýsingu á tilfinningu í kjölfar atburðar, úrlausn og endi. Þjálfunin byggðist á beinni kennslu (direct intruction) og markvissum stuðningi sem smám saman var dregið úr. Fyrir hverja kennslustund var gerð könnun (e. probe) á yfirfærslu nemenda. Niðurstöður: Marktækur munur kom fram á færni nemenda til að endursegja sögu sem innihélt fimm grunnþætti frásagna. Eftirfylgni gaf einnig til kynna að framfarir héldust yfir tíma. Yfirfærsla var þó takmörkuð hjá flestum nemendum. Ályktun: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að íslensk þýðing á námsefninu Story Champs hafi marktæk áhrif á frásagnarhæfni nemenda með námsörðugleika, en huga þarf að leiðum til þess að efla yfirfærslu frásagnarhæfni yfir á nýjar aðstæður.

Íslenskur námsorðaforði

Ásdís Björg Björgvinsdóttir, meistaranemi, MVS HÍ. Leiðbeinandi: Sigríður Ólafsdóttir, dósent, MVS HÍ

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt sterk tengsl á milli lesskilnings og orðaforða, en góður lesskilningur er forsenda farsællar námsframvindu. Komið hefur í ljós að íslenskur orðaforði er drifkraftur framfara í lesskilningi hjá íslenskum grunnskólabörnum, og á það bæði við um börn sem eiga íslensku sem móðurmál og annað mál. Í íslensku tungumáli eru ótal mörg orð og því er mikilvægt að vita hvaða orð liggja til grundvallar námsárangri. Markmið meistaraverkefnisins sem hér er kynnt var að þróa Lista yfir íslenskan námsorðaforða (LÍNO) og komast að því hver íslenskur námsorðaforði er, orð sem mikilvægt er fyrir nemendur að þekkja. Þegar orð eru valin til náms og kennslu er mikilvægt að byggja á málheildum. Ný málheild fyrir íslenskan námsorðaforða (MÍNO) var sett saman úr völdum málheildum Íslensku risamálheildarinnar og Markaðrar íslenskrar málheildar, en auk þess var bætt við námsefni sem Menntamálastofnun hefur gefið út. Fyrirmyndin var enska málheildin sem New Academic Word List byggir á. Samtals telur MÍNO 31.680.235 lesmálsorð og eru allir textar frá þessari öld. Afrakstur þessa meistaraverkefnis er LÍNO sem telur 1.515 orð. Orðin eru umfram algengustu orð málheildarinnar en mikið notuð í ýmsum tegundum texta og þvert á fræðasvið (orð í lagi 2). Námsorðaforðalistinn mun nýtast nemendum hér á landi við að efla orðaforða sinn, lesskilning og ritunarfærni og samhliða verður með LÍNO mögulegt að halda lífi í íslenskum orðum með komandi kynslóðum. Verkefnið er fyrsta meistaraverkefnið af þremur sem styrkt var af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, en íslenskur orðaforði er viðfangsefni þeirra allra.