Hagnýt atferlisgreining í skólastarfi og uppeldi

Anna-Lind Pétursdóttir

Rannsóknarstofa um þroska, læsi og líðan

Áhrif hvatningarkerfis með Beanfee hugbúnaðinum á námsástundun og hegðun nemenda með sögu um langvarandi hegðunarvanda

Silja Dís Guðjónsdóttir, atferlisfræðingur MVS HÍ. Leiðbeinendur: Anna-Lind Pétursdóttir, prófessor, MVS HÍ og Helgi Karlsson, sálfræðingur, Lækjarskóli

Þessi rannsókn kannaði áhrif einstaklingsmiðaðra hvatningarkerfa með Beanfee hugbúnaðinum á truflandi hegðun og námsástundun fjögurra karlkyns nemenda á aldrinum 7 til 10 ára í fjölmennum grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu. Allir þátttakendur höfðu sögu um langvarandi hegðunarvanda og skort á námsástundun. Einstaklingsmiðuð hvatningarkerfi voru sett upp með Beanfee forritinu fyrir hvern þátttakanda með hegðunarmarkmiðum um að vinna vel í tímum, vera á sínu svæði og fylgja fyrirmælum kennara. Kennarar mátu og gáfu endurgjöf á hegðun þátttakenda í lok bóklegra kennslustunda með Beanfee hugbúnaðinum, sama gerðu þátttakendur. Foreldrar fylgdust með matinu heima við í gegnum Beanfee hugbúnaðinn og veittu stuðningsstyrki þegar markmiðum var náð. Íhlutun varði 4-6 vikur fyrir hvern þátttakanda. Gæði framkvæmdar var metin 26 sinnum og var að meðaltali 95,4%. Truflandi hegðun var mæld með hlutbilaskráningu og námsástundun með heilbilaskráningu, samræmi matsmanna var metið í 25,3% tilvika og var að meðaltali 94%. Margfalt grunnskeiðssnið yfir þátttakendur sýndi fram á að truflandi hegðun minnkaði (66,9% að meðaltali) og námsástundun jókst (150% að meðaltali) í kjölfar innleiðingar á einstaklingsmiðaðri Beanfee íhlutun. Spurningalisti um Beanfee hugbúnaðinn og áhrif þess sýndi fram á hátt félagslegt réttmæti. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að einstaklingsbundin Beanfee táknstyrkingarkerfi, sem kennarar stjórna í samvinnu við nemendur og foreldra þeirra, geta dregið úr viðvarandi truflandi hegðun og stuðlað að námsástundun nemenda í kennslustofum á grunnskólastigi.

„Má ég fá meiri tíma til að leika?“ Háskólanemum kennt að ýta undir tjáningu nemenda til þess að veita þeim aukin áhrif á námsumhverfi sitt, bæta líðan og þol fyrir kröfum

Bára Denný Ívarsdóttir, atferlisfræðingur, LSH. Leiðbeinendur: Anna-Lind Pétursdóttir, prófessor, MVS HÍ og Karl Fannar Gunnarsson, lektor, HVS HÍ

Atferlismiðuð færniþjálfun er gagnreynd þjálfunaraðferð til að kenna fólki nýja færni og hefur verið notuð til að kenna umönnunaraðilum og starfsfólki margs konar færni sem tengist aðferðum hagnýtrar atferlisgreiningar. Markmið þessarar rannsóknar var að nota atferlismiðaða færniþjálfun í uppsettum aðstæðum til að kenna þremur háskólanemum í starfsþjálfun að framkvæma færnimiðaða boðskiptaþjálfun í sex skrefum og meta yfirfærslu þeirrar færni í kennslustofu sérskóla með 11 ára einhverfum nemanda. Háskólanemarnir voru þrjár konur á aldrinum 24-26 ára. Tvær þeirra voru í meistaranámi í hagnýtri atferlisgreiningu við Háskóla Íslands með BS gráðu í sálfræði og eins til fjögurra ára starfsreynslu með fötluðu fólki. Ein var með BA gráðu í þroskaþjálfafræðum að klára viðbótardiplómanám til starfsréttinda með sjö ára reynslu í störfum með fötluðu fólki.   Margfalt grunnskeiðssnið yfir þátttakendur með stikkprufum var notað til að meta áhrif inngripsins á færni háskólanemanna til að framkvæma færnimiðaða boðskiptaþjálfun. Helstu niðurstöður voru að atferlismiðuð færniþjálfun bætti framkvæmd allra sex skrefa boðskiptaþjálfunar hjá öllum þátttakendum, þannig að rétt framkvæmd jókst úr 7,4% að meðaltali upp í 98% að meðaltali. Við mat á yfirfærslu á færni í boðskiptaþjálfun með nemanda í raunaðstæðum reyndist framkvæmdin að meðaltali 99% rétt. Þessar niðurstöður gefa vísbendingar um að atferlismiðuð færniþjálfun sé árangursrík aðferð til að kenna háskólanemum færnimiðaða boðskiptaþjálfun í uppsettum aðstæðum og í raunaðstæðum. Þá var mat þátttakenda á félagslegu réttmæti þjálfunar hátt.

Forathugun á foreldraviðtölum til að bæta daglegar rútínur á heimilum barna með ADHD og áhrif þeirra á mótþróa, styrk- og veikleika

Arnar Baldvinsson, meistaranemi, HVS HÍ. Leiðbeinandi: Urður Njarðvík, prófessor HVS HÍ

Heimilislíf barna með ADHD einkennist að jafnaði af færri daglegum rútínum í samanburði við önnur börn. Rannsóknir sýna að rútínur í daglegu lífi geta haft jákvæð áhrif á hegðun og tilfinningastjórnun. Tilgangur þessarar rannsóknar var að athuga hvort foreldraviðtöl um daglegar rútínur gætu minnkað hegðunarvanda barna með ADHD. Foreldrar 21 barns með ADHD á aldrinum 6-12 ára var skipt í tilrauna- og samanburðarhóp. Foreldrar svöruðu Child Routines Questionaire (CRQ-IS), Devereux Behavior Raring Scale (DBRS, mótþróahluta) og Strengths and Difficulties Questionnaire (SDQ) fyrir og eftir inngrip. Tilraunahópur mætti í foreldraviðtal við upphaf rannsóknar og eftirfylgniviðtal tveimur vikum seinna. Báðir hópar svöruðu spurningalistum aftur fimm vikum eftir inngrip. Niðurstöður benda til þess að rútínuviðtöl geti aukið tíðni/gæði daglegra rútína og því fylgi minnkun í mótþróa hjá börnum með ADHD. Takmarkað alhæfingargildi er sökum lítils úrtaks en inngripið lofar góðu. Frekari rannsókna er þörf til að ákvarða áhrif og notagildi foreldraviðtala einna og sér sem og samhliða öðrum inngripum.

Áhrif beinnar kennslu og fimiþjálfunar á sjálfsmynd nemenda í lestrarvanda

Guðrún Björg Ragnarsdóttir, doktorsnemi, MVS HÍ og Kristján Ketill Stefánsson, lektor, MVS HÍ. Leiðbeinendur: Anna-Lind Pétursdóttir, prófessor, MVS HÍ og Zuilma Gabriela Sigurðardóttir, HVS HÍ

Fjallað verður um langtímarannsókn með runubundnu árgangasniði (e. cohort sequential study) þar sem skoðuð var almenn sjálfsmynd, námsleg sjálfsmynd og sjálfsmynd í lestri og stærðfræði hjá nemendum með námserfiðleika. Þátttakendur (N = 63) voru nemendur með námserfiðleika í 4.-8. bekk sem fengu sérkennslu í tveimur grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. Um helmingur nemendanna (n = 30) fékk sérkennslu í upphafi rannsóknartímabils þar sem lögð var áhersla á gagnreyndar aðferðir (beina kennslu og fimiþjálfun). Hinir þátttakendurnir (n = 33) fengu hefðbundna sérkennslu. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvernig almenn sjálfsmynd, námsleg sjálfsmynd og sjálfsmynd í lestri og stærðfræði þróaðist á rannsóknartímanum og hvort munur yrði á hópunum eftir sérkennsluháttum. Spurningalistinn Self-perception profile for learning disabled students var lagður fyrir þátttakendur rannsóknarinnar alls sex sinnum á þriggja ára tímabili. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að inngrip með beinni kennslu og fimiþjálfun hafði tölfræðilega marktæk (p = 0,02) og veruleg jákvæð áhrif á námslega sjálfmynd nemenda með námserfiðleika á rannsóknartímabilinu. Einnig voru áhrif inngripsins á sjálfsmynd nemenda í stærðfræði umtalsverð en einungis á mörkum þess að vera tölfræðilega marktæk (p = 0,05). Áhrif inngripsins á aðra þætti sjálfsmyndar reyndust ekki tölfræðilega marktæk. Fjallað verður um niðurstöðurnar í tengslum við niðurstöður erlendra rannsókna og tilhögun sérkennslu í íslenskum grunnskólum.