Notkun sýndarveruleika í kennslu um loftslagsmál – Lystigarður möguleikanna

Hanna Ólafsdóttir

Astrid Loftslagsfræðsla – upplifunarhönnun, valdefling og geta til aðgerða

Ásta Magnúsdóttir, verkefnastjóri, Gagarín ehf.

Astrid Loftslagsfræðsla er kennsluefni um Loftslagsmál fyrir skóla. Áhersla er lögð á getuna til að grípa til áhrifaríkra aðgerða og að veita nemendum þekkingu og úrræði til að skilja og rökræða lausnir við loftslagsvandanum. Kennsluefnið sjálft er m.a. í formi sýndarveruleika, viðbótarveruleika, kennslubóka, borðspila, myndbanda og fleiri gagnvirkra miðla. Verkefnið er leitt af hönnunarfyrirtækinu Gagarín ehf. Stuðst er við rannsóknir í loftslags- og menntavísindum í gegnum öflugt samstarf við helstu vísinda-, mennta- og háskólastofnanir Íslands, þar með talið Umhverfisstofnun, Veðurstofu Íslands, Hafrannsóknastofnun, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Með þessu verkefni er því verið að vinna markvisst að nýstárlegu og metnaðarfullu kennsluefni sem uppfyllir kröfur Aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum á vegum ríkisstjórnar Íslands: G4. Fræðsla um loftslagsmál fyrir almenning og G5. Menntun um loftslagsmál í skólum. Garden of Choices er hlutverkaleikur í sýndarveruleika þar sem nemendahópur stendur frammi fyrir aðgerðum og ákvarðanatöku um loftslagsmál. Upplifunin krefst samvinnu, lýðræðis og gagnrýninnar hugsunar. Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla getur stafræn tækni veitt fjölþætta merkingarsköpun í skólastarfi en þegar nemendur upplifa hluti sjónrænt á áhrifaríkan hátt geta þeir átt auðveldara með að framkalla reynsluna síðar. Á síðustu mánuðum hefur leikurinn verið prófreyndur með grunnskólanemum, kennurum og sérfræðingum í loftslagsmálum.

Skapandi leiðir í Lystigarði möguleikanna. Aðgerðir og áhrif loftslagsbreytinga

Anna Kristín Valdimarsdóttir, meistaranemi, MVS HÍ. Leiðbeinandi: Hanna Ólafsdóttir, lektor, MVS HÍ

Lystigarður möguleikanna er fræðsluleikur í sýndarveruleika sem tilheyrir Astrid loftslagsmál menntaseríunni. Markmið hennar er að veita ungmennum verðug verkefni í baráttunni gegn loftslagsvandanum, ýta undir hegðunarbreytingu hjá þeim og meðvitund um áhrif daglegra athafna. Leikurinn er hannaður af Gagarín í nánu samstarfi við Veðurstofu Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun og Environics. Heimurinn stendur frammi fyrir áskorunum vegna loftslagsbreytinga sem ekki hefur tekist að sporna gegn þrátt fyrir samhentar aðgerðir. Ungt fólk er meðvitað um vandann en það vefst fyrir því hvernig best sé að bregðast við vandanum og koma á jafnvægi milli efnahags, samfélags og umhverfis. Rannsóknin byggir á eigindlegri rannsóknarhefð (e. qualitative) með fyrirbærafræðilegu sniði (e. phenomenology). Viðfangsefnið var kannað í víðu samhengi út frá rannsóknarspurningum og þrengt með tilleiðslu. Markmið verkefnisins er að rannsaka menntagildi Lystigarðs möguleikanna og þróa námsefni sem byggir á skapandi kennsluaðferðum og menntun til sjálfbærrar þróunar. Í ljós kom að nemendur vilji hafa áhrif á námið á skapandi og rannsakandi hátt. Niðurstöðurnar benda til þess að þátttaka í Lystigarði möguleikanna auki færni og getu þátttakenda til að greina vandamálið frá fjölbreyttum sjónarhornum. Ungmennunum þótti upplifunin skemmtileg með tilkomu sýndarveruleikans sem jók á áhuga þeirra. Greina mátti aukinn vilja til að fræðast meira um umhverfisvandann. Reynslan veitir einnig fjölbreytta sýn á margþætt vandamál á þverfaglegan hátt. Alþjóðasamfélagið þarfnast ungmenna sem eru upplýst og hæf til að leggja mat á eigin ákvarðanatöku og áhrif hennar út frá ólíkum sjónarhornum. Verkefnið er að hluta til styrkt af Gagarín, Rannís, Nýsköpunarsjóði námsmanna og Loftslagssjóði.

Árangursprófun loftslagsfræðslu í sýndarveruleika

Ragna Benedikta Garðarsdóttir, prófessor, HVS HÍ og Þórunn Björg Guðmundsdóttir, meistaranemi, HVS HÍ 

Í fyrri hluta er fjallað um kenningar félagssálfræðinnar um sálfræðilegar hindranir sem koma í veg fyrir að fólk grípi til aðgerða gegn loftslagsógninni og útskýrt hvernig loftslagsfræðslan Lystigarður möguleikanna getur tekið á þessum hindrunum. Meðal annars verður fjallað um hugtökin sálfræðileg fjarlægð, trú á eigin getu, venjur, afneitun ábyrgðar, svartsýni, vanþekkingu, ótta og ábyrgðardreifingu. Í seinni hluta er fjallað um niðurstöður rannsóknar sem var gerð til að árangursprófa Lystigarð möguleikanna út frá þessum félagssálfræðilegu kenningum. Nemendur (n = 75) í tveimur 10. bekkjum grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu tóku þátt í loftslagsfræðslu í sýndarveruleika (n =23) og með spilastokk (n = 21), en þriðji bekkurinn (n = 30) var hafður til samanburðar. Allir svöruðu spurningalistum í tvígang. Tilgátur stóðust ekki allar en niðurstöður sýndu þó að þátttakendur í sýndarveruleika reyndust bjartsýnni, með sterkari umhverfistengda sjálfsmynd og sterkari hegðunarætlun en nemendur sem fengu spilastokk. Slíkar niðurstöður benda til þess að þróa mætti Lystigarð möguleikanna áfram og hagnýta í skólum og öðrum stofnunum til þess að undirbúa nemendur undir að takast á við loftslagsbreytingar.