Háskólar: Fjölbreyttur nemendahópur

Amalía Björnsdóttir

Rannsóknarstofa um háskóla

Er fjarnám lykillinn að inngildandi háskólaumhverfi?

Amalía Björnsdóttir, prófessor, MVS HÍ  og Þuríður Jóna Jóhannsdóttir, prófessor emerita, MVS HÍ

Markmið rannsóknarinnar sem kynnt verður var að kanna hvernig þættir í bakgrunni og aðstæðum háskólanema á Menntavísindasviði spá fyrir um líkur á því að þeir kjósi að stunda fjarnám. Með því er verið að kanna hversu mikið fjarnám leggi af mörkum við að skapa inngildandi háskólaumhverfi á Menntavísindasviði sem styðji við jafnrétti og margbreytileika í hópi háskólanema. Gagna var aflað með spurningakönnun meðal stúdenta í bakkalárnámi á Menntavísindasviði haustið 2020. Búseta áður en námið hófst hafði vissulega tengsl við val á fjarnámi en aðrir þættir, til að mynda mikil vinna með námi, börn á heimilinu og aldur höfðu sterkari tengsl við val á fjarnámi. Niðurstöður benda til þess að fjarnám laði að fjölbreyttari hóp en staðnám og að í fjarnámi séu frekar eldri stúdentar, þeir sem eru komnir á vinnumarkað,  með fjölskyldu og fyrsta kynslóð í sinni fjölskyldu til að fara í háskólanám. Þetta er hópur sem oft er kallaður óhefðbundnir stúdentar og ólíklegt verður að teljast að þessir einstaklingar færu í háskólanám væri það ekki í boði sem fjarnám. Hlutfall óhefðbundinna stúdenta var mjög hátt í leikskólakennarafræðum og þroskaþjálfanámi en mun lægra á námsleiðum þar sem fjarnám var ekki í boði eða aðeins hluta námstímans. Fjarnám er því lykill að aðgengi að háskólanámi fyrir þennan hóp óhefðbundinna stúdenta en síðan þarf HÍ að tryggja gæði námsins og það verður ekki gert nema með því að taka mið af kringumstæðum stúdenta og laga fyrirkomulag náms og kennslu að þeim að einhverju leyti.

Samanburður á tengslamyndun og brotthvarfi nemenda úr námi á tveimur sviðum Háskóla Íslands fyrir og eftir COVID-19

Anna Helga Jónsdóttir, dósent VoN HÍ, Magnús Þór Torfason, dósent, FVS HÍ og Margrét Sigrún Sigurðardóttir, dósent, FVS HÍ

Haustið 2017 hófst rannsókn á tengslamyndun nýnema á tveimur sviðum Háskóla Íslands, Félagsvísindasviði og Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Nemendur voru m.a. spurðir hvaða samnemendur þeir þekktu við upphaf náms og svo aftur hvaða samnemendum þeir eyddu tíma með síðar á námsferlinum. Samhliða var framvinda nemenda í náminu rannsökuð. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á tengslamyndun nemenda við upphaf háskólanáms og rannsaka hversu víðtækt brotthvarf nemenda úr námi er á sviðunum tveimur. Að auki er áhugavert að skoða hvort fylgni sé á milli tiltekinna bakgrunnsbreyta og brotthvarfs, svo sem kyns, aldurs og framhaldsskóla. Haustið 2020 var ákveðið að endurtaka leikinn og sams konar gagna aflað í þeim tilgangi að geta borið saman tengslamyndun, brotthvarf og námsframvindu nemenda í námi fyrir og eftir COVID-19. Niðurstöður sýna að nemendur sem hófu nám í faraldrinum tilgreindu færri tengsl í upphafi náms en nemendahópurinn sem hóf nám haustið 2017. COVID-19 nemendahópurinn myndaði einnig mun færri ný tengsl á fyrsta misserinu sínu í skólanum en um helmingur nemenda myndaði engin ný tengsl á meðan hlutfallið var aðeins um 9% haustið 2017. Í erindinu verður farið í gegnum helstu niðurstöður greininga og hvernig þær geti mögulega nýst deildum til að bregðast við áhrifum Covid á tengslamyndun og námsframvindu nemenda í námi.

Viðhorf nemenda til fjarkennslu/fjarnáms og tengslamyndun nemenda og kennara í slíkum aðstæðum

Helga Jóna Eiríksdóttir, lektor, HUG HÍ

Markmið verkefnisins var annars vegar að skoða viðhorf nemenda til fjarkennslu með það að markmiði að bæta kennsluhætti og þróa fjarnámskennslu áfram til að bæta upplifun nemenda. Hins vegar að kanna tengslamyndun milli kennara og nemenda í fjarnámi m.t.t. áhugahvata (e. Motivation) og hvort og þá hvaða þættir eru til staðar í fjarkennslu sem ýta undir áhuga nemenda. Spurningalisti var lagður fyrir nemendur í námskeiðinu Opinber skjalavarsla og skjalastjórn í fortíð og nútíð haustið 2021. Helstu niðurstöður sýna að nemendur eru almennt jákvæðir gagnvart fjarnámi og fjarkennslu og líkar vel að geta stýrt tíma sínum sjálfir. Vel uppsett og skipulagt vefsvæði námskeiðsins ásamt aðgengilegu námsefni virkar hvetjandi á nemendur og fjarnámsformið hentar þeim almennt vel. Nemendur kunna að meta að geta hlustað á námsefnið á eigin hraða og tíma. Þeir segja þó að þeir myndu kjósa að hafa tækifæri til að hitta samnemendur og kennara í raunheimum þó námskeiðið væri aðallega í fjarnámi. Áhyggjur af tengslamyndun nemenda er óþörf, nemendur mynda tengsl bæði við kennara og aðra nemendur og upplifa umhyggju kennara fyrir velferð þeirra. Til þess að svo megi verða þarf þó að tryggja að ákveðnir þættir séu til staðar. Rannsóknin er fyrst og fremst innlegg í umræðuna um bættari og fjölbreyttari kennsluhætti. Hún er tilraun til að fanga upplifun nemenda á núverandi kennsluháttum og reyna að beina sjónum að því hvað það er sem nemendur vilja þegar kemur að kennslu og þeirra eigin námi.