Textíll: Sjálfbærni, nám, verndun og varðveisla I

Ásdís Jóelsdóttir

Rannsóknarstofa í textíl

Rafrænar verkefna- og ferilmöppur fyrir textílnemendur í grunnskóla

Auður Björt Skúladóttir, meistaranemi MVS HÍ. Leiðbeinandi: Ásdís Jóelsdóttir, lektor MVS HÍ

Í rannsóknarverkefninu var unnið með innihald og skipulag á rafrænum verkefna- og ferilmöppum fyrir nemendur í textíl. Markmiðið var að safna saman ljósmyndum af öllum verkefnum nemenda frá hugmynd að fullvinnslu, í hverjum hópi í hverjum árgangi á sem fljótvirkastan hátt. Ferilmöppurnar tengjast hverju aldursþrepi; 1.-4., 5.-7. og 8.-10. bekk og gerðar aðgengilegar aðstandendum. Í rannsókninni var skoðað hvaða forrit vinna saman til að auðvelda færslu, flokkun og geymslu ljósmynda eftir hverja verkefnaviku. Niðurstöður sýndu að hentugast var að vinna verkefnamöppurnar í Google Slide þar sem hver nemandi getur haft sína eigin glærukynningu. Verkefnamöppurnar eru síðan geymdar á Google Drive sem er rafrænt geymslusvæði þar sem hver árgangur hefur sína eigin árgangsmöppu. Inni í hverri möppu eru fjórar til fimm hópamöppur. Í hverjum hópi erum 10 til 14 nemendur. Allt er skráð inn á Google aðgang sem tengdur er við snjallsíma sem staðsettur er í kennslustofunni. Nemendur nota símann til að taka ljósmyndir af verkefnum sínum í lok hvers tíma. Þannig geta þeir ásamt kennara fylgst með framvindu verkefna frá hugmynd yfir í vinnslu og tilbúið verkefni. Í erindinu verður farið yfir vinnuferlið og þróun verkefnis og hver sé ávinningurinn af slíku skipulagi. 

Stafrænt handverk til sjálfbærni fyrir nám og störf í fatahönnun

Björg Ingadóttir, fatahönnuður, rekur fatahönnunarfyrirtæki

Markmiðið með rannsókninni var að búa til námsefni þar sem samtengdar eru aðferðir í 2D sniðagerð og 3D prufusaumi sem nýjung í fatahönnunarnámi á framhalds- og háskólastigi. Markmiðið með námsefninu er að stafrænt handverk sé metið til jafns á við annað handverk í skólakerfinu. Námsefnið samanstendur af myndböndum þar sem kennd er grunnfærni í hönnunarforritinu CLO3D. Höfundur hafði tækifæri til að þróa og móta námsefnið í kennslu á framhaldsskólastigi og með námskeiðahaldi. Nemendur lærðu á helstu verkfæri og viðmót í forritinu. Eftir að grunnfærni í forritinu var náð hafa nemendur möguleika á að vinna einstaklingsverkefni þar sem vinnuferlið frá frumstigi er metið með leiðsagnar- og símati. Notkun á 3D fatatækni er mikilvægur valkostur þegar draga þarf úr kolefnissporum og umhverfisspjöllum af völdum tískuiðnaðarins þegar á upphafsstigi vöruþróunar. Þannig hefur hlutverk og störf fatahönnuða breyst mikið frá því sem áður var. Í erindinu er fjallað um sjálfbærni í tískuiðnaðinum og þau verkfæri sem notuð eru til að ná þeim markmiðum og hvernig það hefur áhrif á þróun og mótun náms á framhalds- og háskólastigi.

Íslensk lopapeysa / Icelandic Lopapeysa sem verndað afurðarheiti

Ásdís Jóelsdóttir, lektor, MVS HÍ

Árið 2020 féllst Matvælastofnun á að afurðarheitið „Íslensk lopapeysa / Icelandic Lopapeysa“ yrði skráð sem verndað afurðarheiti með vísan til uppruna. Skráningin byggist á lögum nr. 130/2014 um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu. Undanfari að þessu markmiði var samvinna höfundar að rannsókn á íslensku lopapeysunni, við Handprjónasamband Íslands og handverkshópa með sölustaði víða um land. Rannsóknin sem gefin hafði verið út í ritrýndri bók árið 2017 var undirstaðan fyrir því að mögulegt var að fara í umsóknarferlið. Til viðbótar fór höfundur af stað með ítarlegri rannsókn á uppruna og gerð lopapeysunnar sem söluvöru. Þær niðurstöður voru síðan færðar saman sem rök fyrir því að hún yrði skráð sem verndað afurðarheiti. Umsóknin tók mið af fyrrnefndum lögum, en færa þurfti rök fyrir uppruna og tilvist íslensku lopapeysunnar 30 ár aftur í tímann. Markmið umsóknarinnar var að stuðla að neytendavernd og rekjanleika afurðarinnar eins og tilgangur laganna segir til um. Aðeins þannig yrði ljóst fyrir neytandann hvaða vöru hann væri að kaupa og að hann gæti á auðveldan hátt gert greinarmun á handprjónaðri vöru sem prjónuð er á Íslandi og þeirra sem eru hand- eða vélprjónaðar erlendis. Í erindinu verður farið yfir gagnasöfnunina og niðurstöður, umsóknina og vinnuferlið við skráninguna hjá MAST sem m.a. fól í sér andmælarétt hagsmunaaðila.

Með verkum handanna: Íslenskur refilsaumur fyrri alda

Lilja Árnadóttir, fræðimaður, áður sviðsstjóri munasafns Þjóðminjasafns Íslands

Í erindinu verður dregin upp mynd af rannsóknum Elsu E. Guðjónsson (1924–2010), textíl- og búningafræðings, á forna íslenska refilsaumnum sem hún helgaði sig í áratugi. Höfundur erindis, Lilja Árnadóttir, aðstoðaði Elsu með rannsóknina seinustu æviár hennar.  Rannsóknir Elsu sýna að varðveist hafa 15 verk frá síðmiðöldum og síðari öldum, en yngst af þeim er hökulkross frá 17. öld. Allir eru textílarnir varðveittir á söfnum og hluti þeirra á erlendum söfnum. Refilsaumuðu klæðin eru dæmi um þróaða listsköpun fyrri alda á Íslandi. Ritheimildir greina frá því að umtalsverður fjöldi textíla prýddi kirkjur og híbýli á fyrri öldum, hér má nefna veggtjöld, refla og altarisklæði. Refilsaumur hefur tíðkast lengi og er saumgerðin auðþekkjanleg þar sem stærsti hluti útsaumsgarnsins er á réttunni en á röngunni sjást merki þess hvernig yfirþræðir hafa verið festir niður í grunnefnið. Eðli refilsaums gerir það mögulegt að draga upp fíngerðar myndir og segja með þeim sögur líkt og í málverki. Segja má að nálin hafi verið notuð á svipaðan hátt og penslar til að draga upp myndir. Í erindinu verður fjallað um rannsóknir og niðurstöður Elsu E. Guðjónsson og innihald bókarinnar. Á næstunni mun Þjóðminjasafn Íslands gefa út bók með rannsóknarniðurstöðum Elsu. Ritstjóri bókarinnar er auk Lilju Mörður Árnason.