Leiklist í víðu samhengi

Rannveig Björk Þorkelsdóttir

Leiksýning sem kennslufræðilegt afl – hvað þarf til?

Rannveig Björk Þorkelsdóttir, dósent, MVS HÍ og Jóna Guðrún Jónsdóttir, aðjunkt, MVS HÍ

Að horfa á leikrit getur hjálpað okkur að skilja sögu, menningu og samfélag í heild um leið og það hjálpar nemendum að þroskast sem persónur að taka þátt í að skapa og flytja eigin texta og annarra; að geta gagnrýnt og rökrætt leikið efni á sviði á uppbyggjandi hátt og sett það í menningarlegt og sögulegt samhengi. Leiklist getur haft félagsleg, fagurfræðileg og tilfinningaleg áhrif á fólk. Að auki stuðlar leiklist og leiksýning að skilningi á menningararfi og listrænum verðmætum sem felast í leikbókmenntum og leiksýningum. Markmið rannsóknarinnar, Leiksýning sem kennslufræðilegt afl, er að stuðla að aukinni þekkingu í listkennslu með því að skoða hvort og hvernig leiksýning getur verið notuð sem kennslufræðilegt afl, og hvað þarf til,  og um leið að auka aðgengi ungs fólks að leikhúsi. Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna nr. 31 er talað um að öll börn eigi rétt á þátttöku í menningarlífi. Menningarlæsi og menningarþátttaka eru talin veigamikil atriði í uppvexti barna og unglinga og þarf aðgengi að menningarþátttöku að vera tryggð. Aðgengi þeirra að menningu eykur þeim víðsýni og umburðarlyndi, og þátttaka í menningarstarfi eykur vitund um lýðræði, réttlæti og sögulegt samhengi. Spurningin sem við viljum velta fyrir okkur í þessu erindi er: Hvað þarf leiksýning að bjóða upp á til að geta kallast kennslufræðilegt afl (Theater in education)?

List augnabliksins. Börn og leikhús, rannsókn á gildi leiklistar í skólastarfi

Jóna Guðrún Jónsdóttir, aðjunkt MVS HÍ og Rannveig Björk Þorkelsdóttir, dósent, MVS HÍ

Miklar breytingar hafa orðið í menntamálum á Íslandi síðustu áratugi. Til að takast á við áskoranir nútíma menntunar þarf skólakerfið fjölbreytt tæki og tól til að koma til móts við nemendur. Það er hægt t.d. í gegnum listir. Í þessu erindi gefum við innsýn í yfirstandandi rannsóknarverkefni þar sem tilgangur og markmiðið er að öðlast skilning á viðhorfi, reynslu og áhuga kennara og nemenda á að nota kennsluaðferðir leiklistar í kennslu fyrir nemendur á miðstigi grunnskóla. Sérstaða leiklistarinnar felst í því að nemendur vinna jöfnum höndum með vitsmuni, sköpun og líkamlegt atgervi. Þannig er hún umbreytandi og getur styrkt samfélagslegan og tilfinningalegan þátt nemenda. Vísindalegur ávinningur rannsóknarinnar er m.a. fólgin í því að efla listkennslu í skólakerfinu og starfsþróun kennarans ásamt því að stuðla að rannsóknum á sviði menningar og lista. Rannsóknin byggir á eigindlegri rannsóknarhefð og fellur undir hönnunarmiðaða rannsókn (e. Design-Based Research, DBR) á grunni félags- og menningarkenningar. Við teljum að hönnunarmiðuð rannsóknarnálgun sé leið til að þróa kennsluhætti og námsefni í samstarfi við þá kennara sem taka þátt. Frumniðurstöður sýna að aðferðir leiklistar geta nýst nemendum og kennurum þar sem kennarar geta haft áhrif á kennsluefnið og tekið þátt í að móta það og þar með eflt notkun leiklistar sem kennsluaðferð á miðstigi grunnskóla.

Leikritun í kennslu sem skapandi spunaferli

Ólafur Guðmundsson, aðjunkt MVS HÍ

Í þessu erindi mun ég kynna þróunarverkefni sem ég hef unnið að undanfarin ár í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Verkefnið gengur út á að opna huga nemenda í leiklist fyrir leikritun sem skapandi spunaferli og þjálfa þau í að skrifa senur og stutt leikrit sem sett eru upp í leiklistaráföngum. Hugmyndin að verkefninu sprettur út frá þremur leiklistaráföngum. Í fyrsta lagi er það senuvinnuáfangi með það að markmiði að nemendur vinni með senur úr ýmsum leikritum og nálgist þannig persónusköpun og vinnu með fyrir fram skrifaðan texta. Í öðru lagi er það áfangi sem ég kalla Barna- og unglingaleikhús. Þar er markmiðið að skapa leiksýningu sem farið er með í grunnskóla eða leikskóla í nágrenni MH. Í þriðja lagi er það leikritunaráfangi þar sem ég vinn markvisst með þessar aðferðir í leikritun. Þær aðferðir og hugmyndir sem ég kynni spretta út úr þessari þróunarvinnu. Ég hef stuðst við ýmsar aðferðir og hugmyndir annarra í þessari vinnu, einkum frá Noël Greig, og mun ég kynna þær stuttlega í málstofunni. Það sem er markvert við þetta starf er að ég hef áttað mig á hversu gagnlegt og gefandi það getur verið fyrir nemendur að komast upp á lag með að skrifa texta á þennan hátt. Það getur hjálpað þeim mikið í vinnu með persónusköpun og að skilja þær aðferðir og hugmyndir sem liggja þar að baki. Þar vísa ég í aðferðir Konstantíns Stanislavskis um vinnu leikarans. Að auki eflir þetta ritfærni og skapandi skrif.