Textíll: Sjálfbærni, nám, verndun og varðveisla II

 Ásdís Jóelsdóttir

 Rannsóknarstofa í textíl

 Vefsíða – Sjálfbærar og umhverfisvænar textílaðferðir

 Kristína Berman, meistaranemi MVS HÍ. Leiðbeinandi: Ásdís Jóelsdóttir, lektor MVS HÍ

Höfundur vann verkefni til MT-gráðu á námskeiðinu Sjálfstætt verkefni í list- og verkgreinum með áherslu á textíl. Fyrir einu ári fékk höfundur styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til að vinna að rannsókn á náttúrulitun undir leiðsögn Ásdísar Jóelsdóttur, lektors í textíl við MVS HÍ. Í kjölfar þeirrar vinnu hafði höfundur tækifæri til að nýta þá rannsókn og prufa að kenna efnið með nemendum í starfsnámi sínu í þeim tilgangi að hanna síðan náms- og kennsluefni í formi vefsíðu. Á vormisseri 2022 vann höfundur síðan að hönnun vefsíðunnar. Rannsóknin bar heitið „Sjálfbærar og umhverfisvænar textílaðferðir“ þar sem prófaðar voru textílaðferðir til náttúrulitunar en litagjafarnir voru þeir sem finna má í nánasta umhverfi okkar, hér jurtir og ryð. Markmiðið var síðan að nýta niðurstöðurnar til textílkennslu. Höfundi gafst tækifæri til að nýta litunaraðferðirnar sem fengust með rannsókninni með nemendum í raunverulegum aðstæðum og á þeim tímaramma sem skólastarf býður upp á. Þær niðurstöður voru síðan nýttar til að útbúa náms- og kennsluefni fyrir byrjendur og lengra komna í sjálfbærum og umhverfisvænum textílaðferðum. Vefsíðan er einföld í framsetningu og myndræn þannig að innihaldið höfði til ólíkra einstaklinga óháð tungumálakunnáttu og aldri. Í erindinu verður fjallað um markmið, gerð og innihald vefsíðunnar.

Skapandi vettlingaprjón fyrir byrjendur

Sara Birgitta Magnúsdóttir, meistaranemi MVS HÍ

Vettlingaprjón hefur í gegnum tíðina verið vinsælt prjónaverkefni í grunnskólum enda eru vettlingar eitthvað sem allir þurfa á að halda og því nytsamleg prjónakunnátta. Til eru nokkrar prjónabækur sem innihalda uppskriftir fyrir vettlinga þar sem mögulega má nota einstakar uppskriftir til kennslu fyrir grunnskólanemendur. Síðan nýtist bókin ekki að öðru leyti. Auk þess þyrfti mögulega að endurgera uppskriftina til þess að hún höfði til nemenda. Í Aðalnámskrá grunnskóla er lögð áhersla á eigin sköpun þar sem fylgt er eftir hugmynd til fullvinnslu. Lítið er um prjónabækur eða námsefni þar sem unnið er markvisst með skapandi vettlingaprjón. Því er þörf fyrir kennslubók eða kennsluhefti sem er sérstaklega ætlað fyrir vettlingaprjón með áherslu á skapandi nálgun og þar sem verkefninu er fylgt eftir frá hugmynd að fullvinnslu. Út frá þessari hugmynd og þörf var farið af stað með verkefnið Skapandi vettlingaprjón fyrir byrjendur og eftirfarandi rannsóknarspurningu varpað fram: Hvernig má kenna nemendum á mið- og unglingastigi grunnskóla skapandi vettlingaprjón? Við innihald og uppbyggingu kennsluheftisins var tekið mið af hæfniviðmiðum í Aðalnámskrá grunnskóla og auk þess var leitað heimilda í útgefnum prjónabókum. Unnið er út frá því að nemendur hafi þegar lært grunnatriði í prjóni og geti, í gegnum kennsluheftið, bætt við þekkingu sína, þróað eigin hugmynd og hannað og prjónað vettlingapar eftir eigin uppskrift. Markmiðið er að nemendur skrái hugmynd sína og samsetta vettlingauppskrift í vinnuskýrslu sem auðveldar þeim að fylgja eftir vinnuferlinu frá hugmynd að fullvinnslu.

Textíll í mynd

Judith Amalía Jóhannsdóttir, meistaranemi MVS HÍ

Í rannsókninni Textíll í mynd eru tekin fyrir þrjú meginsvið textílgreinarinnar: Vefnaður, prjón og þrykk. Um er að ræða námsefni sem samanstendur af tólf kennslumyndböndum fyrir börn á grunnskólaaldri. Þrjú myndbönd eru lengri og innihalda umfjöllun um sögu og hefð hvers af fyrrnefndum þremur sviðum. Níu myndbönd eru styttri og lýsa stökum verkefnum sem nemendum er ætlað að vinna að, þ.e. þrjú verkefni af hverju áðurnefndum sviðum. Með því að nota þessa þrískiptingu og raða verkefnunum niður eftir þessum þremur yfirsviðum er markmiðið að auka skilning nemenda á því að hver textílaðferð fyrir sig á sína sögu og hefðir. Tilgátan sem býr að baki verkefninu er sú að textílnám verði markvissara og ánægjulegra fyrir nemendur þegar þeir gera sér ljóst að sú tækni og þær aðferðir sem þeir tileinka sér eru hluti af langri og ríkulegri hefð. Verkefni sem kann að virðast lítilvægt og óáhugavert eitt og sér getur orðið stórmerkilegt þegar það er skoðað í samhengi við sögulegar hliðstæður. Með slíkum samanburði er vonast eftir því að nemendur skilji betur tilganginn með verkefninu og fái þar með aukna hvatningu. Myndböndin tólf eru hugsuð sem viðbót við fremur lítið framboð af íslenskum kennslumyndböndum um textílaðferðir sem ætluð eru grunnskólabörnum. Í erindinu verður fjallað um gerð og innihald kennslumyndbandanna og hver sé ávinningurinn af slíku námsefni.

Útsaumspakkningar til varðveislu og sölu

Lára Magnea Jónsdóttir, textílhönnuður

Tilgangur verkefnisins var að útbúa söluvöru í tengslum við sýninguna „Karólína vefari“, en sýningin var samstarf milli Borgarsögusafns Reykjavíkur/Árbæjarsafns og Heimilisiðnaðarfélags Íslands. Verkefnið gekk út á það að rannsaka útsaumsmynstur Karólínu Guðmundsdóttur vefara og vinna útsaumspakkningar til sölu. Gerður var samstarfssamningur milli höfundar og Heimilisiðnaðarfélags Íslands um verkefnið. Höfundur skoðaði gögn Karólínu, bæði er varðar útsaumsgerðir, útsaumsmynstur, garn og útsaumsefni. Fyrir valinu urðu nokkur mynstur sem gætu verið aðgengileg fyrir alla, reynda sem óreynda. Valið var einnig að vinna eingöngu með krosssaum. Garn og strammi var valið saman og eftir töluverða yfirlegu var ekkert íslenskt hráefni sem kom til greina. Litasamsetningar voru hugsaðar þannig að flestir gætu fundið það sem félli að þeirra smekk. Umbúðir voru hafðar plastlausar og reitamynstur skýr og stór svo auðvelt væri að vinna eftir þeim. Verkefnið var krefjandi í vinnslu og margar áskoranir sem þurfti að takast á við í vinnuferlinu. Niðurstaðan urðu 18 mismunandi útsaumspakkningar sem hafa selst vel. Í erindinu verður fjallað um þær áskoranir sem fylgdu verkefninu og áherslur í verndun handverks og viðhaldi á sölumarkaði séð til framtíðar.