Rannsóknir á verk- og starfsmenntun

Elsa Eiríksdóttir

RannVERK

Í málstofunni verður fjallað um tilgang rannsókna á verk- og starfsmenntun á Íslandi og sérstaklega hvernig rannsóknir geta nýst og verið nýttar af skólasamfélaginu, atvinnulífinu og stefnumótunaraðilum. Málstofan er á vegum rannsóknarstofu um verk- og starfsmenntun, RannVERK, og verður með óhefðbundnu sniði þar sem lögð verður áhersla á umræður. Sjónum verður beint að ólíkum áherslum í gagnasöfnun og rannsóknum á sviði starfsmenntunar og hvernig mætti stuðla að betri nýtingu hvoru tveggja. Jón Torfi Jónasson, fyrrverandi prófessor við Menntavísindasvið HÍ, mun hafa framsögu um efnið á málstofunni en í framhaldi munu Helen Gray hjá Iðunni fræðslusetri og Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla, flytja styttri innlegg um efnið út frá undangenginni umræðu tveggja rýnihópa. Rýnihóparnir voru haldnir til að undirbúa umræður á málstofunni og skoða útgangsspurningar málstofunnar með fulltrúum af vettvangi starfsmenntamála. Fyrri umræðufundurinn var með aðilum úr atvinnulífinu og haldinn í samvinnu við Samtök iðnaðarins. Síðari umræðufundurinn var með fulltrúum skólasamfélagsins. Eftir framsögu og innlegg verða almennar umræður á málstofunni, þar sem bæði verður byggt á ramma sem lagður verður fyrir umræðuhópana og því efni sem þar kom fram. Ný heimasíða RannVERK verður opnuð formlega. Umræðustjórn verður í höndum Elsu Eiríksdóttur, dósents á Menntavísindasviði HÍ, og í lokin verður stutt samantekt á efninu.

Rannsóknir á verk- og starfsmenntun:  Til hvers og fyrir hvern?

Jón Torfi Jónasson, prófessor emeritus MVS HÍ

Erindið mun fjalla um rannsóknir á verk- og starfsmenntun á Íslandi almennt, en sjónum verður sérstaklega beint að umræðu um tilgang þeirra og hagnýtingu fyrir vettvang og stefnumótun. Gengið verður út frá tveimur tengdum spurningum. (1) Hver eru brýnustu viðfangsefni rannsókna á þessu sviði á Íslandi? (2) Hvernig geta rannsóknir á verk- og starfsmenntun, bæði á Íslandi og annars staðar, stutt við þróun starfsmenntunar til framtíðar? Lögð verður áhersla á samtal og samvinnu við þá sem starfa á vettvangi og koma að stefnumótun í þessum málaflokki. Átt er þá sérstaklega við atvinnulífið og framhaldsskóla, en einnig menntamálayfirvöld. Byggt verður á umræðu tveggja rýnihópa af vettvangi, annars vegar úr atvinnulífinu og hins vegar úr skólasamfélaginu og í framhaldi munu þrír aðilar af vettvangi flytja styttri innlegg um efnið út frá framsögunni og undangenginni umræðu rýnihópanna. Á síðustu áratugum hefur starfsmenntakerfið á Íslandi glímt við ýmsar áskoranir og á undanförnum áratug hafa verið gerða ýmsar breytingar á framhaldsskólastiginu sem og lagaramma starfsmenntunar sem ekki er útséð um hvernig munu skila sér. Eins hefur spunnist töluverð umræða um stjórnsýslu, stöðu og framtíð starfsmenntunar. Aftur á móti hafa rannsóknir á starfsmenntun lítið verið ræddar og skortur á upplýsingum gjarnan torveldað umræðu – sérstaklega um horfur og stefnu til framtíðar. Markmiðið með málstofunni er að hvetja til samtals og samvinnu um þessi mál og vekja athygli á mikilvægi rannsókna á verk- og starfsmenntun.