Námsmat, skólagerð og skuldbinding leikskólakennara

Ingileif Ástvaldsdóttir

Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs

Menntamálastofnun vinnur nú, í samráði við mennta- og barnamálaráðuneyti, að þróun og útfærslu á námsmati sem leysa skal samræmd könnunarpróf af hólmi. Hugmyndin er sambland matstækja sem notuð verði af öllum skólum en einnig valfrjáls matstæki sem kennarar geti nýtt í almennu skólastarfi. Hluti af vinnu við undirbúning nýs námsmats fólst í rannsókn á sjónarmiðum hagsmunaaðila í skólasamfélaginu.

Sjónarmið skólasamfélags um námsmat:  Eigindlegur hluti

Guðrún Birna Einarsdóttir, gæðastjóri, Nói Kristinsson, Guðbjörg Rut Þórisdóttir, Katrín Friðriksdóttir, Inga Úlfsdóttir,  Skúli Pétursson og  Auðun Valborgarson, doktorsnemi, MVS HÍ. Höfundar eru starfsmenn Menntamálastofnunar

Hér verður fjallað um niðurstöður úr samráðsfundum og rýnihópaviðtölum sem voru hluti af  rannsókninni. Haldnir voru 7 rýnifundir með 14 til 35 þátttakendum úr hópi kennara, annars starfsfólks skóla og forsjáraðila og einnig 10 rýnifundir með 6 til 7 nemendum. Fulltrúar úr skólasamfélaginu voru tilnefndir af fræðsluskrifstofunum og nemendur tilnefndir af skólunum. Meginstef í sjónarmiðum kennara og forsjáraðila voru mikilvægi námsmats í grunnþáttum í íslensku og stærðfræði, niðurstöður sem gefa kost á samanburði á stöðu nemenda, að niðurstöðurnar séu leiðbeinandi, að kennarar hafi aðgang að sameiginlegum prófabanka/verkfærakistu og að mat sé framkvæmt á tilteknu tímabili frekar en tiltekna daga. Hjá nemendum voru meginþemu að námsmat þyrfti að vera fjölbreytt, að unnt sé að sjá stöðu sína samanborið við heild, að endurgjöf bendi á hvernig hægt sé að bæta sig, og að námsmat sé samræmt milli skóla til að tryggja að allir nemendur sitji við sama borð. Nemendur töldu almennt skorta skýra endurgjöf að loknu námsmati og að notkun á hæfniviðmiðum væri ómarkviss þar sem lítill skilningur væri á eðli þeirra, matsviðmið of opin og víð og skortur á samræmi milli skóla.

Sjónarmið skólasamfélags um námsmat: Megindlegur hluti

Nói Kristinsson, sérfræðingur, Guðrún Birna Einarsdóttir, Auðun Valborgarson, doktorsnemi, MVS HÍ, Inga Úlfsdóttir og Sigurgrímur Skúlason, auk þess eru allir höfundar starfsmenn Menntamálastofnunar

Hér verður fjallað um niðurstöður úr spurningalista- eða viðhorfskönnun um námsmat sem voru hluti af rannsókninni. Hlekkur á viðhorfskönnun um námsmat var sendur á skólastjóra og þeir beðnir um að áframsenda á kennara og foreldra og bjóða þeim að taka þátt. Svör bárust frá 100 skólastjórnendum, 434 kennurum og 2882 forsjáraðilum. Notaðar voru 25 staðhæfingar sem lutu að ólíku hlutverki eða notkun á námsmati, byggðar á hugmyndum úr íslensku efni tengdu námsmati og erlendum fræðilegum skrifum. Heilt á litið eru viðhorf til námsmats jákvæð. Mest sátt ríkir um að tilgangur námsmats eigi að vera að finna nemendur sem þurfa aukinn stuðning eða þurfa á meira krefjandi námsefni að halda, að nauðsynlegt sé að fylgjast með stöðu nemenda í einstökum námsgreinum og námsframvindu nemenda og að niðurstöður úr námsmati skuli vera nýttar til þess að fá upplýsingar um stöðu menntakerfisins almennt. Ólíkari sjónarmið komu fram um birtingu niðurstaðna á stöðluðu eða markbundnu formi, hvaða upplýsingar skuli birta um skóla eða sveitarfélag og framkvæmd námsmats. Niðurstöðurnar draga fram mikilvægi þess að miðlægt námsmat bjóði upp á fjölbreytileg matstæki og endurgjöf.

Stjórnunarhættir í heildstæðum grunnskóla: Þriggja landa sýn

Ingileif Ástvaldsdóttir, aðjunkt MVS HÍ

Um er að ræða samstarfsverkefni þriggja háskóla og þriggja grunnskóla í Wales í UK, á Spáni og Íslandi. Rannsókninni er bæði ætlað að auka skilning á starfsháttum heildstæðra skóla (1.–10. bekk) og að styrkja þann þekkingargrunn sem þegar er til um kennsluhætti og stjórnun slíkra skólagerða. Markmiðið er að varpa ljósi á möguleg tengsl stjórnunar- og kennsluhátta á líðan nemenda í löndunum þremur. En niðurstöður nokkurra rannsókna hafa sýnt fram á að skipulag heildstæðra skóla hafi jákvæð áhrif á líðan og nám nemenda. Rannsóknin  skiptist í þrjá hluta. Í þeim fyrsta var lagður fyrir spurningalisti fyrir nemendur í 7. bekk í einum skóla í hverju landi um líðan þeirra. Í öðrum hluta voru tekin viðtöl við 12 skólastjórnendur[A1] , bæði í heildstæðum grunnskólum og í skólum af annarri gerð, í löndunum þremur og í þeim þriðja voru gerðar vettvangsathuganir og tekin rýnihópaviðtöl við kennara. Í þessari málstofu verður sjónum einkum beint að stjórnunarháttum. Niðurstöður benda til að þrátt fyrir að stjórnskipulag og skipurit skólanna sé mismunandi í löndunum þremur þá virðast áskoranir skólastjóranna til að tryggja velferð og framfarir nemenda ekki vera frábrugðnar á milli landa. Skólastjórar kalla eftir formlegum vettvangi þar sem þeir geta leitað eftir faglegum stuðningi og fræðslu og deilt hagnýtum ráðum sín á milli um það hvernig dreifa megi forystu og efla samstarf, óháð því hvort þeir starfa við heildstæða skóla eða skóla með einu eða tveimur skólastigum.

Skuldbinding leikskólakennara til vinnustaðar

Rakel Ýr Isaksen, aðstoðarleikskólastjóri Álfaheiði Kópavogi. Leiðbeinendur: Ingileif Ástvaldsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ og Kristján Ketill Stefánsson, lektor, MVS HÍ

Markmið rannsóknar var að greina tengsl hvataþátta (sem framkalla starfsánægju leikskólakennara) og hollustuþátta (sem geta valdið óánægju í starfi) við skuldbindingu leikskólakennara til vinnustaðar. Tilgangur var að bæta stöðu þekkingar og koma auga á vísbendingar um hvernig megi varðveita hæfni og sérþekkingu starfandi leikskólakennara innan fyrsta skólastigsins. Rannsóknaraðferð var megindleg, rýnt var í fyrirliggjandi gögn og þau greind með lýsandi tölfræði og fjölbreytuaðhvarfsgreiningu. Gagnasafnið voru svör 1250 leikskólakennara víðs vegar á Íslandi við spurningakönnun Skólapúlsins fyrir leikskóla, sem svarað var vorin 2020 og 2021. Tvær stefnutilgátur voru prófaðar, annars vegar að: Leikskólakennarar sem upplifa starfsánægju eru líklegir til að sýna skuldbindingu til vinnustaðar. Hins vegar að: Leikskólakennarar sem upplifa mikið álag í starfi eru ólíklegir til að sýna skuldbindingu til vinnustaðar. Tvíþáttakenning (e. Motivation hygiene theory) Frederik Herzberg og félaga var lögð til grundvallar varðandi skiptingu þáttanna í tvö líkön, annars vegar jákvætt hvataþáttalíkan og hins vegar neikvætt hollustuþáttalíkan. Niðurstöður rannsóknar bentu til að hvataþættirnir: starfsandi, jákvæðar áskoranir í starfi og ræktun mannauðs ýti undir starfsánægju og gegni lykilhlutverki fyrir skuldbindingu leikskólakennara til vinnustaðarins. Niðurstöðurnar gáfu jafnframt til kynna að vinnuálag og starfsumhverfi leikskóla gegni hlutverki í orsakakeðju sem dregur úr jákvæðum áhrifum hvataþátta og veldur mögulega ótímabæru brotthvarfi leikskólakennara úr starfi. Brýnt er að leita leiða til að styðja við hvatabundna þætti á fyrsta skólastiginu og draga úr álagsvekjandi þáttum í starfsumhverfi leikskóla.


 [A1]Vantar tölu