Gæði kennslu í grunnskólum á Íslandi og Norðurlöndum

Berglind Gísladóttir

Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs

Stigskiptur stuðningur í kennslu: Greining á gæðum kennslu á unglingastigi

Birna Svanbjörnsdóttir, dósent HA og Sólveig  Zophoníasdóttir, aðjunkt HA

Almennt er viðurkennt að gæði kennslu skipta máli fyrir nám nemenda. Hvað nákvæmlega er átt við með gæði kennslu er hins vegar umdeilt en vaxandi samstaða er um að gæði kennslu einkennist af stigskiptum stuðningi, faglegum kröfum, skýrum markmiðum  og framsetningu efnis og frjóum námsaðstæðum. Norrænum menntakerfum er oft lýst sem einsleitum en niðurstöður rannsókna þar sem upptökum úr kennslu ásamt fleiri gögnum úr skólastofunni hefur verið safnað um kennsluhætti kennara og samskipti í kennslustofum á Norðurlöndum gefa til kynna ákveðinn mun á milli landa, skóla og námsgreina. Hér á landi benda nýlegar skólastofurannsóknir til þess að bein kennsla og einstaklingsbundin vinna þar sem vitsmunalegar kröfur eru litlar og þátttaka nemenda takmörkuð einkenni kennsluhætti. Í erindinu eru kynntar frumniðurstöður íslensks hluta norrænnar rannsóknar sem byggja á greiningu á gæðum kennslu og snúa að stigskiptum stuðningi. Upptökur úr 120 kennslustundum á unglingastigi í íslensku, samfélagsfræði og stærðfræði (haust 2018) voru greindar og kóðaðar með hliðsjón af PLATO greiningarrammanum sem var hannaður og notaður til að greina gæði kennslu. Niðurstöðurnar eru einnig bornar saman við niðurstöður greininga á upptökum úr sænskum kennslustundum. Niðurstöður þessarar rannsóknar virðast staðfesta fyrirliggjandi niðurstöður úr rannsóknum í íslenskum skólum og eru vísbendingar um að nokkur munur sé á gæðum kennslu milli námsgreina þegar horft er til þátta í stigskiptum stuðningi. Niðurstöðurnar geta skapað grundvöll til samræðna um gæði kennslu og verið leiðarljós í starfsþróun kennara á vettvangi og í kennaranámi.

Samræður í kennslustund

Berglind Gísladóttir, lektor MVS HÍ

Rannsóknin er hluti af Norrænu öndvegissetri um gæði kennslu á Norðurlöndum (Quality in Nordic Teaching). Myndbandsgögnum var safnað í tíu íslenskum skólum sem valdir voru með hentugleika í þeim tilgangi að reyna að tryggja fjölbreytileika úrtaksins. Þessi rannsókn byggir á greiningu myndbandsgagna úr 35 kennslustundum í 8. bekk í stærðfræði hjá ellefu stærðfræðikennurum. Til að meta gæði kennslunnar var greiningarramminn PLATO (Protocol for Language Arts Teaching Observation) nýttur við greiningu myndbandsgagnanna.  PLATO inniheldur 12 gæðaviðmið sem metinn eru á fjögurra punkta kvarða. Eitt þeirra gæðaviðmiða er samræður í kennslustundum. Í þessu erindi er litið til þess hvernig samræður í kennslustund birtast í stærðfræðikennslu í íslenskum grunnskólum. Í greiningarrammanum beinast „samræður í kennslustundum“ að þeim tækifærum sem nemendur hafa til samræðna við kennarann og á meðal jafningja í kennslustundum. Viðmiðið beinist að innihaldi samræðnanna sjálfra, þ.e. að hvaða marki þær eru markvissar og uppbyggjandi eða ómarkvissar og gagnslitlar. Auk þess tekur gæðaviðmiðið til þess hvernig kennarinn vinnur með hugmyndir nemenda, þ.e. að hve miklu leyti hann samþykkir órökstudd eða óskýr svör nemenda eða hvort hann virkjar hugmyndir nemenda og hvetur þá til að skýra og rökstyðja mál sitt. Rannsóknir hafa sýnt að samræður í kennslustund eru afar mikilvægur þáttur í námi nemenda og nauðsynlegt sé að nemendur fái tækifæri til greinandi og skapandi hugsunar og þurfi að færa rök fyrir máli sínu. Niðurstöður greininga úr íslenskum kennslustundum sýna að það er rými til bóta þegar kemur að samræðum í kennslustundum í stærðfræðikennslu á unglingastigi.  

Nám og kennsla á netinu: Viðbrögð norrænna unglingastigskennara við upphaf COVID-19 faraldursins

Sólveig Zophoníasdóttir, aðjunkt HA

Í heimsfaraldrinum COVID-19 stóðu skólar frammi fyrir því að þurfa að breyta hefðbundnu skólastarfi með stafrænum lausnum, færa skólastarf á form netkennslu og skapa stafrænt námsumhverfi á ótrúlega skömmum tíma. Í erindinu verður sagt frá niðurstöðum rannsóknar sem gerð var til að varpa ljósi á reynslu norrænna kennara af upphafstímabili COVID-19 heimsfaraldursins. Þrjár rannsóknarspurningar voru hafðar að leiðarljósi í rannsókninni: (1) Hvaða áskoranir og kennsluaðferðir er hægt að greina í lýsingum kennara á kennslu á meðan heimsfaraldurinn braust út? (2) Hvaða hlutverk virðist stafræn tækni hafa þegar kemur að þessum áskorunum og kennsluaðferðum? (3) Hvernig má skilja viðbrögð og forgangsröðun í skólastarfi þessara norrænu skóla á upphafstímabili heimsfaraldursins? Fræðileg umgjörð rannsóknarinnar byggir á hugmyndum Biesta um megintilgang menntunar og þrjú meginsvið hennar: að öðlast hæfni (qualification), félagsmótun (socialization) og manneskjan sjálf (subjectification). Rannsóknargögnin eru eigindleg og samanstanda af einstaklingsviðtölum sem tekin voru á neti við alls 17 unglingastigskennara frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi og Svíþjóð. Viðtalsgögnin voru flokkuð og þau aðgreind í þrjú meginþemu sem tengdust skipulagi kennslu, samræðum og mati á árangri. Niðurstaða greiningarinnar leiddi í ljós að ásamt því að hafa aðgang að stafrænum búnaði við upphaf kreppunnar ultu viðbrögð skóla þeirra kennara sem tóku þátt í rannsókninni á hæfni þeirra til að bregðast við á sjálfstæðan hátt og finna faglegar lausnir við upphaf heimsfaraldursins. Kennararnir sátu ekki og biðu eftir leiðbeiningum um hvað ætti að gera heldur tóku frumkvæði og stýrðu aðstæðum eins vel og þeim var unnt með því að nýta sér faglega hæfni sína.

Hvað einkennir framúrskarandi kennslustundir? Hugræn virkjun í átta norrænum kennslustundum í stærðfræði

Jóhann Örn Sigurjónsson, doktorsnemi, MVS HÍ

Markmið rannsóknarinnar var að auðga skilning á samskiptum kennara við nemendur í kennslustundum með hugræna virkjun (e. cognitive activation) á háu stigi. Átta kennslustundir sem metnar voru framar öðrum í að virkja hugsun nemenda samkvæmt PLATO greiningarrammanum voru valdar með markmiðsúrtaki. Kennslustundirnar koma úr norrænum myndbandsgagnagrunni með 125 kennslustundum í stærðfræði á unglingastigi. Greindar voru upptökur af kennslustund átta mismunandi kennara frá Danmörku, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Samskiptin voru greind með þemagreiningu og snið kennslustundanna með innihaldsgreiningu. Bekkjarumræður og hópvinna voru algengustu sniðin í kennslustundunum. Þó innihéldu allar kennslustundir einhverja stuttlega beina kennslu. Í nokkrum kennslustundum kom einstaklingsvinna fyrir, en þá í stuttum sprettum og aldrei lengur en 15-20 mínútur í senn. Þrjú þemu voru þróuð til að lýsa einkennum samskiptanna: 1) fjölbreyttar tegundir samskipta og tíð skipti á milli þeirra, 2) endurgjöf til leiðsagnar og skýr hlutverk nemenda, og 3) tengslasköpun milli hugtaka í námsefni við bæði heim stærðfræðinnar og reynsluheim nemenda. Niðurstöðurnar eru í nokkru samræmi við fyrri rannsóknir en varpa skýrara ljósi á hvernig hugræn virkjun birtist í kennslu á Norðurlöndum. Þá geta þær verið nytsamlegar fyrir kennaramenntun og starfsþróun kennara með það markmið að styrkja þennan þátt í kennslu og stuðla þannig að því að fleiri nemendur upplifi ánægju og árangur í stærðfræðinámi sínu.