Ekki öll eins en jafnmikils virði – Lýðræði í styðjandi/hvetjandi leikskólaumhverfi

Kristín Dýrfjörð

LeikA – Háskólinn á Akureyri

Þar sem öll geta verið þau sjálf. Jafnrétti í leikskólastarfi

Anna Elísa Hreiðarsdóttir, lektor HA

Jafnrétti hefur verið opinbert viðfangsefni leikskóla frá og með aðalnámskrá 1999. Í námskránni 2011 er jafnrétti skilgreint enn skýrar sem viðfangsefni leikskólakennslu og er nú ein af sex grunnstoðum menntunar á öllum skólastigum. Markmið rannsóknarinnar sem hér er kynnt er að skoða af hverju og hvernig valdir leikskólakennarar vinna með jafnrétti í leikskólastarfi. Um er að ræða forkönnun sem er ætlað að leggja drög að stærri rannsókn og voru þátttakendur valdir með markmiðsúrtaki, allt fólk sem á það sameiginlegt að vinna markvisst með jafnrétti í starfi sínu og hefur gert um árabil. Fólkið svaraði tveimur rannsóknarspurningum, í fyrsta lagi; Hver er krafan um að leikskólakennarar vinni með jafnrétti? Í öðru lagi: Hvernig geta leikskólakennarar unnið með jafnrétti? Niðurstöður sýna að kennararnir fimm afgreiða fyrri spurninguna með því að vísa í aðalnámskrá allra skólastiga og aðalnámskrá leikskóla en einnig áherslur sveitarfélaga og segja kennara ekki hafa val um að vinna með jafnrétti, það er hluti af starfsskyldum þeirra. Seinni spurningin hefur fjölbreyttari svör en að sama skapi eru atriði sem koma fram ítrekað og tengjast markvissri nálgun og gagnrýnu samtali starfsfólks, vali á kennsluefni og viðfangsefnum og virðingu fyrir einstaklingunum. Af niðurstöðum má álykta að jafnrétti er, og á að vera, viðfangsefni leikskólakennara, hjá því er ekki komist. Það er einnig ljóst að jafnrétti í leikskóla á sér margar hliðar sem sérhver skóli þarf að vinna með bæði á dýptina og víddina. Þannig eru viðhorf starfsfólks og vinnubrögð hluti af vinnu með jafnrétti og skipulag umhverfis og leikefni hefur áhrif.

Valdeflandi matmálstímar

Guðrún Alda Harðardóttir, leikskólakennari, leikskólinn Aðalþing og Kristín Dýrfjörð, dósent HA

Í erindinu verður fjallað um nálgun leikskólabarna í matmálstímum þar sem þau stýra m.a. hvaða mat þau snæða, hvar þau setjast og samræðum. Samkvæmt rannsóknum eru hefðbundnir matmálstímar leikskóla gjarnan fullorðinsstýrðir, þar sem kennarar ákveða bæði hvar börnin sitja og umræðuefni en í rannsóknum hefur komið fram að börn reyni gjarnan að ná eignarhaldi á samræðunum. Kennarar í leikskólanum Aðalþingi töldu mikilvægt að endurskoða hefðbundið form matartíma með það í huga að stuðla að aukinni valdeflingu barnanna með því að breyta valdahlutföllum í matmálstímum og færa þá frá því að vera kennarastýrðir yfir í aukin áhrif barnanna. Tilgangur rannsóknarinnar er að varpa ljósi á hvernig börnin nálguðust matmálstímann í þessu breytta formi. Rannsóknin er starfendarannsókn undir áhrifum gagnrýninnar kenningar, með áherslu á valdeflingu barna. Rannsóknargögn eru 145 myndbönd sem tekin voru yfir 8 ára tímabil, frá ágúst 2012 til febrúar 2020. Við gagnagreiningu var einblínt á að skoða hvernig börnin nálguðust matmálstímana, hvað einkenndi samræður og samskipti þeirra. Niðurstöður sína að barnstýrðir matmálstímar henta börnum vel og stuðlar að valdeflingu þeirra. Það er áberandi hve börnin voru afslöppuð og glöð í matmálstímunum. Algengt var að þau ræddu sín á milli um gæði matarins á meðan þau borðuðu og almennt borðuðu þau vel. Börnin ræddu einnig um það sem efst var á baugi hjá þeim hverju sinni, umræðuefni voru misjöfn, til dæmis um námið, vináttu, sjálfstæði, leik og reglur. Þau gerðu matmálstímana að sameiginlegu viðfangsefni og samfélagi sem þau tilheyra og eru virkir þátttakendur í.

Athuganir í leikskólum

Helena Sjørup Eiríksdóttir, helenaeiriks@simnet.is, leikskólakennari, Akureyrarbæ og Anna Elísa Hreiðarsdóttir, lektor HA

Athuganir eru mikilvægur þáttur í starfi leikskóla og tilgangurinn margþættur, svo sem að skrásetja framfarir og stöðu, að rýna í námsumhverfi barnanna eða að safna upplýsingum fyrir samræðu við foreldra svo eitthvað sé nefnt. Markmið rannsóknarinnar var að fá skýrari sýn á hvaða leiðir eru notaðar við athuganir í leikskólum og sjónum beint að því í hvaða tilgangi athuganir eru unnar og hvernig þær eru framkvæmdar. Rannsóknin byggir á spurningakönnun meðal starfsfólks leikskóla og unnið var úr 249 svörum við spurningum sem voru ýmist lokaðar eða hálfopnar, hér er unnið að mestu með svör við hálfopnum spurningum. Í kynningunni er lögð áhersla á niðurstöður sem tengjast þeim aðferðum sem styrkja lýðræði og valdeflingu barna. Niðurstöður sýna að fjölbreyttum og ólíkum aðferðum er beitt við athuganir í leikskólum til að fá sem víðasta sýn á börnin. Þær leiðir sem flestir nota eru atferlisathuganir eða uppeldisfræðileg skráning en athuganir eiga undir högg að sækja því starfsaðstæður eru krefjandi og staðlaðir listar taka tíma. Flestallir þátttakendur hafa fengið einhverja þjálfun og/eða fræðslu til að framkvæma athuganir, flestir í námi sínu en einnig á námskeiðum. Athuganir miða að fjölbreyttum markmiðum og starfsfólk með ólíkan bakgrunn í menntun og reynslu framkvæmir athuganir. Niðurstöður vekja spurningar um hlut staðlaðra lista í leikskólastarfi á kostnað aðferða með opnari möguleikum og hvaða áhrif þessi þróun hefur á leikskólastarf með áherslu á þroska, líðan og nám leikskólabarna.

Að skapa örheima í leik með stafrænan efnivið

Kristín Dýrfjörð, dósent HA

Í fyrirlestrinum er skoðað hvernig kóðanleg leikföng eru notuð til að þróa sköpunargáfu í leik barna. Sérstakur gaumur er gefinn að því hvernig börn nota frásagnir sem hluta af leiknum og hvernig persónusköpun og rýmissköpun byggðist á búsetu, félags- og menningarlegum bakgrunni. Byggt er á kenningum um leik og sköpun. Leikur er athöfn þar sem hægt er að fylgjast með sköpunargáfunni þegar hún á sér stað. Einn þáttur sem styður við sköpunargáfu í leikskólaumhverfi er að búa til örheima sem hefur verið bent á að geti stutt þróun frásagna og ýtt undir sundurhverfa hugsun, sem eru talin mikilvægur þáttur sköpunargáfu. Læsi á umhverfi er hluti lýðræðislegs samfélags og mikilvæg stoð í leikskólauppeldi. Gagnasöfnunin fór fram með myndbandsupptökuvélum, Go-pro myndavélum, ljósmyndum, vettvangsskýrslum og rannsóknardagbókum. Þátttakendur voru fimm ára börn í leikskóla sem tóku þátt í sköpunarsmiðjum. Þau lærðu undirstöðuatriði forritunar í gegnum vinnu með vélmenni þar sem skapandi efni og leikur voru lykilefniviður. Upplýsts samþykkis var aflað frá öllum hlutaðeigandi yfirvöldum, kennurum, foreldrum og börnum, og rannsóknin fylgdi viðeigandi siðferðilegum verklagsreglum. Niðurstöður benda til þess að börn noti stafrænan efnivið á skapandi hátt fái þau tækifæri til. Þau gerðu sögur tengdar eigin umhverfi og útbjuggu leiksvið fyrir kóðuðu tækin sem voru mjög staðbundin. Það sama á við um persónur þeirra, þær voru byggðar á barnamenningu. Börnin notuðu efnivið saman sem dæmi legókubba til að byggja þrívíddarumhverfi ofan á tvívíddarleiksviðin. Börnin bjuggu til sínar eigin sögur og léku þær með vélmennunum, sem þau persónugerðu gjarnan.