Afdrif menntaumbóta og námsmat í fræðilegu samhengi

Anna Kristín Sigurðardóttir

Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs

Greining á afdrifum menntaumbóta

Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor MVS HÍ, Gerður G. Óskarsdóttir og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar FVS HÍ

Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna afdrif umbótaverkefna á sviði menntamála. Sjónum var beint að menntaumbótum hjá Reykjavíkurborg fyrsta áratug grunnskólans hjá sveitarfélaginu, árin 1996-2005. Skoðaðar voru samtímalýsingar, einkum í starfsáætlunum og ársskýrslum, á innleiðingu umbótaverkefna tengdum fimm megináhersluþáttum í framtíðarsýn borgarinnar þessi ár. Síðan var leitast við að varpa ljósi á afdrif þeirra og áhrif með hliðsjón af niðurstöðum fyrirliggjandi rannsókna á skólastarfi og öðrum upplýsingum frá síðustu tveimur áratugum. Loks voru aðgerðirnar greindar í ljósi þátta sem fræðimenn hafa talið stuðla að farsælli framkvæmd menntaumbóta yfirvalda. Niðurstöður bentu til að áherslur tengdar ytri umgjörð skólastarfs væru enn við lýði, svo sem einsetnir grunnskólar, breytt hönnun húsnæðis og nemendamötuneyti. Sama átti við um jöfnuð í umgjörð með áherslu á nemendamiðaðar rammafjárveitingar, mannauðsráðgjöf og fjölgun starfsstétta í skólunum, svo sem námsráðgjafa, skólaliða og millistjórnenda. Áhersla á leiðtogahlutverk stjórnenda virtist ekki hafa náð fullri fótfestu. Áhrif stefnu um nám og kennslu undir merkjum einstaklingsmiðaðs náms og skóla án aðgreiningar sýndust meiri í orði en á borði, hugtakið er lifandi í opinberri umræðu. Sú niðurstaða studdi kenningar um sífellda endurtekningu eldri hugmynda og íhaldssemi í kerfinu. Sjálfsmynd nemenda og þættir tengdir henni eru enn í brennidepli og stöðugt kannaðir, en erfitt að meta þróun í þeim efnum. Á heildina litið virtist stefnumörkun og umbótaaðgerðir frá umræddu tímabili engu að síður hafa einkennst af flestum þáttum sem fræðimenn hafa talið farsæla: áhersla var á nám og kennslu, faglega forystu skólastjórnenda, jöfnuð í umgjörð skólastarfs, víðtækt samstarf, samvirkni áhersluþátta og nýtingu hlutlægra upplýsinga og rannsókna.

Námsmatsrammi fyrir grunnskólastigið

Sigurgrímur Skúlason, sérfræðingur, Menntamálastofnun

Námsmat hefur ólíkan tilgang og hlutverk eftir því samhengi sem það gerist í. Engu að síður er algengt að umræður og umfjöllun um námsmat séu út frá þröngu sjónarhorni. Til að ná utan um ólík sjónarmið og væntingar sem fram hafa komið í vinnu við undirbúning að nýju matskerfi fyrir grunnskóla var dreginn upp námsmatsrammi eða heildarmynd af námsmati í grunnskólastigi. Tilgangurinn er einnig að varpa ljósi á ólík hlutverk námsmats og samhengi milli matsækja sem gegna ólíku hlutverki. Námsmatsramminn er skilgreindur út frá því samhengi sem námsmat gerist í. Einkum er horft til þess hvort niðurstöður og endurgjöf taka tillit til einstakra nemenda eða stærra félagslegt samhengi og þess hvort niðurstöður og endurgjöf afmarkast við eitt skipti eða tengist niðurstöðum á öðrum tímapunktum. Út frá þessum forsendum er námsmatsramminn skilgreindur í fimm þrepum: skimun við upphaf skólagöngu, staðbundið mat á stöðu nemenda, almennt stöðu og framvindu nemenda, mat á skólakerfi og mat á stöðu Íslands í alþjóðlegu samhengi.

Námsmatsrammi sem verkfæri til að skilja námsmat í ólíkum löndum

Sverrir Óskarsson, sviðsstjóri, Menntamálastofnun

Það er krefjandi að fjalla um námsmat og fá fram heildstæða mynd af eðli námsmats. Enn flóknara er að reyna að bera saman námsmat á milli landa, ólíkan tilgang, skilgreiningar og draga fram kjarna þess. Í fyrirlestrinum verður fjallað um námsmat ákveðinna landa og aðferðir til að greina fyrirkomulag þess. Hugtakið námsmatsrammi og að hluta til hugtakið námsmatslæsi verða notuð til að fjalla um meginþætti námsmats með gagnrýndum hætti. Fram kemur að námsmatsrammi er nýtilegur við samanburð á námsmati milli landa og til að skilja fyrirkomulag námsmats á Íslandi. Þá getur hann verið nýtilegur sem grunnur til stefnumótunar og ákvarðanatöku varðandi námsmat. Hins vegar kemur í ljós að námsmatsrammi gefur ekki innihaldsríka heildarmynd út frá sjónarhorni nemenda og skólafólks, og unnt að gagnrýna ákveðna þætti aðferðarinnar. Því er jafnframt velt upp hvort hugtakið námsmatslæsi geti nýst betur í umræðu um fyrirkomulag námsmats og ólíkan tilgang þess. Í ljósi þessara tveggja hugtaka verður fjallað um niðurstöður úr samanburðarathugun á námsmatsrömmum átta landa. Dregin verða fram dæmi um námsmatsramma frá Hollandi, Englandi, Danmörku, Portúgal og Frakklandi. Í niðurstöðum kemur fram að tilgangur og fyrirkomulag námsmats milli landa er mjög ólíkt og tilraun til flokkunar á ákveðnum þáttum námsmats er flókin og ófullnægjandi.