Íslensk kennslubókmenntasaga

Jón Yngvi Jóhannsson

Íslenskustofa

Ríkið sem bókaútgefandi. Aðdragandi stofnunar Ríkisútgáfu námsbóka og útgáfa fyrstu lestrarbókanna

Jón Yngvi Jóhannsson, lektor MVS HÍ

Útgáfa kennslubóka fyrir grunnskóla  á Íslandi hefur nokkra sérstöðu þegar hún er borin saman við önnur Evrópulönd. Á Íslandi hefur verið starfandi ríkisútgáfa á námsbókum frá því árið 1937 og ríkið gefur út nær allar kennslubækur fyrir grunnskóla á Íslandi. Saga þessarar útgáfu hefur lítið verið rannsökuð og þær námsbækur sem komið hafa út á vegum ríkisins síðastliðin 85 ár hafa sjaldnast verið settar í samhengi við íslenska bókmenntasögu. Í fyrirlestrinum verða kynntar fyrstu niðurstöður rannsóknarverkefnis um sögu kennslubóka í íslensku sem höfundur vinnur að ásamt öðrum. Fjallað verður um aðdraganda stofnunar Ríkisútgáfu námsbóka og þær hugmyndafræðilegu forsendur sem lágu henni til grundvallar. Þá verður athyglinni sérstaklega beint að fyrstu lestrarbókunum sem útgáfan gaf út á fyrstu starfsárum sínum.  Á árunum 1938-42 komu út fyrstu lestrarbækurnar á vegum Ríkisútgáfunnar, alls 17 hefti. Ritstjóri þeirra var Freysteinn Gunnarsson. Í fyrirlestrinum verða þessar bækur og efni þeirra til umfjöllunar og þær verða tengdar við íslenska skólasögu og sögu íslenskra bókmennta á fjórða áratugnum. Einkum verður athyglinni beint að því hvaða forsendur lágu að baki efnisvali í þessar fyrstu lestrarbækur með hliðsjón af ríkjandi hugmyndum í samtíma þeirra um þjóðerni, stétt, trúarbrögð og menntun. Á útgáfutíma fyrstu lestrarbókanna var íslenskt þjóðerni og þjóðarsjálfsmynd í deiglunni eins og fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á. Lestrarbækurnar eru mikilvægur þáttur í þeirri umræðu en þær eiga sér líka aðra hlið – í þeim birtast nútímalegar hugmyndir ritstjórans um bókmenntir og menntun og um mikilvægi barnabókmennta.

Nauðsynleg leiðindi? Athugun á forsendum  námsefnis um Íslendingasögur

Arngrímur Vídalín, lektor MVS HÍ

Óformlegar kannanir lagðar fyrir nemendur á íslenskukjörsviði Menntavísindasviðs síðustu þrjú ár, um það hvort og þá hvers vegna skuli kenna Íslendingasögur í grunn- og framhaldsskólum, bera allar að sama brunni: ekki aðeins sé það sjálfsagt, heldur sé annað óhugsandi, enda sé þetta sjálfur menningararfur þjóðarinnar. Sömu nemendur viðurkenna jafnframt áhugaleysi á Íslendingasögum og að þeim hafi almennt þótt þær leiðinlegur skólalærdómur – nauðsynleg leiðindi, engu að síður, eftir á að hyggja. Í þessum fyrirlestri verður leitast við að athuga hvaða mynd er dregin upp af Íslendingasögum í námsefni þeim tengdum, einkum í formálum og skýringargreinum skólaútgáfna af sögunum annars vegar og sýnisbóka hins vegar. Með því verður grennslast fyrir um hvort sjá megi hvort nokkur tiltekinn þráður sé til staðar í viðhorfum námsefnishöfunda sem og í ætluðum móttökum hins innbyggða lesanda, og þá ekki síst hvort greina megi í þeim breytileg viðhorf milli tímabila. Þannig má ef til vill komast nær því að greina þau skilaboð sem bæði kennurum og nemendum grunn- og framhaldsskóla eru send með tilteknu námsefni í íslensku, þ.e. hvaða forsendur námsefnishöfundar gefa sér, og þá jafnframt hvort líklegt sé að þær sömu forsendur höfði til nemenda á komandi öðrum aldarfjórðungi tuttugustu og fyrstu aldar.

Þögn er ekki sama og samþykki:  Þáttur hins sagða í skólamálfræði skyldunámsskólanna og áhrif á íslenska málstefnu

Heimir F. Viðarsson, aðjunkt MVS HÍ

Sögulegar rannsóknir á íslenskri málstefnu hafa einkum beinst að tilurð og mótun íslensks málstaðals á 19. öld annars vegar og hins vegar þeirri kennslubókarhefð sem skólamálfræði Björns Guðfinnssonar markaði um og eftir miðja 20. öld. Hefðbundin skólamálfræði varð þó ekki til í tómarúmi og nauðsynlegt er að skoða hana meðal annars í ljósi almennrar skólaskyldu frá 1907. Vísbendingar eru um að skólaskyldan hafi leitt til breytinga á íslenskri málstefnu, sem muni hafa verið einfölduð í takt við þroska nýs markhóps, þar sem talað sé um óviðurkennda málnotkun með afdráttarlausari hætti en áður hafði tíðkast, auk þess að beinast meira að talmáli nemenda. Þetta atriði í íslenskri kennslubókmenntasögu hefur hins vegar verið lítt rannsakað. Í fyrirlestrinum verða skoðaðar fyrstu málfræðibækurnar sem kenndar voru í skyldunámsskólunum á fyrri hluta 20. aldar, þ.á m. bækur sem birtust í Ríkisútgáfu námsbóka, og þær settar í sögulegt samhengi. Áhersla verður lögð á að draga fram á hvaða hátt bækurnar eru frábrugðnar öðrum og mat lagt á þátt þeirra í fyrrnefndum breytingum. Hafa ber í huga að þótt greina megi mun á framsetningu málviðmiða er ekki sjálfgefið að um eiginlega breytingu sé að ræða. Venjan fram til þessa hafði verið að lýsa æskilegum málafbrigðum en fordæmingu máltilbrigða yfirleitt sleppt. Sú útilokandi aðferð „ósýnileikavæðingar“ (e. invisibilisation) eða „útstrokunar“ (e. erasure) sver sig m.a. í ætt við danska kennslubókarhefð. Færa má rök fyrir að hún leiði í raun að sama marki, þar sem þögn er ekki sama og samþykki.