Myndlæsi, listir, lýðræði og gagnrýnin hugsun

Ingimar Ólafsson Waage

Rannsóknarstofa í listkennslufræðum

Sjónarafl: Þróunarverkefni í myndlæsi í Listasafni Íslands

Ragnheiður Vignisdóttir, verkefnisstjóri viðburða og fræðslu við Listasafn Íslands  og Marta María Jónsdóttir, fræðslufulltrúi Listasafns Íslands

Listasafn Íslands hóf á haustmánuðum nýtt þróunarverkefni sem ber heitið Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi en verkefnið miðar að því að auka þekkingu og skilning ungmenna á myndlist og sjónrænum menningararfi þjóðarinnar. Listasafn Íslands er höfuðsafn á sviði myndlistar og gegnir lögbundnu menntunarhlutverki. Með þessu verkefni veitir safnið mikilvæga menntun í samvinnu við skólakerfið þar sem virkilega er stutt við kennslu í mynd- og menningarlæsi með faglegum hætti í beinum tengslum við listaverkaeign þjóðarinnar. Í málstofunni verður þróunarverkefnið Sjónarafl kynnt en það stóð yfir tvær skólaannir 2021–2022 í samstarfi við Barnaskóla Hjallastefnunnar. Í verkefninu eru notaðar kennsluaðferðir sem markvisst þjálfa nemendur í myndlæsi, tjáningu, virkri hlustun og rökhugsun. Þróunarverkefnið með nemendum Hjallastefnunnar gaf tækifæri á því að meta markvisst árangur nemenda sem tóku miklum framförum á tímabilinu þar sem geta þeirra til þess að lesa í myndir, menningu og beita aðferðum myndlæsis varð áberandi góð, sjálfstraust nemenda í tjáningu jókst og færni í rökhugsun. Þá miðar verkefnið einnig að því að skapa þekkingu á íslenskri myndlist sem greinilega sat eftir í hugum nemenda að loknu verkefninu. Nánar verður fjallað um niðurstöður verkefnisins og aðferðafræðina að baki árangursmælingunum. Safnfræðslufulltrúar Listasafns Íslands, Ragnheiður Vignisdóttir og Marta María Jónsdóttir, kynna verkefnið og þann árangur sem náðst hefur með nýrri nálgun í safnfræðslu og kennslu þar sem listaverkin og safnið er nýtt sem námsvettvangur. Enn fremur verður kynnt nýtt námsefni sem unnið var út frá þróunarverkefninu.

Hvað nú? Teiknimyndasaga um skólagöngu á seinni hluta tuttugustu aldar

Halldór Baldursson, sjálfstætt starfandi skopteiknari, listamaður og myndlistarkennari, Myndlistaskólinn í Reykjavík

Í þessu erindi segi ég frá meistaraverkefni mínu þar sem ég rannsakaði hlutverk myndasögunnar í skólastarfi. Viðfangsefnið er tvíþætt, annars vegar er það innihald sögunnar en þar fer ég yfir eigin skólagöngu og skoða námsferilinn í samhengi við kennslufræði þar sem ég hef aðkomu sem nemandi, kennari og listamaður. Hins vegar er það myndasöguformið sjálft sem er til skoðunar og hvernig frásagnarmáti þess og myndmál þess nýtist við að koma þekkingu og fróðleik til skila. Mitt aðalframlag í verkefninu er byggt á reynslu minni sem höfundur samfélagslegs skops og myndskreyttra bóka af öllu tagi síðastliðin 30 ár. Þannig er verkið líka autoethnografísk listrannsókn þar sem mín eigin listsköpun er dregin inn á svið kennslufræðinnar. Einnig legg ég starfskenningu mína sem kennari á borð þar sem ég leitast við að koma óvæntum fróðleik að í sögunni á sambærilegan hátt og getur átt sér stað í kennslustofunni. Við gerð myndasögunnar viðaði ég að mér heimildum úr ýmsum áttum til að dýpka á útkomunni. Ég átti samtöl við fyrrum samnemendur sem gátu gefið minningum mínum aukið vægi. Í sumum tilvikum staðfestu þessi samtöl það sem mig minnti og í öðrum tilvikum fengu þau mig til að endurmeta og setja í nýtt samhengi. Ég talaði við sálfræðing um áreiðanleika minninga og leitaðist við að láta fræðilegar vísanir endurspeglast í frásögninni. Titill verksins „Hvað nú?“ ber með sér spurningu en svarið mótast í framvindu verksins þar til niðurstaða fæst sem er í stuttu máli sú að menntun bjóði okkur upp á val.

Gluggi inn í reynslu annarra

Halla Birgisdóttir, listamaður, myndlistarkennari og myndskáld, sjálfstætt starfandi listamaður og stundakennari við Listaháskóla Íslands

Útgangspunkur listrannsóknar sem hér er kynnt er bókin Tók ég eftir því þá eða tók ég eftir því eftirá? þar sem höfundur fjallar um reynslu sína af því að missa tökin á raunveruleikanum og fara í geðrof. Hún notar samspil teikninga og texta til þess að miðla reynslunni á listrænan máta og kannar þannig hvernig bókin geti hjálpað öðrum og virkað sem útgangspunktur fyrir samtal. Út frá hugmyndum um líkamnaða merkingarsköpun skoðar höfundur hvernig við getum notað myndhverfingar til þess að setja okkur í spor annarra og fá innsýn inn í þeirra reynslu. Hún fékk sjö einstaklinga til þess að lesa bókina og í framhaldi áttu þær samtal sem niðurstöður rannsóknarinnar eru byggðar á. Við úrvinnslu gagnanna var notuð þemagreining og í framsetningu lögð mikil áhersla á frásögnina, til þess að lesandinn nái að mynda tengsl við það sem fjallað er um, að hún hafi áhrif á hann og hægt sé að sökkva sér í lesninguna. Myndræn frásögn spilar þar stórt hlutverk, þar sem ekki er einungis sagt frá, heldur sýnt. Við greiningu urðu til þrjú þemu: Ólík sjónarhorn, Þögn og Brú. Þegar við tökum frásagnir úr okkar innri veröld og setjum þær myndrænt fram þannig að þær mæti skilningi annarra, getum við upplifað tengsl á milli frásagna okkar. Innri heimar okkar skarast og snertast þegar þeir hittast, í gegnum listir, í raunveruleikanum. Geðrof er ekki eitthvað eitt og birtingarmynd þess verður ekki steypt í mót. Með því að veita innsýn inn í reynsluna er hægt að gera umfjöllunarefnið síður ósýnilegt.

Myndlæsi og menningarheimar

Magnús Dagur Sævarsson, grunnskólakennari

Í meistaraverkefninu mínu frá listkennsludeild í LHÍ fjallaði ég um hlutverk kennslu í myndlæsi á grunnskólastigi. Til þess að svara þessari spurningu rannsakaði ég í hverju felast grunnþættir myndlæsis hvernig form, litir og tákn hafa áhrif á upplifun okkar. Einnig kannaði ég hvort markviss kennsla í myndlæsi geti hjálpað nemendum að skilja eigin samtíma betur, ólíka menningarheima og gert okkur víðsýnni og gagnrýnni. Í þessum fyrirlestri mun ég segja frá því hvernig ég hef unnið að því að þróa áfram niðurstöðurnar úr rannsókn minni sem og hvernig þær hafa hjálpað mér að þróa áfram hugmyndir mínar um kennslu í myndlæsi. Ég hef starfað sem myndmenntakennari í unglingaskóla síðustu 4 árin þar sem ég hef unnið markvisst að tilraunum til að þróa kennslu í myndlæsi til dæmis með að sýna nemendum hvernig litir hafa áhrif á neysluvenjur okkar, upplifun okkar á stofnunum, stjórnmálaflokkum og hvernig tákn eru notuð til að fá okkur til að samþykkja ákveðna hugmyndafræði. Einnig hef ég unnið að því að fá nemendur til að túlka og tjá sig um myndlist út frá eigin reynsluheimi. Ég mun deila reynslu minni af þeim möguleikum sem markviss kennsla í myndlæsi hefur til að efla hugtakaskilning, siðferðisþroska, víðsýni og lýðræðislega hugsun nemenda. Niðurstöður mínar sýna glöggt hlutverk myndlæsis við að auka hugtakaskilning nemenda og orðaforða. Einnig mun ég taka dæmi um hvernig litir, form og tákn hafa áhrif á daglega upplifun okkar á heiminum og hvernig við drögum merkingu út frá myndum bæði ómeðvitað og meðvitað.