Íslenska æskulýðsrannsóknin 2022 – Heilsa og lífskjör íslenskra skólabarna

Hans Haraldsson

Íslenska æskulýðsrannsóknin

Gagnagöt í spurningakönnunum meðal íslenskra unglinga

Hans Haraldsson, verkefnastjóri, Menntavísindastofnun, HÍ

Í íslenskum grunnskólum eru margar spurningakannanir lagðar reglulega fyrir nemendur. Nokkuð er um atriðabrottfall í slíkum könnunum, bæði vegna þess að svarendur sleppa einstökum spurningum og vegna þess að þeir heltast úr lestinni. Síðarnefnda tegund brottfalls eykst eftir því sem könnun er lengri. Markmið rannsóknar var að kanna hvort spurningalistar í íslenskum grunnskólakönnunum væru svo langir að atriðabrottfall ógnaði réttmæti niðurstaðna. Atriðabrottfall í þremur könnunum sem lagðar voru fyrir á árunum 2018, 2019 og 2022 var greint. Um var að ræða HBSC 2018, bakgrunnspurningalista PISA-könnunarinnar 2018, ESPAD 2019 og HBSC 2022 (sem fór fram undir merkjum Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar). Allar kannanirnar voru lagðar fyrir rafrænt. Niðurstöður sýna að atriðabrottfall var umtalsvert í könnununum sem fóru fram 2018 og 2019. Í ESPAD könnuninni koma fram nokkuð afgerandi merki um að brottfall væri tengt þeirri hegðun sem spurt er um í könnuninni og gæti þess vegna bjagað niðurstöður. Í könnuninni 2022 jókst atriðabrottfall svo mun hraðar eftir því sem leið á könnunina. Atriðabrottfall er veruleg og vaxandi ógn við réttmæti niðurstaðna grunnskólakannana. Líklegt er að aukningin á milli kannana skýrist að stórum hluta af því að rafrænum könnunum er oftast svarað á öðrum tækjum 2022 en 2018 og 2019. Það er sennilegt að spurningakannanir sem lagðar verða fyrir í framtíðinni þurfi að vera styttri en áður og að framsetningu þurfi að breyta.

Gæði gagna eftir tegund tækja í Íslensku æskulýðsrannsókninni

Unnar Geirdal Arason, verkefnastjóri, Menntavísindstofnun, HÍ

Netkönnunum er hægt að svara með mismunandi tækjum. Í ljósi þess hve fjölbreytt úrval tækja er á markaðnum er mikilvægt að skilja takmarkanir hvers með tilliti til gæði gagna. Gæði gagna, eins og brottfallstíðni, fjöldi gagnagata og tíma sem það tekur þátttakanda að fylla út spurningalistann getur verið mismunandi eftir því hvort svarað sé á fartölvu, spjaldtölvu eða síma. Gagnasafn Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar er tilvalið til að leggja mat á tengsl gæði gagna og tegunda tækja meðal barna og unglinga. Á undanförnum árum hefur Ísland tekið miklum framförum í innleiðingu á tölvum og spjaldtölvum í grunnskólakerfinu. Þessi rannsókn miðar að því að meta gæði gagna eftir því hvaða tæki svarendur nota þegar þeir svara Íslensku æskulýðsrannsókninni. Misjafnt er eftir skólum hvort nemendur fái fartölvu eða spjaldtölvu. Upplýsingum var safnað um tegund tækja í skólum á höfuðborgarsvæðinu til að framkvæma samanburðinn. Könnun okkar gefur til kynna umfang breytileika í brottfallstíðni, fjölda gagnagata og tíma sem það tekur að klára könnunina þegar mismunandi gerðir tækja eru notaðar af svarendum.

Fjórði hver nemandi í 6. bekk tilkynnti einelti skólaárið 2021-22.

Kristján Ketill Stefánsson, lektor, MVS HÍ

Málum hjá bráðateymi Barna- og unglingageðdeildar (BUGL) fjölgaði um 25% á árunum 2019–2021 og eru flest málanna tilkomin vegna alvarlegrar sjálfsskaða- eða sjálfsvígshættu. Erlendar yfirlitsrannsóknir hafa sýnt fram á sterk tengsl milli eineltis og geðrænna vandamála s.s. þunglyndis, kvíða, og sjálfsskaðahugsana. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða hvort greina mætti aukningu á tilkynntu einelti í íslenskum grunnskólum á undanförnum árum í ljósi aukins málafjölda hjá BUGL. Rannsóknin var eftirvinnsla (e. post-analysis) á gögnum úr Íslensku æskulýðsrannsókninni og Skólapúlsinum. Mikill meirihluti nemenda í 6., 8. og 10. bekk á Íslandi (um 3 þús. nemendur í hverjum árgangi) svöruðu könnununum. Niðurstöður beggja kannana bentu til þess að tilkynnt einelti hefði aukist töluvert í 6., 8. og 10. bekk á síðustu 5 skólaárum. Mest tilkynnt einelti 2022 mældist í 6. bekk eða 26% í Íslensku æskulýðsrannsókninni og hafði þá aukist um 4 prósentustig frá árinu 2018. Sama hlutfall mældist 25% í Skólapúlsinum og hafði þá aukist um 5 prósentustig frá árinu 2018. Fjallað verður um réttmæti eineltismælinga í Íslensku æskulýðsrannsókninni og Skólapúlsinum en notast er við ólíka úrtaksgerð og ólíkar skilgreiningar á einelti og tímalengd í hvorri könnun fyrir sig. Fjallað verður um niðurstöðurnar í tengslum við erlendar rannsóknir sem tengja dalandi andlega líðan unglinga m.a. við aukna nýmiðlanotkun (e. new media use).

Jaðarsvörun í æskulýðsrannsóknum

Ólöf Ragna Einarsdóttir, verkefnastjóri Menntavísindastofnunar, HÍ

Ekki er alltaf hægt að taka öllum söfnuðum rannsóknagögnum sem gildum sannleika um raunveruleikann. Þegar unnið er með gagnasöfn þarf að huga að mörgum áhrifaþáttum. Undanfarið hefur aðferðum fjölgað til að bera kennsl á þessa þætti svo hægt sé að fjarlægja þá úr gögnunum svo niðurstöðurnar sýni sem raunverulegustu mynd. Rannsóknir hafa sýnt fram á nokkra veigamikla þætti sem geta haft áhrif á niðurstöður. Þar má nefna tímalengdina sem það tekur að svara könnuninni, svarstíll þar sem sami svarkostur er alltaf valinn og misræmi í svörun. Í erindinu verður fjallað um ýkta svörun nemenda sem svöruðu Íslensku æskulýðsrannsókninni sem lögð var fyrir í grunnskólum landsins vorið 2022. Ekki hafa verið gerðar margar rannsóknir sem fjalla um þennan hóp svarenda sem eiga það til að svara í hálfkæringi. Fyrri skoðanir okkar á eldri gögnum æskulýðsrannsókna hafa bent til þess að svarstílar þátttakenda geti haft nokkur áhrif á niðurstöður rannsókna sérstaklega þegar um fátíða hegðun er að ræða.

Félagsleg staða barna sem eiga annað foreldrið af íslenskum uppruna en hitt af erlendum.

Ingibjörg Kjartansdóttir, verkefnastjóri Menntavísindastofnunar, HÍ

Í erindinu verður sjónum beint að börnum sem eiga annað foreldrið af íslenskum uppruna og hitt af erlendum. Ekki hefur verið mikið fjallað um þennan hóp í íslenskum æskulýðsrannsóknum. Af 9.100 svarendum, sem voru með engin vöntunargildi varðandi fæðingarstað foreldra, voru tæp 11% sem áttu annað foreldrið fætt erlendis. Samanburður við gögn Hagstofunnar um uppruna grunnskólanema benda til að nauðsynlegt sé að bæta þekju nemenda af erlendum uppruna að hálfu eða ölluleiti. Frumniðurstöður okkar á gögnum Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar frá vorinu 2022 benda til að félagslegir þættir þessara barna séu nokkuð frábrugðnir þáttunum meðal ungmenna sem eiga báða foreldra fædda á Íslandi eða erlendis. Miðað við samanburðarhóp, börn sem eiga báða foreldra fædda á Íslandi, eru vísbendingar um að þau finni oftar fyrir einmanaleika, geta síður rætt vandamál sín við fjölskylduna og færri þeirra telja bekkjarfélagana taka sér eins og þau séu. Hins vegar upplifa allir upprunahópar góðan stuðning kennara óháð kyni.