Mál og samskipti leikskólabarna

Lengi býr að fyrstu gerð – Málörvunarstundir í leikskóla

Theodóra Mýrdal, leikskólakennari, Leikskólinn Tjarnarsel

Markmið þessarar starfendarannsóknar er að skoða hvernig 3 leiðbeinendur með ólíkan bakgrunn og starfsreynslu ásamt einum kennara nota kennslugagnið Málörvunarstundir – lengi býr að fyrstu gerð til að undirbúa sig fyrir markvissar málörvunarstundir í litlum hópum í hópastarfi. Rannsóknin fór fram í einum leikskóla frá desember 2021 fram í febrúar 2022. Kennslugagnið sem um ræðir eru spjöld sem hafa forskrift að málörvunarstundum fyrir börn á aldrinum 2-6 ára. Málörvunarstundirnar eru settar saman á fjölbreyttan hátt og snúa að því að efla málþroska barna, þ.e. skilning og tjáningu með því að vinna með hljóðkerfisvitund, hljóðavitund, orðaforða og frásagnarhæfni. Einnig miða þær að því að styrkja félagsþroska barna með leikjum og fjölbreyttum spilum. Markmiðið með því að útbúa spjöldin var að gefa starfsfólki leikskóla tækifæri til að auka gæði málörvunarstunda. Starfsfólk og kennarar velja sér spjald og undirbúa stundina án þess að það taki of langan tíma. Einnig að reynsluminni kennarar og leiðbeinendur tileinki sér fagleg vinnubrögð í málörvunarstundum á skýran og skjótan hátt. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að málörvunarspjöldin efla alla þátttakendur. Þau hjálpuðu kennaranum við að undirbúa og framkvæma málörvunarstundir á markvissan hátt þar sem áhersla var lögð á alla þætti sem koma fyrir í málþroska. Spjöldin voru hjálpargagn við val á aðferðum og efni. Einnig sköpuðu þau ramma um skipulag, sérstaklega þegar lítill tími gafst til undirbúnings. Leiðbeinendurnir öðluðust allir meiri faglegri sýn og lærðu hvernig ætti að byggja upp markvissa málörvunarstund og öðluðust skilning á mikilvægi markvissrar málörvunar.

Leikur sem meginnámsleið barna

Sara M. Ólafsdóttir, dósent, MVS HÍ og Kristín Karlsdóttir, dósent, MVS HÍ

Í þessu erindi verður fjallað um gildi leiks í námi leikskólabarna en samkvæmt aðalnámskrá leikskóla á leikur að vera hornsteinn leikskólastarfs. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi leiks fyrir börn en á sama tíma hefur áhersla aukist á bóknám þar sem jafnframt er lagt mat á afmarkaða færniþætti. Hætt er við að áhersla á bóknám verði á kostnað leiks og því þarf að standa vörð um hann. Til þess að öðlast betri skilning á leik sem meginnámsleið barna var rýnt í fyrri rannsóknir um leik þar sem notaðar hafa verið fjölbreyttar aðferðir við gagnaöflun og byggt á mismunandi fræðilegum grunni og sjónarhornum. Helstu niðurstöður sýna að leikur barna hefur fjölbreyttar birtingarmyndir og hefur verið túlkaður á mismunandi hátt út frá ólíkum sjónarmiðum. Leikur og nám er háð því hvort hugmyndir, áhugamál og athafnir barnanna innan leiks séu „í brennidepli“. Börn nota fleiri aðferðir við lausnaleit, eru virkari þátttakendur og sýna meiri ánægju/gleði en í aðstæðum þar sem kennsluhættir eru formlegri eða meiri stýring er af hálfu leikskólakennara. Álykta má að leikskólakennarar þurfi að þekkja mismunandi skilgreiningar á leik barna, vita hvernig skoða má leik út frá mismunandi sjónarhornum og móta leiðir til þess að taka þátt í leik barna á þeirra forsendum. Með þátttöku í leik barna þróa leikskólakennarar skilning sinn á leik sem þeir geta nýtt til að ígrunda starf sitt, styðja við áhrifamátt barna og samskipti við þau. Með því móti geta þeir nýtt þekkingu sína til þess að styðja við nám barna í gegnum leik.

Vinsælustu ljóðabækurnar í leikskólanum

Helga Birgisdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ

Í leikskólum landsins er unnið fjölbreytt og metnaðarfullt starf sem tengist bókmenntum á breiðum grundvelli; hvort sem um er að ræða sögur eða ljóð. Í fyrirlestrinum verður fjallað um niðurstöður rannsóknar á því hvaða ljóðabækur leikskólakennarar kjósa að lesa og vinna með í starfi sínu og hvaða ljóðabækur það eru sem börnin sjálf helst velja í skólanum. Tilgangurinn er sá að afla upplýsinga um bókakost leikskólanna, fjölda og tegund bóka sem nefndar eru og fá fram samanburð á vali kennara og nemenda. Rannsóknargögnin sem stuðst er við eru könnun sem gerð var á vormánuðum 2022 þar sem kennarar og nemendur voru meðal annars spurðir að því hvaða bók þau vildu helst lesa í skólanum eða væri lesin fyrir þau. Jafnframt voru tekin viðtöl við fimm leikskólakennara og fimm leikskólabörn um ástæður þeirra fyrir vali sínu. Alls voru 60 bókatitlar nefndir en allra vinsælasta bókin reyndist vera Vísnabókin sígilda og langvinsælasti höfundurinn Þórarinn Eldjárn. Langflestar bækurnar sem nefndar voru samanstanda af hefðbundnum vísum og kvæðum þar sem stuðlar, höfuðstafir og rím leika stór hlutverk. Niðurstöðurnar gefa til kynna að bókakostur leikskólanna skipti höfuðmáli þegar kemur að vali kennara á bókum og margir myndu kjósa fleiri bækur og nýrri en velji það „besta“ úr því sem til er. Þá er ljóst af viðtölunum, og greiningu gagna, að val kennara og hvernig þeir vinna með bækurnar hefur mikil áhrif á val barnanna sjálfra.

Óyrt tjáskipti tveggja ára barna: Samtalsgreining

Bryndís Gunnarsdóttir, doktorsnemi, MVS HÍ

Þessi rannsókn er hluti af doktorsverkefni höfundar í menntunarfræðum við Háskóla Íslands. Tilgangur rannsóknarinnar sem kynnt er hér er að skoða hvaða óyrtu tjáskiptaaðferðir tveggja ára börn nota helst til að hefja samskipti við félaga sína. Rannsóknin er tilviksrannsókn sem fór fram á smábarnadeild í leikskóla á landsbyggðinni, gögnum var safnað með myndbandsupptökum á níu mánaða tímabili. Þátttakendur voru 19 börn en rannsóknin snýst um fjögur börn sem fylgt var eftir og tjáskipti þeirra við jafningja sína skrásett. Börnin fjögur voru 1,8 ára til 2,7 ára meðan á gagnaöflun stóð. Niðurstöður gefa til kynna að tveggja ára börn eru góð í að lesa í félagslegar aðstæður og þau geta breytt um stefnu, leiðrétt þær aðferðir sem þau nota og þannig komið af stað samskiptum. Þær tjáskiptaaðferðir sem þau nota mest til að hefja samskipti eru augnatillit og snerting en bros er einnig mikilvæg brú á milli þeirra. Niðurstöðurnar sýna einnig að þessi samskipti geta oft varið stutt en eru samt mikilvæg í sjálfu sér. Umhverfið í leikskólanum getur haft mikil áhrif á hvernig þessi samskipti ganga og hvaða tækifæri börnin hafa til að velja sér félaga til að eiga í samskiptum við, og mikilvægt er að hafa það í huga þegar deildir fyrir yngstu börnin eru skipulagðar. Hlutverk kennarans er einnig mikilvægt sem stuðningur við þessi samskipti og skiptir miklu máli að starfsfólk á yngstu deildunum þekki hvernig þessi tjáskipti líta út og hvernig hægt er að styðja við börnin.

Vinsælast í Vísnabókinni

Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, lektor, MVS HÍ 

Árið 2021 fagnaði Vísnabókin ástsæla 75 ára afmæli sínu og komin er út ný og vegleg útgáfa bókarinnar (2020), sú þrettánda frá árinu 1946 þegar bókin leit fyrst dagsins ljós. Bókin hefur orðið lífseig og selst í 500–1500 eintökum á ári. Ástæða er því til að rýna í innihald afmælisbarnsins og velta upp spurningum um efnisvalið, hlutverk bókarinnar, áhrif hennar og erindi við nútímabörn. Í erindinu verður sjónum fyrst og fremst beint að þeim hluta rannsóknarinnar sem varðar hvað af efni Vísnabókarinnar er enn haldið að ungum börnum í öðrum útgefnum vísnabókum fyrir börn, í vísnabókum leikskóla, á rafrænum efnisveitum fyrir leikskóla og á vinsælum barnaplötum á Spotify. Niðurstöðurnar eru þær að af 153 titlum bókarinnar er um það bil 30–40 þeirra gegnumgangandi í því vísnaefni sem haldið er að börnum í framangreindum miðlum. Þar er fyrst og fremst um að ræða efni sem hægt er að syngja. Þessir titlar standa enn mjög sterkt í vísnaefni fyrir börn, þeim er enn haldið að þeim og eru þeim töm á tungu. Að því leyti eru áhrif Vísnabókarinnar mikil. Enn fleiri ljóð bókarinnar, eða nærri helmingur, koma þar þó aldrei fyrir og vekur það óneitanlega spurningar um erindi bókarinnar í óbreyttri mynd. Ef til vill er því kominn tími til að gefa Vísnabókina út fyrir snjalltæki þannig að börn geti flett henni sjálf, skoðað myndirnar og hlustað á upplestur, söng eða undirspil að eigin vali.