Leikskólastarfið og rannsóknir

Að skrá og meta leikskólastarf í undirbúningstíma

Kristín Karlsdóttir, dósent, MVS HÍ, Sara Margrét Ólafsdóttir, dósent, MVS HÍ, Anna Magnea Hreinsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ, Margrét Sigríður Björnsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ

Hér verða ræddar rannsóknarniðurstöður um nýtingu aukins undirbúningstíma leikskólakennara samkvæmt nýlegum kjarasamningum. Aðallega snýr umfjöllunin að þeim hluta undirbúningstímans sem fjallar um mat og skráningu í leikskólastarfi. Leikskólakennarar nýta undirbúningstíma sinn til að auka fagmennsku í starfinu; m.a. að byggja upp og leiða lærdómssamfélag, sem felur í sér að stuðla að virkri þátttöku samstarfsfólks og hlusta á raddir barna. Byggt er á hluta gagna rannsóknar sem fram fór í átta leikskólum með það að markmiði að skoða skipulag, framkvæmd og áhrif undirbúningstíma leikskólakennara. Byggt er á viðtölum við 24 viðmælendur: leikskólastjóra, deildarstjóra og leikskólakennara í átta leikskólum. Í niðurstöðum kom fram að meirihluti viðmælendanna sögðust nota skráningalista, m.a. TRAS, til að meta og fá yfirsýn yfir stöðu barna og þróa faglegt starf. Skráningar (s.s. Uppeldisfræðilegar skráningar, Námssögur) voru notaðar í einum þátttökuleikskólanna. Flestir viðmælenda sögðust ekki nýta þess konar skráningar, en nokkrir  vonuðust til að fljótlega myndi skapast rými til þess í undirbúningstímanum, sem væri þegar yfirfullur af verkefnum. Í nokkrum leikskólanna var lögð áhersla á að vinna með starfsmannahópnum, til að styðja við samvinnu meðal leikskólakennara og annars starfsfólks. Afar sjaldan nefndu viðmælendur að þeir nýttu hluta undirbúningstímans til að vera inni á deild, t.d. til að leiðbeina og vinna með samstarfsfólki eða til að vinna skráningar með börnum og komast þannig nær sjónarmiðum þeirra. Álykta má að betri nýting skráninga í leikskólastarfi geti gert sjónarmið barna sýnilegri, aukið skilning á því sem gerist í leik og með því móti þróað matsaðferðir sem styðja við áhrifamátt barna.

Reynsla og styrkleikar einstaklinga sem sinna stuðningi í leikskólum

Magnea Arnardóttir, leikskólakennari og þroskaþjálfi, Leikskólinn Rauðhóll 

Rannsóknin var gerð á persónustyrkleikum einstaklinga sem sinna stuðningi við börn á leikskóla og hvaða bjargir hafa reynst þeim einstaklingum vel til þess að sinna störfum sínum sem best. Markmið rannsóknarinnar var að komast að því hvaða bjargir, styrkleikar eða annað geri það að verkum að starfsfólk sem sinnir stuðningi geti gert það vel og lengi. Rannsóknin var eigindleg og tekin voru einstaklingsviðtöl við einstaklinga sem starfað hafa að minnsta kosti í tvö ár sem stuðningur á leikskóla hjá Reykjavíkurborg. Einnig voru nýttar niðurstöður persónustyrkleikaprófa einstaklinganna. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að stuðningur stjórnenda, húmor og sveigjanleiki einstaklinga auk jafningjahandleiðslu, formlegrar og óformlegrar, á vettvangi hefur reynst þessum einstaklingum best í sinni vinnu í leikskólanum. Ályktanir út frá niðurstöðum eru þær að velja þurfi fólk vel í stuðning í leikskóla og horfa megi til þess að fólk sé sveigjanlegt, hafi húmor fyrir sjálfu sér og sinni vinnu. Einstaklingar sem hafa óbilandi lærdómsást og manngæsku í sínum persónustyrkleikum. Virðingu fyrir fólki, skilning á snemmtækri íhlutun og þörfum barna með sérþarfir og nægan stuðning frá stjórnendum, samstarfsfólki og öðrum sem sinna stuðningi.

Flæði og samþætting – þróunarverkefni fjögurra leikskóla

Sigrún Grétarsdóttir, skólastjórnandi, Leikskólinn Hólaborg, Anna Magnúsdóttir, skólastjórnandi, Leikskólinn Sunnufold, Agnes Jónsdóttir, Leikskólinn Funaborg, skólastjórnandi og Pála Pálsdóttir, skólastjórnandi, Leikskólinn Engjaborg

Markmið verkefnisins er að styrkja kennara og annað starfsfólk leikskólanna í að vinna að sjálfseflingu og félagsfærni í leikskólunum í daglegu starfi og að efla kerfisbundin vinnubrögð í flæðandi starfi leikskólanna. Tilgangurinn er að undirstrika mikilvægi þess að koma auga á hugmyndir barnanna og bregðast við þeim með því að huga að skipulagi leikumhverfis, leikefnis, tíma og þeim möguleikum sem börnin hafa til að þróa hugmyndir sínar og leik. Verkefnið var unnið í anda náms- og samstarfssamfélags leikskólanna og var fléttað saman við daglegt starf og viðfangsefni. Reglulega voru sameiginlegir fundir stjórnenda leikskólanna sem byggðu á fræðslu og samræðu um daglegar athafnir og samskipti innan leikskólanna. Var efnið síðan rætt nánar á deildarfundum með öllu starfsfólki. Niðurstöður verkefnisins sýna að þátttakendum fannst mikilvægt að vera til staðar fyrir börnin í leik, kenna og leiðbeina, ekki stýra of mikið. Þeim fannst börnin eiga að stýra leiknum í samræmi við eigin hugmyndir. Starfsfólk þyrfti að vera meðvitað um námið sem á sér stað í leik, að virða leikreglur barnanna og hugmyndir þeirra. Þeim fannst mikilvægt að bera virðingu fyrir hugmyndum barnanna og grípa þær og leyfa þeim að þróa leikinn. Einnig að börnin upplifi að lifa þar sem er hlustað á þeirra raddir. Verkefnið hefur gefið þátttakendum tækifæri til að hugsa upp á nýtt það sem verið er að gera og annaðhvort styrkja það eða breyta og allir vita og skilja hvers vegna verið er að breyta.

Á milli stúdentsprófs og heimsreisu

Gerður Magnúsdóttir, leikskólakennari, Leikskólinn Sólhvörf

Markmið þessarar rannsóknar er að skoða þann hóp ungs fólks sem velur að vinna tímabundið í leikskóla fljótlega eftir stúdentspróf. Lagt var upp með að svara eftirfarandi spurningum: Hver eru viðhorf níu ungra leiðbeinenda sem starfa tímabundið í leikskólum til leikskólastarfsins? Og hins vegar: Hverjar eru helstu ástæður þess að það leggur ekki fyrir sig leikskólakennaranám? Rannsóknin var unnin með eigindlegum rannsóknaraðferðum þar sem tekin voru hálfopin viðtöl við níu unga einstaklinga sem starfa sem leiðbeinendur eða leiðbeinendur með stuðningi á fimm leikskólum á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöðurnar sýna skýrt að áhrif foreldra á náms- og starfsval viðmælenda eru mikil og bendir allt til þess að þær skoðanir byggi mikið á hugmyndum um laun og mismikilvæg störf og menntun. Auk þessa spila fyrirmyndir stórt hlutverk því að viðmælendur sjá ekki framtíðina í því að sækja í leikskólakennaranám og upplifun þeirra af leikskólaumhverfinu mótar einnig skoðanir þeirra og viðhorf. Þessi rannsókn sýnir að vert er að skoða þetta efni enn betur, ekki síst hvaðan skoðanir foreldranna koma og hvernig leikskólaumhverfið hefur áhrif á unga leiðbeinendur. Þær upplýsingar sem verða til við þessa rannsókn og framhaldsrannsóknir á sama efni gætu nýst í ímyndarvinnu leikskólakennara og til þess að ná betur til þessa hóps á framhaldsskólastigi.

What characterizes Icelandic preschool edcuation research in the 21st century

Anna Árnadóttir, adjunct, MVS HÍ and Brynja Elísabeth Halldórsdóttir, associate professor, School of Education, UI

Icelandic educational research has in the past 40 years increased significantly. In this presentation we discuss a systematic review of research on preschools in the Icelandic educational context. A previous review of educational research conducted 2003-2005, by Kaldalóns and Macdonald (2005) based on publication data from 1998-2002, examined educational research and publications from preschool to upper secondary education. Our goal in this presentation is to extend this previous survey to better understand what types of research have been prevalent on Icelandic preschools in the past 20 years. Understanding the development trajectories of education research allows for critical understanding of research trends and characteristics, which can then illuminate the gaps. Our data show that there has been significant development of research and subsequent academic publications related to the preschool level. The focus of the articles is highly diverse and include topics such as language acquisition, gender identity development and multicultural education (including immigrants and refugees). Preliminary findings further indicate that methodological descriptions have become more developed and detailed in qualitative research (which is the primary methodological choice) and that action research has become increasingly popular as a research methodology, reflecting a trend of teacher actively working in the field while conducting their research. Findings also reflect a gendered difference in authors, where women have published significantly more than men about preschool research, which reflects the profession’s gender disparity as 93% of employees in preschools are women.