Leiðir til læsis

Kerfisbundinn og markviss stuðningur við lestrarnám

Fjóla Björk Karlsdóttir, aðjúnkt, HA og Guðmundur Engilbertsson, lektor, HA

Í lestrarkennslu þarf að halda vel utan um marga þræði og fylgja þeim eftir til þess að lestrarnámið verði sem farsælast. Í mörgum tilvikum þarf að einstaklingsmiða kennslu og veita viðeigandi og markvissan stuðning. Hluta nemenda reynist erfitt að ná tökum á lestri og árangur þeirra veltur gjarnan á því að greina stöðu þeirra sem fyrst og veita þeim þann stuðning sem þarf. Í erindinu verður gerð grein fyrir rannsókn á því hvernig mati á lestri á yngsta stigi grunnskóla er háttað og hvernig því er fylgt eftir. Leitast er við að skilja hversu markviss og kerfislægur stuðningurinn er, hvað einkennir starf í þeim efnum og hvernig megi styrkja það. Tekin voru viðtöl við átta starfandi sérfræðinga á sviði lestrarkennslu (tilgangsúrtak). Niðurstöðurnar sýna að innan skólanna er lögð áhersla á lesskimun og mat á lestrarfærni strax á fyrstu mánuðum lestrarnámsins í grunnskóla og áfram út 2. bekk en formleg lesgreining á sér þó ekki stað fyrr en í 3. bekk. Skimun, greining og kennsla virðast fylgja kerfisbundnu ferli en niðurstöður benda þó til ákveðins veikleika er varðar ábyrgð, verkaskiptingu og kennslu svo best verði haldið utan um nám allra nemenda og að þeir fái viðeigandi stuðning í lestri. Niðurstöðurnar dýpka þekkingu á starfsháttum er varða lestrarkennslu fyrstu árin í grunnskóla og stuðning við nemendur sem standa höllum fæti í lestrarnámi. Niðurstöðurnar geta nýst sem leiðarljós við stefnumörkun og þróun skipulags og starfshátta í þágu lestrarnáms barna.

Læsi til náms: læsislíkan á þremur stigum

Guðmundur Engilbertsson, lektor, HA

Á undanförnum árum hefur John Hattie gert grein fyrir niðurstöðum viðamikillar rannsóknar á tengslum ýmissa þátta og aðferða við námsárangur. Jafnframt hefur Hattie ásamt fleirum sett hluta niðurstaðna í samhengi við líkan af læsi á þremur stigum. Stigin þrjú mynda ákveðið ferli, frá grunnnámi (e. surface literacy learning), til djúpnáms (e. deep literacy learning) og til yfirfærslunáms (e. transfer literacy learning). Grunnnám felur í sér öflun grunnþekkingar, djúpnám stuðlar að dýpri eða sértækari þekkingu og yfirfærslunám snýr að merkingarsköpun – að tengja saman ýmsa þætti þekkingar og endurbirta á nýjan hátt. Þetta eru gagnleg fræði sem gefa góða mynd af læsi í víðum skilningi og lýsa því í hvaða samhengi árangursríkar kennsluaðferðir virka best. Fræðin sýna t.d. hvenær er árangursríkast að huga markvisst að eflingu lesskilnings og orðaforða, að nota aðferðir eins og hugræna kortagerð, samræðu til náms eða gagnvirkan lestur, ítarlestur, þrautalausnaaðferðir o.s.frv. Eðli og aðgreining hvers læsisstigs skýrir hvers vegna aðferðir eins og bein kennsla virka best á grunnnámsstigi, og þrautalausnaaðferðir á yfirfærslunámsstigi. Í erindinu verður gerð grein fyrir læsislíkaninu, hvað einkennir hvert stig og hvers konar aðferðir hæfa á hverju stigi. Þessi fræði er skynsamlegt að hagnýta í þágu læsis, náms og kennslu og þau skýra að hluta til hvers vegna niðurstöður rannsókna á gildi aðferða eru oft eins misvísandi og raun ber vitni.

Áhrif tónlistarnáms á lestrarfærni og lesblindu: Samantekt á niðurstöðum nýlegra rannsókna á áhrifum tónlistariðkunar á skynjun og úrvinnslu málhljóða

Helga Rut Guðmundsdóttir, prófessor, MVS HÍ

Rannsóknin fólst í því að taka saman rannsóknir síðustu 20 ára á sviði heila- og taugavísinda, skynjunarsálfræði, tónlistarsálfræði og lestrarfræða þar sem viðfangsefnið var áhrif tónlistarnáms eða tónlistariðkunar á vitsmunalega færni sem tengist og hefur áhrif á textalestur. Rannsóknin er innblásin af kenningum sem halda því fram að tungumálanám (máltaka) og tónlistarnám deili sömu taugabrautum í heilanum, að einhverju leyti, sem leiði til þess að tónlist og tungumál skarist þannig að hvort um sig hafi óumflýjanlega áhrif á hitt. Slíkar kenningar hafa mikilvæga þýðingu fyrir hlutverk tónlistar í máltöku barna en ekki síður fyrir skilning og nám á táknrænu formi tungumálsins þegar kemur að textalestri og textalæsi. Samkvæmt UNESCO fellur færnin að lesa og skrifa undir grundvallarmannréttindi. Niðurstöður margra ólíkra rannsókna benda til þess að tónlist hafi í eðli sínu einstök áhrif á skynjun málhljóða og úrvinnslu þeirra. Í erindinu er gert skýrt grein fyrir því hvað átt er við með hugtakinu tónlist og tónlistariðkun í þessu samhengi og einnig útskýrt nákvæmlega hvaða þættir tónlistar s.s. rytmi eða laglína geta (samkvæmt rannsóknum) haft áhrif á hvaða þætti heyrnrænnar og vitsmunalegrar greiningar þegar kemur að skynjun og úrvinnslu málhljóða. Þar sem málhljóð og skynjun þeirra eru undirstaða góðrar færni í lestri er mikilvægt að skilja til hlítar hvaða leiðir eru færar til að stuðla að og styðja við öfluga málhljóðagreiningu. Þetta á bæði við um ung börn á máltökualdri en einnig getur þessi þekking nýst til að styðja við nemendur sem eiga erfitt uppdráttar í lestrarnámi vegna meðfæddra skynjunarvandamála, s.s. lesblindu.

Felast töfrar í tölum?

Anna Söderström, doktorsnemi, FVS HÍ

Lestrarkennsla grunnskólabarna er ekki bara spurning um að ná tökum á bókstöfum heldur koma tölur einnig töluvert við sögu. Í menntastefnu eru sett fram lestrarmarkmið sem mælast í tölum, lestrarhraði er ítrekað mældur og tölfræði úr PISA-könnunum rædd. Jafnvel heimalestur er mældur og skráður í fjölda mínútna eða blaðsíða. Tölur og tölfræði er auðvelt að skilja og ræða þar sem slík framsetning býr oft til skýra mynd af flóknum veruleika. En hvað segja þessar tölur um lestrarmenningu og skilning á hvað læsi er og gæti verið? Í þessu erindi verður sjónum beint að sambandi lesturs og talna í þeim tilgangi að skoða afleiðingar þess sem kalla má talnavæðingu læsis. Um er að ræða eigindlega rannsókn sem er unnin með gagnrýninni orðræðugreiningu á stefnuskjölum, skýrslum og opinberri umræðu um lestur ásamt þemagreiningu á 12 opnum hálfstöðluðum djúpviðtölum við foreldra barna í 1.-6. bekk grunnskóla um reynslu þeirra af heimalestri. Þær niðurstöður sem hér eru kynntar eru hluti af yfirstandandi doktorsrannsókn í þjóðfræði þar sem lestrarmenning í íslensku samfélagi er tekin til skoðunar. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna m.a. að talnavæðing læsis hefur í för með sér auknar áherslur á þætti sem er auðvelt að mæla, eins og lestrarhraða og fjölda daga sem heimalestur er stundaður, á kostnað annarra þátta læsis, t.d. skilnings og áhuga. Tölurnar gegna því ekki eingöngu því hlutverki að kortleggja lestur nemenda heldur hafa þær mótandi áhrif á hvað talið er felast í lestri og læsi. Slíkar áherslur geta virkað fráhrindandi og fælt ákveðinn hóp nemenda frá ástundun lesturs.