Íslenska sem annað mál

Íslenskuþorpið í grunnskólum í Grafarvogi og Kjalarnesi: Reynsla og tækifæri

Karen Rut Gísladóttir, prófessor, MVS HÍ, Hanna Ragnarsdóttir, prófessor, MVS HÍ og Guðlaug Stella Brynjólfsdóttir, verkefnastjóri Íslenskuþorpsins

Börnum með önnur móðurmál en íslensku hefur fjölgað hratt í íslenskum skólum á undanförnum árum. Auk þess að stutt sé við móðurmál þeirra er mikilvægt að þau nái góðum tökum á íslensku til að styrkja þau í námi og þátttöku í íslensku samfélagi. Íslenskuþorpið byggir á rannsóknum á því hvernig tungumál lærast í félagslegum samskiptum. Íslenskuþorpið er kennsluverkefni í íslensku sem öðru máli þar sem boðið er upp á markvisst og sérsniðið æfingaumhverfi í raunverulegum aðstæðum. Kennsluaðferðin myndar brú úr kennslustofunni yfir í dagleg samskipti á íslensku og virkrar þátttöku í skólasamfélaginu. Í Íslenskuþorpinu er samið við velviljaða einstaklinga um að taka þátt í verkefninu og eiga samskipti við nemendur, þannig er íslenskunámið gert aðgengilegt, hagnýtt og skemmtilegt.  Markmið rannsóknarinnar var að skoða tækifæri til málnotkunar í raunverulegum aðstæðum sem felast í kennsluverkefnum Íslenskuþorpsins og hvernig kennurum og skólastjórnendum gengur að halda utan um, tileinka sér og þróa þessi verkefni. Eftirfarandi rannsóknarspurning var höfð að leiðarljósi: Hver er reynsla kennara (þorpsstjóra) og skólastjóra af Íslenskuþorpinu? Rannsóknin fór fram á árunum 2020 til 2022. Gögnin sem aflað var á þessu tímabili eru; verkefnalýsingar, verkefni nemenda, upptökur af samtölum, spurningakönnun, viðtal við verkefnastjóra og rýnihópaviðtöl við kennara og skólastjórnendur. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að kennarar taka eftir framförum í íslensku hjá nemendum sem rekja má til Íslenskuþorpsvinnunnar. Kennarar tileinkuðu sér ný verkefni og nýjar leiðir sem ýta undir málnotkun og efla samstarf og tengsl við aðra kennara.

Viltu tala íslensku við mig? Kennsluverkefni í íslensku sem öðru máli

Guðlaug Stella Brynjólfsdóttir, verkefnastjóri Íslenskuþorpsins, HVS

Grunnskólarnir í Grafarvogi og á Kjalarnesi leituðu til Íslenskuþorpsins sem er kennsluverkefni í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands við mótun verkefnisins „Viltu tala íslensku við mig?“ Töluðu máli hefur ekki verið gert nægjanlega hátt undir höfði í kennslu íslensku sem annars máls. Megintilgangur og markmið með verkefninu Viltu tala íslensku við mig? er að skapa aukin tækifæri fyrir nemendur til að tala íslensku og jafnframt styrkja félagsfærni og sjálfstraust þeirra í skólasamfélaginu. Í Íslenskuþorpinu er boðið upp á markvisst og sérsniðið æfingaumhverfi fyrir nemendur í raunverulegum aðstæðum þar sem gengið er út frá því að tungumál lærist í félagslegum samskiptum. Aðferðin myndar brú úr kennslustofunni yfir í dagleg samskipti á íslensku og virkrar þátttöku í skólasamfélaginu. Samið er við velviljaða einstaklinga um að taka þátt í verkefninu og eiga samskipti við nemendur, þannig er íslenskunámið gert aðgengilegt, hagnýtt og skemmtilegt. Fræðilegur grundvöllur Íslenskuþorpsins byggir m.a. á doktorsrannsókn Guðrúnar Theodórsdóttur, dósents í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands frá 2010. Þar sýna niðurstöður hvernig hægt er að nýta hversdagsleg samskipti utan kennslustofunnar til tungumálanáms. Nýjar rannsóknir í máltileinkun ganga út frá því að máltileinkun geti ekki orðið og verði ekki án málnotkunar. Rannsóknir sýna jafnframt að það sem skiptir mestu máli er að tala við einhvern sem kann meira í nýja málinu en nemandinn sjálfur og að tungumálanámið fari fram í samhengi við aðstæður. Í fyrirlestrinum verður greint frá Íslenskuþorpinu og umfangi þess í grunnskólum Grafarvogs og á Kjalarnesi, sagt frá kennsluaðferðinni, verkefnum nemenda og stuðningsnetinu.

Hagnýtt íslenskunámskeið fyrir foreldra barna með fjölmenningarlegan bakgrunn á grunnskólaaldri: Þróunarverkefni í Sveitarfélaginu Árborg

Aneta Figlarska, kennsluráðgjafi í fjölmenningu, Sveitarfélagið Árborg, Anna Linda Sigurðardóttir, deildarstjóri fjölmenningardeildar í Vallaskóla, Sveitarfélagið Árborg og Anna Katarzyna Wozniczka, verkefnastjóri í málefnum flóttamanna hjá Sveitarfélaginu Árborg og doktorsnemi, MVS HÍ

Í erindinu verður fjallað um rannsókn á ávinningum íslenskunámskeiðs fyrir foreldra barna með fjölmenningarlegan bakgrunn á grunnskólaaldri sem haldið var haustið 2021. Um var að ræða  þróunarverkefni hjá Fjölskyldusviði Árborgar styrkt af Íslenskusjóðnum Háskóla Íslands. Rannsóknir sýna að tungumálaörðugleikar geta hindrað þátttöku foreldra í námi barna sinna og þeir geta upplifað sig einangraða. Aðalnámskrá grunnskóla gerir ráð fyrir að foreldrar séu virkir þátttakendur í skólasamfélaginu í samvinnu við starfsmenn skóla. Veturinn 2021/22 voru 12% grunnskólanema í Árborg með fjölmenningarlegan bakgrunn. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða hvort og hvernig námskeiðið efldi notkun foreldranna á íslensku máli sem og þekkingu þeirra á íslensku skólakerfi. 12 foreldrar og 11 börn þeirra tóku þátt í námskeiðinu en boðið var upp á málörvun fyrir börn í samstarfi við Rauða krossinn. Kennt var tvö kvöld í viku í fimm vikur. Að kennslu stóðu deildarstjóri fjölmenningardeildar, kennsluráðgjafi í fjölmenningu og verkefnastjóri í málefnum flóttamanna hjá sveitarfélaginu. Safnað var skriflegum upplýsingum um íslenskukunnáttu foreldranna og viðhorf þeirra til námskeiðsins í upphafi og lok námskeiðsins. Einnig var stuðst við dagbækur kennaranna. Nemendahópurinn var fjölbreyttur hvað varðar bakgrunn og þarfir. Niðurstöður benda til þess að í lok námskeiðsins voru foreldrarnir betur upplýstir og sjálfstæðari, m.a. í foreldraviðtölum, skráningu barna í frístundir og við notkun Mentor-kerfisins. Námskeiðið var stutt en þátttakendurnir fengu engu að síður gott rými til tjáningar og spurninga. Brýn þörf er fyrir námskeið af þessu tagi en það eykur hlutdeild foreldra í námi barna sinna, styrkir samstarf á milli heimilis og skóla og eflir tengslanet milli foreldra.