Mæður og feður

Fullkomin og frábær: Lýsingar mæðra á börnum sínum í opinberum viðtölum 1970-1979 samanborið við 2010-2019

Auður Magndís Auðardóttir, lektor, MVS HÍ

Í þessari rannsókn greini ég með hvaða hætti lýsingar mæðra á börnum sínum í opinberum viðtölum hafa breyst yfir 50 ára tímabil. Ég greindi 130 viðtöl við mæður í íslenskum fjölmiðlum, annars vegar á árunum 1970-1979 og hins vegar á árunum 2010-2019. Í greiningunni nota ég fræðilegan ramma ákafrar mæðrunar og hrifa í tengslum við nýfrjálshyggju. Einnig set ég niðurstöður greiningarinnar í samhengi við kenningar um andstyggilega bjartsýni (e. cruel optimism). Niðurstöður sýna að á fyrra tímabilinu (1970-1979) eru lýsingar á börnunum sjaldgæfar og stuttar. Börnum er þar lýst sem sjálfstæðum og jafnréttissinnum sem endurspeglar opinbera orðræðu þessa tíma sem hverfðist mjög um þátttöku mæðra í atvinnulífinu og jafnrétti kynjanna. Á síðara tímabilinu (2010-2019) eru lýsingar á börnum algengari og nákvæmari. Börnum er þá lýst sem hæfileikaríkum, fullkomnum, hamingjusömum og andlega gefandi fyrir mæðurnar. Þessi mikli munur á lýsingum eftir tímabilum bendir til þess að tilfinningareglur nýfrjálshyggjunnar hafi núorðið áhrif á það með hvaða hætti mæður lýsa börnunum sínum opinberlega. Segja má að með lýsingum sínum á börnunum sem fullkomnum og hæfileikaríkum nái mæðurnar fram markmiðum nýfrjálshyggjunnar um samkeppnishæfni, fullkomnun og sýningu á jákvæðum tilfinningum fram yfir aðrar tilfinningar. Að auki er tilvist barnanna skilgreind sem persónuleg og andleg uppvakning fyrir mæðurnar sem vekur spurningar um með hvaða hætti við skiljum samband okkar við börn og hvaða áhrif nýfrjálshyggjan hefur á þann skilning.

Fósturbarn og hvað svo? Staða fyrrum fósturbarna á fullorðinsárum

Birgitta Rós Laxdal, félagsráðgjafi, Kvennaathvarfið og Freydís Jóna Freysteinsdóttir, dósent, FVS HÍ

Þegar tekin hefur verið ákvörðun um að ráðstafa barni í fóstur fer af stað ferli sem hefur mikil áhrif á líf þess. Fósturbörn hafa oftar en ekki þurft að alast upp við mikinn óstöðugleika, ofbeldi eða vanrækslu. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að fyrrum fósturbörn standa höllum fæti þegar kemur að ýmsum þáttum á fullorðinsárum svo sem menntun, tekjum og geðheilsu. Markmiðið með þessari rannsókn var að kanna stöðu fyrrum fósturbarna á Íslandi, auk þess að skoða hvernig þau upplifðu tímann sem þau dvöldu í fóstri. Rannsóknin var megindleg og var sendur út rafrænn spurningalisti á 101 fyrrum fósturbarn sem höfðu lýst yfir áhuga á að fá að taka þátt í rannsókninni eftir að auglýst hafði verið eftir þátttakendum á Fésbók, og svöruðu 89 þeirra. Niðurstöðurnar sýndu að fyrrum fósturbörn eiga erfitt uppdráttar á fullorðinsárum eftir að fóstri lýkur. Meirihluti fyrrum fósturbarna var aðeins með grunnskólapróf og voru þau flest með langtum lægri tekjur en meðaltekjur í landinu. Þau höfðu langflest upplifað mikla geðræna og andlega erfiðleika og höfðu þau næstum öll annaðhvort upplifað sjálfsvígshugsanir eða gert tilraun til sjálfsvígs. Niðurstöðurnar sýna einnig að þau hefðu þurft á faglegri aðstoð að halda en flest þeirra voru að glíma við mikla erfiðleika en fengu engin boð um viðtöl til að hjálpa þeim að vinna úr sínum málum. Fósturbörn hafa oftast ekki stórt stuðningsnet í kringum sig og er því mikilvægt að þessi hópur týnist ekki og fái stuðning frá félagsráðgjöfum eða öðrum sem vinna með málefni þeirra.

„Allt í einu er bara kominn … lítill einstaklingur … og það snýst allt um hann“: Upplifun feðra af ábyrgð, þroska og breyttri lífssýn

Pála Margrét Gunnarsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ, Hrund Þórarins Ingudóttir, lektor, MVS HÍ, Ingibjörg V. Kaldalóns, lektor, MVS HÍ

Lítið er um rannsóknir á áhrifum barneigna og barnauppeldis á þroska og lífssýn foreldra. Markmið þessarar rannsóknar var að öðlast aukinn skilning á því hvernig feður upplifa ábyrgð, þroska og breytta lífssýn við það að eignast og eiga börn. Fyrirbærafræðilegri nálgun var beitt, þar sem tekin voru opin viðtöl við níu feður. Þeir áttu tvö til þrjú börn, 13 ára eða yngri, og bjuggu allir með barnsmóður sinni. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að það að eignast og eiga börn hafði áhrif á þroska og lífssýn feðranna að þeirra mati. Líf feðranna breyttist mikið við að eignast barn, þá sérstaklega vegna þeirrar miklu ábyrgðar sem föðurhlutverkinu fylgdi. Þessi ábyrgð hvatti feðurna til að gera breytingar á eigin lífi í samræmi við það hvernig feður þeir vildu vera og til að hugsa betur um sjálfa sig. Feðurnir voru meðvitaðir um þann áhrifamátt sem þeir höfðu í lífi barna sinna og mikilvægi þess að vera góð fyrirmynd. Greinilegt var að börnin voru í fyrsta sæti í þeirra lífi, en í orðum feðranna mátti greina breyttar hugmyndir um lífið og hvað skipti þá máli. Daglega lífið með börnunum gaf feðrunum tækifæri til að bæta ýmislegt hjá sjálfum sér og hafði þannig áhrif á þeirra persónulega þroska. Feðurnir töluðu um að verða betri í hlutverki sínu með aukinni reynslu, þar sem þeir urðu afslappaðri, mildari, þolinmóðari og sveigjanlegri. Á heildina litið var föðurhlutverkið einstök upplifun sem hvatti feðurna til aukins þroska og breyttrar lífssýnar. Rannsóknin er mikilvægt framlag til rannsókna á upplifun feðra af hlutverki sínu.

Hvernig næ ég að vera fyrirmyndarforeldri og halda öllum boltum á lofti?

Ragný Þóra Guðjohnsen, lektor, MVS HÍ

Frá upphafi alda hafa bæði almenningur og spekingar af ýmsu tagi haft uppi margvíslegar hugmyndir um uppeldisaðferðir sem foreldrar eiga að styðjast við. Ekki gefst tími í þessu erindi til að reifa sögu uppeldis í fjölmenningarlegu samhengi, heldur verður sjónum beint að uppeldisaðferðum sem notaðar hafa verið hér á landi í áranna rás. Upp í hugann koma margs konar myndir og minningar sem sumar hverjar byggja á eigin reynslu eða sögusögnum frændgarðsins en aðrar byggja á lýsingum í bókum, blöðum, kvikmyndum eða þáttum í sjónvarpi og útvarpi. Ein myndin sem kemur upp í hugann er barnið í sveitasamfélaginu sem fékk frelsi en samhliða skýrt hlutverk á heimilinu þar sem verkefnin eru mörg. Önnur mynd er borgarbarn sem elst upp á heimili þar sem móðirin er heimavinnandi ásamt flestöllum konum í hverfinu. Barnið nýtur frelsis og móðirin notar innsæið í uppeldinu ásamt fáum en skýrum reglum. Næstu myndir sem koma upp í hugann tengjast upplýsingaöldinni þegar mæður og síðar foreldrar leita sér ráða í tímaritum, bókum og síðar netmiðlum. Samhliða þeirri þróun byggist upp ofurtrúin á sérfræðingana sem geta „lagað“ barnið þitt. Tilgangur erindisins er í fyrsta lagi að reifa þessa sögu og á hvaða fræðilega grunni þessar hugmyndir byggja. Í öðru lagi verður sagan sett í samhengi við hugmyndir og leit nútímans að töfralausn í uppeldi sem gerir nútímaforeldrum kleift að vera fyrirmyndarforeldrar en halda samhliða öllum boltum á lofti.