Inngildandi háskólamenntun í fjölþjóðlegu ljósi: Erasmus+ samstarfs- og þróunarverkefni

Ágústa Björnsdóttir

Námsnefnd um starfstengt diplómanám

JoinIn – Vertu með! Þróun inngildandi háskólanáms í Evrópu

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, sviðsforseti, MVS, Ruth Jörgensdóttir Rauterberg, aðjúnkt, MVS, HÍ og Bergljót Gyða Guðmundsdóttir, dósent, MVS HÍ

Í erindinu verður sagt frá Erasmus+ verkefni um inngildandi háskólanám í Evrópu, sem Háskóli Íslands hefur átt aðild að ásamt háskólum í Austurríki, Þýskalandi og á Írlandi. Verkefnið snýr að þróun námstilboða fyrir fólk með þroskahömlun en allir samstarfsaðilar bjóða upp á slíkt nám. Markmið verkefnisins var að skapa upplýsinga-, samskipta- og þróunarvettvang fyrir inngildandi háskólanám í Evrópu. Í verkefninu voru eftirfarandi spurningar hafðar að leiðarljósi: Hvað þarf til þess að geta boðið upp á inngildandi háskólanám? Hvernig er best að fræða starfsfólk og nemendur um slíkt nám? Hvernig er best að miðla þekkingu og reynslu um inntak, skipulag og framkvæmd inngildandi háskólanáms? Í erindi verða kynnt námstilboð fyrir fólk með þroskahömlun við Háskóla Íslands og í samstarfsháskólum. Sagt verður frá vinnunni sem fór fram í ramma verkefnisins og þeim afurðum sem hún hefur skilað. Þróaður var rammi og leiðarvísir um inngildandi háskólanám (e. curriculum framework) sem háskólar geta nýtt til þess að meta eigið námsframboð eða setja upp ný. Einnig voru settir saman fræðslupakkar fyrir starfsfólk og nemendur. Stofnað var vefsetur sem fékk nafnið JoinIn – European Network for Inclusive Higher Education, þar sem háskólar í Evrópu, sem bjóða upp á nám fyrir fólk með þroskahömlun, geta skráð sig og komið upplýsingum um námið á framfæri. Allar afurðir verkefnisins eru aðgengilegar á vefnum. Þátttaka í verkefninu var gagnleg og þýðingarmikil fyrir inngildandi háskólanám, sér í lagi þróun náms fyrir fólk með þroskahömlun, við Menntavísindasvið og Háskóla Íslands. 

„Má ég í alvöru koma með?“ Upplifun nemenda í starfstengdu diplómanámi við Háskóla Íslands af námsferð til Cork í Írlandi.

Ágúst Arnar Þráinsson, verkefnastjóri starfstengds diplómanáms MVS HÍ

Nemendur í starfstengdu diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun fóru í námsferð til Cork (University College Cork) þar sem markmiðið var að kynnast háskólanámi fyrir fólk með þroskahömlun í öðrum evrópskum háskólum. Eftir ferðina fengu nemendur spurningar um hvernig námið á Íslandi er í samanburði við sambærilegt nám í evrópskum háskólum. Hvað er vel gert? Hvað má bæta? Hvernig gerum við háskólanám aðgengilegra? eru meðal þeirra spurninga sem verður svarað. Einnig verða áskoranir við ferðalög fatlaðs fólks ræddar. Upplifun nemenda af þessum samanburði er nokkuð góð og staðan á margan hátt góð í Háskóla Íslands. Það er þó alltaf áskorun að tryggja að nemendur með þroskahömlun fái tækifæri til að rækta áhugamál sín og styrkleika. Niðurstöður og upplifun og reynsla nemenda af ferðalaginu verða kynnt í þessu erindi.

Hversu inngildandi er starfstengt diplómanám fyrir nemendur með þroskahömlun við Háskóla Íslands? Mat starfsfólks og nemenda

Bergljót Gyða Guðmundsdóttir, dósent, MVS HÍ, Ruth Jörgensdóttir Rauterberg, aðjunkt MVS HÍ og  Ágúst Arnar Þráinsson, verkefnastjóri MVS HÍ

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er kveðið á um að aðildarríki tryggi fötluðu fólki aðgengi að námi á háskólastigi og starfsþjálfun, án mismununar og til jafns við aðra. Þrátt fyrir þessa skýru kröfu er framboð háskólanáms fyrir fólk með þroskahömlun mjög takmarkað, bæði hérlendis og erlendis, og því nauðsynlegt að fjölga tækifærum þessa nemendahóps til inngildandi (e. inclusive) og vandaðs náms á háskólastigi. Háskóli Íslands tók þátt í Erasmus+ verkefni um inngildandi háskólanám í samstarfi við háskóla í Austurríki, Írlandi og Þýskalandi, þar sem eitt markmiða var að setja saman leiðarvísi um innihald slíks náms (e. curriculum framework). Í leiðarvísinum eru m.a. settir fram fimm gátlistar/gæðavísar, s.s. um stefnu og uppbyggingu náms, algilda hönnun í námi, inngildingu, persónumiðaðan stuðning og áhrif, en segja má að inngilding sé rauður þráður í leiðarvísinum í heild sinni. Starfsfólk og nemendur mátu starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun við HÍ með gátlista/gæðavísi sem beinist sérstaklega að inngildingu og birtingarmynd hennar innan námsins. Í þessu erindi verður sagt frá fyrstu niðurstöðum og ljósi þannig varpað á mögulega styrkleika og takmarkanir námsins. Einnig verður rætt um það hvernig þessar niðurstöður og leiðarvísirinn geta nýst við áframhaldandi þróun inngildandi háskólanáms, bæði innan og utan HÍ.

Hver er staða starfstengds diplómanáms og hvert er ferðinni heitið?  Þróun námsins, áskoranir og framtíðarsýn

Ágústa Björnsdóttir, verkefnastjóri starfstengds diplómanáms MVS HÍ og Ragnar Smárason, aðstoðarmaður, MVS HÍ

Starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun hóf göngu sína haustið 2007. Námið er staðsett í deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Diplómanámið er einstaklingsmiðað og starfsmiðað og nemendur stunda bóklegt nám í háskólanum og verklegt nám á starfsvettvangi. Tilgangur námsins er að veita fólki með þroskahömlun möguleika til fullgildrar samfélagsþátttöku í inngildandi skólaumhverfi. Námið er skipulagt í samræmi við yfirlýsta alþjóðlega stefnu hagsmunasamtaka fólks með þroskahömlun, mannréttindasáttmála og þá sérstaklega samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, stefnu Háskóla Íslands og stefnu um skóla án aðgreiningar. Frá því að námið hóf göngu sína hefur það þróast og breyst töluvert. Í erindinu verður leitast við að svara áleitnum spurningum er varða þróun námsins bæði á Menntavísindasviði og á önnur svið Háskólans. Hver er staða námsins í dag og hvert er ferðinni heitið? Námið hefur staðið frammi fyrir margs konar áskorunum og má þar nefna fjöldatakmörkun nemenda, námskeiðsúrval og þátttöku allra við inngildingu nemenda. Í erindinu verður fjallað um þessa þætti og hvað þurfi til að festa námið enn frekar í sessi og styrkja stöðu þess. Þá verður fjallað um gildi þess að fá tækifæri til taka þátt í Erasmus+ verkefni og hvernig það getur átt þátt í þróun námsins.