Menntaflétta – Námssamfélög í skóla- og frístundastarfi

Oddný Sturludóttir

Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs

„Ég hugsaði á dýpri hátt um hvernig hægt væri að miðla starfsháttum mínum til annarra.“

Oddný Sturludóttir, aðjunkt MVS HÍ, Ingileif Ástvaldsdóttir, aðjunkt MVS HÍ og Jenný Gunnbjörnsdóttir, verkefnastjóri HA

Í erindinu verður fjallað um starfsþróunarverkefnið Menntafléttu – námssamfélög í skóla- og frístundastarfi, með áherslu á námssamfélög á þrenns konar vettvangi; Námssamfélag í teyminu sem stýrir verkefninu, námssamfélag sem myndast á námskeiðunum sjálfum og loks námssamfélag í skólum þátttakenda. Nýtt verða gögn úr námsígrundunum, sólarsögum og lokamati þátttakenda í Menntafléttunni, sjálfsrýni og gögn verkefnastjórateymis og ígrundun kennara úr Menntafléttusamfélaginu. Stuðst verður við þemagreiningu við greiningu gagnanna. Niðurstöður benda til þess að svipað hátt hlutfall þátttakenda á námskeiðum Menntafléttunnar gekk vel eða mjög vel annars vegar og illa eða mjög illa hins vegar, að mynda námssamfélög á vettvangi um viðfangsefni námskeiðanna. Niðurstöður benda einnig til þess að þátttaka í framkvæmd verkefnisins, hvort sem er í hópi verkefnastjóra eða kennara námskeiðanna, hefur haft jákvæð áhrif á hæfni þeirra í að þróa skólastarf. Rannsókninni er ætlað að varpa ljósi á þau skilyrði sem verða að vera til staðar í skólum til að námssamfélög kennara nái fótfestu. Rannsókninni er einnig ætlað að greina þau áhrif sem þátttaka í skipulagi og framkvæmd Menntafléttunnar hefur á hlutaðeigendur. Menntafléttan – námssamfélög í skóla- og frístundastarfi er viðamesta og fjárfrekasta starfsþróunarverkefni stjórnvalda hin síðari ár og því er mikilvægt að draga lærdóm af framkvæmdinni og þeim áhrifum sem námskeið Menntafléttunnar hafa á þróun náms og kennslu.

Efling námssamfélags stærðfræðikennara á Menntafléttunámskeiði

Birna Hugrún Bjarnardóttir, verkefnisstjóri MVS HÍ

Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða hvað einkennir þróun námssamfélaga stærðfræðikennara á námskeiði Menntafléttunnar og hvernig líkan hennar nýtist til að efla námssamfélög. Markmiðið var einkum að skoða hvernig grunnuppbygging námskeiða Menntafléttunnar nýtist við að efla stærðfræðikennara í starfi. Gerð var starfendarannsókn þar sem gögnum var safnað um þróun námssamfélags í einum grunnskóla og skoðað hvernig efni námskeiðsins Hugtakaskilningur í stærðfræði nýttist til að efla stærðfræðikennslu. Rannsóknin fór fram skólaárið 2020-2021 og var rannsakandi háskólakennari á viðkomandi námskeiði. Eigin vettvangsnótur og gögn frá fundum í skólanum sem fylgst var sérstaklega með voru megingögn rannsóknarinnar ásamt fundargerðum af fundum háskólakennara sem kenndu á námskeiðinu með rannsakanda. Auk þess var spurningalisti lagður fyrir leiðtoga allra þeirra skóla sem tóku þátt í námskeiðinu. Helstu niðurstöður sýna að námskeiðslíkan Menntafléttunnar virðist henta kennurum vel til starfsþróunar og fannst þeim námsefnið nýtast til að styðja við stærðfræðikennslu. Kennarar töldu sig hafa gagn af þátttöku í námskeiðinu þó að undirbúningur þeirra fyrir fundina hafi verið misjafn og mismunandi hve mikið þeir náðu að rýna í og nýta efnið til hlítar í kennslu. Niðurstöður sýna einnig að námssamfélagið sem var sérstaklega rannsakað efldist á meðan rannsókn stóð yfir. Til að námssamfélög eflist í skólum þarf markvissan stuðning skólastjórnenda við faglega samvinnu kennara og gefa þarf þeim tíma til starfsþróunar. Hafa þarf í huga að breytingar á skólamenningu taka tíma og það tekur meira en eitt ár fyrir námssamfélag að festa rætur. 

Námskeið Menntafléttunnar um stærðfræði í leikskóla: Stuðningur við mótun námssamfélaga í leikskólum

Margrét S. Björnsdóttir, aðjunkt MVS HÍ og Jónína Vala Kristinsdóttir, dósent, MVS HÍ

Tilgangurinn með erindinu er að varpa ljósi á þriggja ára þróunarverkefni um menntun stærðfræðileiðtoga í leikskólum sem hófst haustið 2020. Markmið verkefnisins er að byggja upp námssamfélag í leikskólum með áherslu á að læra að greina og styðja við stærðfræðileg viðfangsefni barna í leik og starfi. Námskeiðið Stærðfræði í leikskóla er á vegum Menntafléttunnar og byggir á efni frá Skolverket í Svíþjóð. Því er skipt upp í þrjú námskeið og er hverju þeirra skipt í fjóra þróunarhringi. Leiðtogarnir sækja námskeið með háskólakennurum og vinna svo með samstarfsfólki sínu að því að greina stærðfræðina í athöfnum barnanna. Á næsta námskeiðsdegi er sagt frá samstarfinu í leikskólanum og næsti þróunarhringur undirbúinn. Unnið var með 5-6 leiðtogum úr þremur leikskólum í tvö skólaár og rannsakað hvernig efnið hentaði leikskólum á Íslandi. Haustið 2021 var leikskólakennurum um allt land boðið að taka þátt í fyrsta námskeiðinu og tóku leiðtogar úr 20 skólum þátt. Gögnum var safnað með skráningu minnispunkta á námskeiðsdögum, heimsóknum í leikskóla, námssögum og svörum leiðtoganna við opnum spurningum. Unnið var úr gögnunum frá upphafi og niðurstöður nýttar til að þróa verkefnið. Rannsóknin nýttist vel til að laga námskeiðið að leikskólanum og aðstæðum þar. Leiðtogarnir gátu nýtt sér námskeiðið til að byggja upp námssamfélag innan leikskólans og meðal annarra leiðtoga. Sóknarfærin varðandi stærðfræði í leikskólum eru mikil og starfsmenn áhugasamir. Haustið 2022 verður efnið sett á opinn vef og verður fylgst með kennurum í tveimur leikskólum sem ætla að nýta sér efnið. Það er mikilvægt svo unnt verði að þróa efnið.

Þátttakendur í námskeiðum Menntafléttu

Ellen Dröfn Gunnarsdóttir, aðferðafræðingur, Menntavísindastofnun, HÍ, Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor MVS HÍ og Ingileif Ástvaldsdóttir, aðjunkt MVS HÍ

Menntafléttan er starfsþróunarverkefni á vegum Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Kennarasambands Íslands sem fór formlega af stað haustið 2021. Í tengslum við hana eru boðin fjölmörg námskeið fyrir kennara allra skólastiga og starfsfólk frístundamiðstöðva um allt land. Í öllum námskeiðunum er lögð áhersla á mótun námssamfélags í skólum. Frá byrjun árs 2021 og til vors 2022 voru 20 námskeið í boði. Námskeiðin eru metin með heildstæðum hætti til að meta áhrif á þekkingu og starfshætti þátttakenda. Í þessum fyrirlestri er fjallað um forsendur og aðferðir við mat á verkefninu í heild sinni og kynntar niðurstöður úr mati á þessum fyrstu námskeiðum. Sjónum er einkum beint að því hverjir tóku þátt og hvernig þátttakendur mátu áhrif á starfshætti sína. Gagna var aflað með spurningalistum sem þátttakendur svöruðu við upphaf og lok námskeiðs. Samtals skráðu um 1042 manns sig á námskeið. Þátttakendur komu úr leik-, grunn- og framhaldsskólum og dreifðust nokkuð jaft um landið. Tæplega þriðjungur þátttakenda voru kennarar sem höfðu starfað sem slíkir skemur en fimm ár. Flestir þeirra sem svöruðu lokamati voru ánægðir með þátttöku sína í námskeiðinu en voru sammála um að erfiðlega hafi gengið að mynda námssamfélag með samstarfsfólki. Niðurstöður verða nýttar til að þróa Menntafléttunámskeiðin enn frekar.