Hringborðsumræða

Hringborðsumræða um stöðu náttúruvísindamenntunar í almenna skólakerfinu

Stefán Bergmann, fyrrverandi dósent við MVS HÍ, Haukur Arason, dósent, MVS HÍ og Meyvant Þórólfsson, prófessor emeritus, MVS HÍ

Námskrárfræði snúast meðal annars um eftirfarandi spurningar:

  1. Hvað á að læra og kenna í skólum?
  2. Hvers vegna?
  3. Hvernig?
  4. Hvernig á að meta árangurinn?

Flestir eru án efa sammála um að „náttúruvísindi“ eða „náttúrufræði“ hljóti að felast í svarinu við fyrstu spurningunni, auk ýmissa annarra mikilvægra námssviða almenna skólakerfisins. Hins vegar má vænta að samhljómurinn reynist ekki eins sterkur þegar spurt er hvað á að kenna í náttúruvísindum, hvers vegna og hvernig. Og ekki síður þegar spurt er hvað á að leggja til mats á því sviði og hvernig. Þessi álitamál verða rædd við hringborðið í október með hliðsjón af íslenskum aðalnámskrám frá mismunandi tímum.

Hringborð náttúrunnar – um menntun og meðferð

Jakob Frímann Þorsteinsson, aðjúnkt, MVS HÍ, Hervör Alma Árnadóttir, doktorsnemi, MVS HÍ, Jón Ásgeir Kalmansson, aðjúnkt, MVS HÍ, Hrafnhildur Sigurðardóttir, kennari, Sjálandsskóli, Ólafur Oddsson og Ingibjörg Valgeirsdóttir, Saga Story House

Litið er á viðfangsefnið frá ólíkum sjónarhornum og spurningum varpað fram varðandi hlutdeild náttúrunnar í menntun. Ljósi verður varpað á niðurstöður rannsókna um gildi náttúrunnar í lífi og starfi og reynslu af útimenntun í háskóla. Í samræðunni verður leitast við að koma inn á hugmyndir að baki þess að virkja náttúruna í menntun og um áherslur fagfólks á vettvangi og innan Háskóla Íslands á „græna, hvíta og bláa“ þætti í menntun á háskólastigi. Velt verður upp spurningum sem tengjast því hvernig við notum uppeldislega nálgun í náttúrulegri kennslu við að ferðast um, með og í náttúrunni. Einnig rætt hvernig hægt sé að vinna með fjölbreytta hópa í náttúrunni með þverfaglegri nálgun. Markmiðið með hringborðsumræðunum er að leita saman, í gegnum stuttar hugvekjur og samtal, að færum leiðum til gera nám í háskóla náttúrulegra. Þátttakendur í hringborðinu er starfsfólk frá HÍ og fagfólk á vettvangi sem tengir náttúru við starf sitt.