Stjórnun á mismunandi skólastigum

„Þetta er bara djúpa laugin“: Reynsla leikskólakennara af upphafi deildarstjóraferilsins

Ester Jóhanna Sigurðardóttir, leikskólakennari, Leikskólinn Sólhvörf

Markmið rannsóknarinnar var að kanna reynslu leikskólakennara af því að hefja störf sem deildarstjórar. Tekin voru viðtöl við átta leikskólakennara sem höfðu starfað sem deildarstjórar í eitt til þrjú ár. Stuðst var við hálf-opinn viðtalsramma en í samtölunum var leitast við að skoða upplifun deildarstjóranna af upphafi deildarstjóraferilsins, undirbúningi fyrir starfið og áskorunum sem mættu þeim. Leitast var við að fá fram sjónarhorn deildarstjóranna á lærdómsferlið sem þeir fóru í gegnum á fyrstu tímabilum í starfinu. Margir leikskólakennarar upplifa takmarkaðan undirbúning fyrir deildarstjórahlutverkið í námi sínu en fjölbreytt reynsla nýtist þeim í starfinu. Stuðningur við deildarstjóra getur komið frá ólíkum aðilum en mikilvægt er að þeir fái tækifæri til að ígrunda starf sitt með öðrum. Deildarstjórarnir sem rætt var við sögðu starfsmannamál helstu áskorun sína í starfinu og töldu reynslu mikilvæga til að takast á við slík mál. Þeir töldu sig hljóta mikilvægan undirbúning fyrir deildarstjórastarfið bæði í námi sínu og af reynslunni en fannst erfiðast að takast á við aðstæður í fyrsta skipti. Mikilvægur undirbúningur fólst í því að starfa við hlið annars deildarstjóra og læra af reynslu annarra. Deildarstjórarnir leituðu eftir stuðningi, meðal annars frá leikskólastjórum og öðrum deildarstjórum. Nokkrir töluðu þó um að þörf væri á samræðuvettvangi fyrir deildarstjóra í ólíkum skólum þar sem þeir gætu deilt reynslu sinni og stutt við hver annan. Þrátt fyrir að deildarstjórarnir hafi lítið rætt um lærdómssamfélag var ljóst að þeir lögðu áherslu á einkenni lærdómssamfélags í starfi sínu og fannst mikilvægt að stjórnendur vinni að uppbyggingu lærdómssamfélags.

Samskipti í grunnskólum – Reynsla stjórnenda og kennara

Sædís Guðmundsdóttir, ráðgjafi og Sigrún Gunnarsdóttir, prófessor, FVS HÍ

Starfsfólk grunnskóla gegnir mikilvægu hlutverki við að þjálfa með börnum og ungmennum jákvæð og heilbrigð samskipti og vera þeim góðar fyrirmyndir. Uppeldis- og menntunarfræðingur og skólameistari bendir einmitt á í nýlegri blaðagrein að ef heilsa og hamingja og góð samskipti eru meðal þátta sem er flestra ósk og takmark í lífinu – því hefur þá ekki verið meiri áhersla á þá þætti í skólum? Markmið þessarar rannsóknar var að fá innsýn í reynslu stjórnenda og kennara af samskiptum í grunnskólum og skoða hvort áherslurnar endurspegli hugmyndafræði þjónandi forystu. Rannsóknin var eigindleg og viðtöl tekin við níu stjórnendur og kennara í grunnskólum víðs vegar um landið. Niðurstöður lýsa samskiptum miðað við áherslur sem snúa að stjórnendum, kennurum og nemendum og tengjast hlustun, dreifðri forystu, samvinnu, virkri þátttöku, tengslum og vera góðar fyrirmyndir til að sýna nemendum virðingu, byggja upp jákvæða sjálfsmynd og auka trú þeirra á eigin getu. Vísbendingar eru um að áherslurnar sem komu fram endurspegli þjónandi forystu og má þar helst nefna einlæga hlustun, traust, virðingu, opin og heiðarleg samskipti og gildi teymisvinnu. Einnig kom fram sérstakt gildi samskipta til að nemendur hefðu sem veganesti við lok grunnskólagöngu jákvæða sjálfsmynd, virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum sem og samskiptahæfni sem gæti jafnvel vegið þyngra en annað námsefni eins og einn viðmælandi lýsti: „… kennimyndir sagna eða þjálfa seiglu, eða þú veist sjálfsmynd …“. Niðurstöður benda til þess að mikilvægt sé að efla góð samskipti í grunnskólum og þar gæti hugmyndafræði þjónandi forystu nýst til að styrkja uppbyggileg samskipti stjórnenda, kennara og nemenda.

Þjónandi forysta í grunnskólum – úr íslenskum og enskum raunveruleika

Magnús Þór Jónsson, meistaranemi, Kennarasamband Íslands. Leiðbeinandi: Sigrún Gunnarsdóttir, prófessor, FVS HÍ

Tilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á gildi forystu fyrir árangur og farsæld skóla með því að greina stöðu þjónandi forystu í grunnskólum sem hafa verið farsælir í ytra mati í sínu heimalandi, Naustaskóli á Akureyri og Ardleigh Green í Romford. Gerð var megindleg spurningalistakönnun meðal starfsmanna skólanna tveggja, sem höfðu ekki unnið meðvitað með þjónandi forystu. Vægi þjónandi forystu í starfi skólanna var metið út frá OLA matstæki Jim Laub sem nær til mats þátttakenda á forystu á ýmsum stigum starfsins. Auk þess var starfsánægja könnuð og þátttakendur lögðu mat á gæði skólastarfs og tengsl skóla við nærsamfélagið. Þá voru tengsl þjónandi forystu og starfsánægju metin. Niðurstöðurnar sýna að í báðum skólum voru skýr merki um hugmyndafræði þjónandi forystu, þó sterkari í enska skólanum. Sterk jákvæð fylgni kom fram milli stöðu þjónandi forystu og starfsánægju sem er í takt við niðurstöður fyrri rannsókna um slík tengsl. Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um að farsælt skólastarf ber merki þjónandi forystu og að starfsánægja helst í hendur við hugmyndafræði þjónandi forystu. Starfsánægja á ríkan þátt í farsæld starfa, þ.á m. í skólastarfi eins og rannsóknir sýna og því vert að horfa til þess að auka vægi hugmyndafræði þjónandi forystu í skólastarfi. Aðferðafræði OLA-matstækisins gæti nýst við mat á skólastarfi hér á landi enda felur matstækið í sér þætti sem samrýmast þáttum í matsaðferðum sem bundnar eru í íslensk grunnskólalög, innra mati sem unnið er af hverjum skóla og ytra mati á vegum ráðuneytisins.

Reynsla stjórnenda og gæðastjóra í framhaldsskólum af innleiðingu og notkun gæðakerfis

Anna Jóna Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólagáttar og Endurmenntunar, Háskólinn á Bifröst og Börkur Hansen, prófessor, MVS HÍ

Gæðastjórnun er hugmyndafræði sem nýtt hefur verið í stjórnun fyrirtækja og stofnana. Færð hafa verið rök fyrir gagnsemi gæðastjórnunar í skólastarfi bæði á hugmyndafræðilegum og hagnýtum forsendum. Nokkrir íslenskir framhaldsskólar eru að feta þann veg að innleiða gæðastjórnunarkerfi til að styðja við stjórnun skólans. Þetta erindi byggist á rannsókn í fjórum framhaldsskólum þar sem gagna er aflað frá stjórnendum sem eru á þeirri vegferð. Í erindinu er dregin fram reynsla þeirra og lærdómur af ferlinu. Tveir skólanna hafa þegar skilgreint og innleitt verklag um nám og kennslu í gæðahandbók og tveir vinna að gerð og innleiðingu gæðahandbókar. Allir skólarnir nýta „verkfæri“ gæðastjórnunar fyrir sína starfsemi. Helstu áskoranir sem viðmælendur nefndu voru að vinna þessu tengd væri mikil og tímafrek og það væri flókið að laða fram skilning starfsfólks á gæðastjórnun og að fá það með sér í lið. Það sem helst hefur stutt við árangur við innleiðsluna er að þeir sem leiða hana séu framsæknir, leiti aðstoðar og afli sér þekkingar, hafi gott teymi í kringum sig, og eigi í virku samtali um gæðastjórnun við starfsfólk. Öllum stjórnendunum sem rætt var við fannst vera ávinningur af notkun á gæðakerfi. Helstu atriði sem þeir tóku fram var að verklag væri skýrt og leiðbeinandi, samræmi væri í því sem gert væri við úrlausnir mála, þekkingin varðveitist innan skólanna, verklagið stuðlaði að umbótum og skólaþróun, sem og eflingu faglegra vinnubragða.